Líðandi ár hefur verið líkt og síðasta ár allsérstakt vegna heimsfaraldursins sem sett hefur líf okkar flestra alls konar skorður.
Til að mynda var stórt skarð höggið í rekstur ÍBV annað árið í röð þegar ekki tókst að halda Þjóðhátíð. Lang mikilvægustu og stærstu fjáröflun félagsins. Þar að auki er hátíðin sem slík gríðarlega mikilvæg allri verslun og þjónustu í Eyjum, enda þrefaldast fólksfjöldinn þessa daga miðað við venjubundna helgi að sumarlagi.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði í aðdraganda þingkosninga á árinu að hann hygðist setja á laggirnar sjóð sem ætti að koma til móts við tjón á borð við það sem ÍBV varð fyrir. Enn er beðið eftir nánari upplýsingum um sjóðinn frá ráðherra.
Gott atvinnustig
Óhætt er að segja að atvinnulífið sé í góðum málum á Heimaey. Í október síðastliðinn var til að mynda 3,1% atvinnuleysi í Eyjum.
Sjávarútvegurinn hefur verið blómlegur og horfa margir fram á uppgrip í tengslum við stóra loðnuvertíð sem nú er að hefjast, eftir of mörg mögur ár í loðnuveiðum.
Einnig hefur verið líflegt í ört stækkandi ferðaþjónustu í Eyjum, en ferðamálasamtökin í samvinnu við bæjaryfirvöld hafa undanfarin misseri unnið að því að koma Vestmannaeyjum betur á kortið með markaðssetningu sem virðist vera að skila sér.
Mikið byggt
Annað sem vekur athygli er krafturinn í húsbyggingum í Eyjum. Mikið er byggt – bæði af atvinnuhúsnæði og ekki síður af íbúðarhúsnæði. Þannig hefur það verið um nokkuð langt skeið og vekur það athygli að þrátt fyrir allt þetta byggingarmagn fjölgar bæjarbúum því miður ekki í takti við fjölgun íbúða. Í ár komu 45 nýjar íbúðir inná markaðinn en á sama tíma má nefna að á kjörskrá fækkaði um 90 manns á milli alþingiskosninga.
En svo öllu sé til haga haldið hefur fjölgað um 64 í bæjarfélaginu á árinu. Það er vel, en mismunurinn á kjörskránni og fjölgun bæjarbúa helgast af því að erlendu vinnuafli hefur fjölgað.
Og áfram verður byggt upp. Bæjaryfirvöld samþykktu á dögunum fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar sem milljarður verður settur í framkvæmdir. Þá á að setja töluverða fjármuni á komandi árum í uppbyggingu íþróttamannvirkja, en samþykkt var í fyrstu atrennu að flóðlýsa Hásteinsvöll og setja á hann gervigras.
Ekki virðist þó einhugur innan hreyfingarinnar í Eyjum um forgangsröðun framkvæmda þar sem margir telja Hásteinsvöll vel boðlegan með hefðbundnu grasi, og hefðu frekar viljað sjá fjármunina nýtta til stækkunar á fjölnota íþróttahúsi við Hástein.
Fjögra daga utanlandsferð tók samanlagt ellefu daga
Um fátt er meira rætt í Vestmannaeyjum en samgöngur milli lands og Eyja. Í vor hóf Icelandair áætlunarflug til Eyja. Miklar vonir voru bundnar við að hægt væri að halda úti áætlunarflugi á markaðslegum forsendum. Það rættist því miður ekki og hætti Icelandair flugi til Eyja í lok ágúst og gaf það í leiðinni út að ekki væri mögulegt að sinna þessari flugleið án ríkisstyrks.
