Ekki veit maður hvað veldur því en af einhverjum ástæðum hefur orðið nokkur fjölmiðlaumfjöllun um hugmyndir og viðhorf tveggja manna, Hannesar H. Gissurarsonar og Víglundar Þorsteinssonar, til efnahagshrunsins árið 2008. Kenningar beggja um þessa atburði eru ólíkar en eiga það þó sameiginlegt að vera samsæriskenningar. Þannig telur Hannes að víðtækt samsæri erlendra aðila, með þá einkum Bretum í broddi fylkingar, hafi lagt á ráðin um fall Íslands. Umsátrið um Ísland hafi staðið yfir allt árið 2008 og skýrst af öfund og ótta útlendinga Íslendinga vegna getu þeirra í bankaviðskiptum.
Samsæri útlendinga
Björn Valur Gíslason.
Sá einstaklingur sem hafi staðið í hárinu á þessum útlendingum hafi verið fyrrverandi Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson. Raunar er það svo að Davíð var búinn að tryggja landinu fyrirgreiðslu frá góðum útlendingum, sem eru í þessu tilfelli Rússar, til að halda 2007 ballinu áfram. En vondu útlendingarnir náðu með samstilltu átaki svikara innan íslenskra stjórnmálamanna og embættismannakerfisins að stöðva Davíð í að vinna að framgangi lausnarinnar. Fyrir þessu eru að vísu engin gögn en Hannes hringdi þó í félaga síns og Davíðs í Sjálfstæðisflokknum, Tryggva Þór Herbertsson, til að staðfesta að þetta væri rétt. Efnahagshrunið 2008 varð en það var bara vegna þess að Davíð fékk ekki að afstýra því.
Samsæri embættismanna
Víglundur Þorsteinsson er um margt á svipuðum slóðum þó svo að kenning hans sé ólík. Ef maður skilur Víglund rétt þá stefndi efnahagshrunið í að verða risa lottóvinningur fyrir þjóðina. Þess vegna myndi Víglundur líklegast vilja þakka útlendingunum fyrir samsærið sem Hannes teiknar upp enda átti þjóðarbúið, svo skringilega sem það nú hljómar, einstakt tækifæri til að ná til sín hundruðum milljarða. Það eina sem kom í veg fyrir að krækt var í þennan lottóvinning var að svikarar í íslenskri stjórnmála- og embættismannastétt gáfu þennan vinning til útlendinganna í stað þess að hirða hann fyrir þjóðina. Efnahagshrunið 2008 er því að mati Víglundar gott dæmi um það þegar menn missa af góðu viðskiptatækifæri. Raunar er það miklu verra en það því að gróðinn var hafður af þjóðinni og voru það aðilar eins og FME, Ríkisendurskoðun, Seðlabanki Íslands, fjármálaráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið auk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir eins og hún leggur sig. Hygg meira að segja að í nýjustu útgáfu Víglundur hafi Ögmundur Jónasson verið orðinn viðriðinn samsærið.
Samsæri um dauðalista
Ekki gerir maður lítið úr því að Víglundur þekkti vel bisnessinn eins og hann var fyrir hrun, sem er heimur sem maður skildi aldrei og gerir ekki enn. Fyrirtæki hans BM Vallá var í eigu félags í Lúxemborg og skuldaði 11 milljarða króna við hrunið í erlendri mynt. Sem steypu- og verktakafyrirtæki hefði maður talið að þegar hagkerfið tók dýfu niður á við að þá yrði rekstur þess erfiður með allar þessar skuldir í erlendri mynt. En það er víst ekki að mati Víglundar enda var fyrirtækið haft af honum að því er virðist af sömu aðilum og höfðu lottóvinninginn af Íslendingum. Í hjáverkum bjuggu þeir til dauðalista fyrirtækja sem af óútskýrðum ástæðum menn vildu feig ekki það að þau voru það.
Rannsókn á samsæri
Auðvitað á maður að láta samsæriskenningar framhjá sér fara. En það er svolítið erfitt þegar þeim er lyft af ákveðnum aðilum í samfélaginu. Nú síðast tók forsætisráðherra undir ásakanir Víglundar og hyggst fara með málið lengra. Í þeirri yfirlýsingu hans felst þó líklegasta stærsta fréttin í þessu samsæriskenningarsulli. Forsætisráðherra tók nefnilega undir það í fréttum RÚV að rannsaka ætti hvort íslenska stjórnkerfið hefði gerst sekt um glæp gegn þjóðinni og haft af henni lottóvinninginn. Hvað þýðir það ef stjórnkerfið er þjófkennt af æðsta yfirmanni þess?
Höfundur er varaformaður Vinstri grænna.