Ekkert hefur verið flogið milli lands og Eyja síðan, en nýverið kynnti samgönguráðuneytið að samið hafi verið um lágmarksflugáætlun milli lands og Eyja, sem þýðir að farnar verða tvær ferðir á viku. Á mánudögum er ein ferð og önnur á föstudögum. Eru þessar ferðir ríkisstyrktar, en það sem sannarlega vantar upp á í slíkri aðstoð er að notendur komist á milli samdægurs eða daginn eftir. Viðbúið er að með þessari áætlun verði sætanýting áfram lítil.
Það er staðreynd að heimamenn nýta flugið meira á veturna en á sumrin, þegar Herjólfur gengur oftar í Þorlákshöfn. Þ.e.a.s ef að flugáætlun er með eðlilegu móti, með ferðum kvölds og morgna 4-5 daga vikunnar.
Nýja ferjan hefur að mörgu leyti reynst ágætlega í þjónustu á siglingaleiðinni, en óhætt er að fullyrða að aðbúnaðurinn er verri á lengri siglingaleið, eins og í Þorlákshöfn. Þá vilja sjófarendur geta lagt sig í koju. Þær eru bæði færri og flestar í hópklefum í nýju ferjunni.
Sjálfur lenti skrifari í því, þegar hann fór erlendis í síðasta mánuði að fjögra daga utanlandsferð tók samanlagt ellefu daga. Fara þurfti fyrr þar sem allt stefndi í að Landeyjahöfn myndi lokast degi fyrir áætlaða utanferð. Þegar heim var komið brast á aftur með Þorlákshafnarsiglingum og var þá ákveðið að bíða þar til storminn lægði og sparihöfnin opnaðist. Það gerðist fimm dögum eftir komuna til landsins.
Á landsvísu
Annars finnst mér standa uppúr á landsvísu þetta endemis kosningaklúður í norð-vestur kjördæmi og þær ótrúlegu skýringar sem formaður kjörstjórnar kom fram með til að reyna að breiða yfir klúðrið. Það er einnig með ólíkindum að seinni talningin hafi verið látin gilda þar sem atkvæðin höfðu legið á glámbekk í nokkrar klukkustundir.
Í þessu máli má segja að dómarinn hafi flautað leikinn af undir morgun, og tilkynnti hann alþjóð úrslitin. Leikmenn og aðstoðardómarar fóru heim til hvíldar eftir langan leik. Dómarinn mætti svo til leiks á ný fyrstur manna morguninn eftir og flautaði leikinn á að nýju, en nú að fjarstöddum aðstoðardómurum og leikmönnum. Við það breyttust úrslit leiksins svo eftir var tekið á heimsvísu! Svona klúður hefði ekki einu sinni gerst hjá KSÍ.
Talandi um KSÍ. Undirritaður hefur fylgst með óförum Knattspyrnusambandsins undanfarnar vikur eins og þorri landsmanna. Samband sem KSÍ á að vera fyrirmynd íþróttafélaga í landinu. Ljóst er að sambandið hefur beðið hnekki og mun það taka tíma að vinna aftur traust landsmanna.
2022...
Á komandi ári ganga landsmenn til sveitarstjórnarkosninga. Hér í Eyjum eiga í dag þrjú framboð fulltrúa í bæjarstjórn. Á þessu kjörtímabili var samþykkt að fjölga bæjarfulltrúum úr sjö í níu, sem tekur gildi við næstu kosningar.
Það þýðir að nær ógjörningur verður fyrir eitt framboð að ná hreinum meirihluta, eins og tíðkaðist oft þegar fulltrúarnir voru sjö. Stóra spurningin er hvort Íris Róbertsdóttir gefi kost á sér áfram eða hvort að Páll Magnússon verði nýtt bæjarstjóraefni H-listans!
Einnig verður fróðlegt að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn bjóði loks upp á prófkjör í Vestmannaeyjum en slíkt hefur ekki verið haldið í fjórða áratug. Það er merkileg staðreynd hjá flokki sem segir það almenna reglu að halda skuli prófkjör við val á lista.
Ég færi landsmönnum hátíðarkveðjur og óskir um farsælt komandi ár.
Höfundur er ritstjóri Eyjar.net