Að skrifa um árásina á Charlie Hebdo í París miðvikudaginn 7. janúar er að bera í bakkafullan lækinn. En stundum er í lagi að flæði yfir bakkana.
1. Grimmd og miskunnarleysi
Árásin á ritstjórnarskrifstofu þessa franska skopmyndablaðs var ekki bara mannskæð heldur óvenju hrottaleg. Ég las fréttirnar agndofa og horfði á myndskeið þar sem særður lögreglumaður, sem liggur varnarlaus á gangstétt, er aflífaður án minnsta hiks. Ég trúði vart mínum eigin augum. Umsvifalaust vöknuðu spurningar: Hvað gerðist eiginlega? Hvaða menn gera svona? Hvers vegna þetta blað? Hvernig getur svona nokkuð gerst í Evrópu? Hvers vegna gerist svona yfirleitt?
Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki
við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Fljótlega hrönnuðust upp svör við þessum spurningum á vefnum og nú vitum við ágætlega hvað gerðist. Það hafa líka verið gefnar ýmiss konar skýringar á því hvers vegna þessir bræður og vitorðsmenn þeirra gerðu einmitt þetta. Í raun vitum við samt lítið um tilfinningar, sjálfsmynd og hugsanir þessa fólks. Við getum staðsett bræðurna í félagslegu landslagi en það eitt og sér greinir þá ekki frá fjölmörgum öðrum ungmennum sem gera ekkert þessu líkt. Við vitum líka hvers vegna þetta blað var skotmark. Þarna unnu menn við að teikna skopmyndir, m.a. annars af Múhameð spámanni og forkólfum Íslamska ríkisins. Það þarf heldur ekkert að undrast að svona nokkuð skuli gerast í Evrópu – það á vísast eftir að endurtaka sig reglulega næstu ár og áratugi ef að líkum lætur. Og svo þarf heldur ekki að undrast að svona nokkuð skuli yfirleitt gerast, því hrottafengin morð og hryðjuverk eru því miður daglegir atburðir hér á jörð. Oftast nær kippum við okkur ekki upp við hrottaskapinn, jafnvel þótt hann sé miklu meiri en sá sem við sáum í París á miðvikudaginn í síðustu viku. Yfirleitt er hann í þægilegri fjarlægð.
Af hverju kallaði árásin þennan miðvikudag á svona sterk viðbrögð? Ein ástæða er sú að ódæðið átti sér stað svo nærri okkur. Nígería, Pakistan, Afganistan, Suður-Súdan og fleiri lönd, sem stundum eru í fréttum vegna ofbeldis- og hryðjuverka, eru langt í burtu. París er hluti af okkar heimi – hún er Evrópa og þar með „við“ en ekki bara einhverjir „aðrir“.
Af hverju kallaði árásin þennan miðvikudag á svona sterk viðbrögð? Ein ástæða er sú að ódæðið átti sér stað svo nærri okkur. Nígería, Pakistan, Afganistan, Suður-Súdan og fleiri lönd, sem stundum eru í fréttum vegna ofbeldis- og hryðjuverka, eru langt í burtu. París er hluti af okkar heimi – hún er Evrópa og þar með „við“ en ekki bara einhverjir „aðrir“. Önnur ástæða er að árásinni var ekki bara beint gegn tilteknum einstaklingum heldur ákveðnum gildum – m.a. tjáningarfrelsinu. Okkur er sagt að tjáningarfrelsið – eða kannski prentfrelsi, frelsi til fjölmiðlunar eða skoðanafrelsi – sé ein af grunnstoðum vestrænna lýðræðissamfélaga og því hafi árásin verið árás á öll lýðræðisríki. Þess vegna var þetta ekki bara árás sem átti sér stað nærri okkur, heldur var þetta árás á okkur.
2. Hnattræn stríðsmenning
Ef við viljum skilja hvað gerðist í París á miðvikudaginn þá verðum að skoða það sem eina birtingarmynd af ástandi heimsins – ástandi sem einkennist af ofbeldi og stríðsátökum. Þetta ástand er ekki nýtilkomið og raunar hefur þeim farið fækkandi síðustu ár sem deyja í stríðum. Það sem er nýtt er birtingarmynd þessa ástands. Við heyrum oft talað um hnattvæðingu, ýmist í sambandi við fjölmenningu og fólksflutninga eða í tengslum við viðskipti og efnahagsmál – fyrirtæki, framleiðsla og þjónusta eru ekki lengur bundin landamærum heldur teygja anga sína um allan heim. Þessi hnattvæðing nær líka til stríða og ofbeldis. Stríðsiðnaðurinn þekkir engin landamæri, stríðsmenningin ekki heldur.
Á síðustu árum hafa Vesturlönd staðið að stríðsrekstri í mörgum löndum. En stríðin hafa að mestu verið háð fjarri Vesturlöndum. Það er reyndar ekki svo langt síðan það var stríð á Balkanskaga (1992–1996) en fólk hefur verið fljótt að gleyma því. Þótt þjóðarleiðtogar á Vesturlöndum segist harma stríð og segist líka vera tregir til að senda hermenn út á vígvöllinn, þá er sannleikurinn samt sá að þessir sömu leiðtogar hafa ekki verið neitt sérlega hikandi þegar tækifærin hafa boðist. Þeir hafa heldur ekki harmað mikið þann viðbótarskaða – collateral damage – sem er dauði óbreyttra borgara sem hlýst af stríðsbröltinu. Þegar Vesturlönd hafa farið í stríð hefur jafnan verið lagt mikið kapp á að vinna stríðið – með allri fullkomnustu tækni – en minna gert til að byggja upp friðinn. Sífellt er alið á stríðsmenningu – menningu sem lítur á stríð og ofbeldi sem eðlilegt ástand, ekki síst sem leið til úrlausnar þegar sjónarmið stangast á. Þá skiptir engu þótt af stað sé farið undir gunnfána lýðræðis og réttlætis.
Francois Hollande Frakklandsforseti ásamt ýmsum þjóðarleiðtogum í samtöðugöngunni á laugardag.
„Frelsi, jafnrétti og bræðralag“ voru kjörorð frönsku byltingarinnar árið 1789 og enn í dag eru þau Frökkum ofarlega í huga. Frelsi, jafnrétti og bræðralag eru grunngildi fransks samfélags. En þessi gildi eru ekki almenn gildi sem einkenna líf jarðarbúa. Þau eru í raun forréttindi fárra. Á nýársdag fengum við fréttir af því að varðskipið Týr hefði bjargað um 400 manns sem voru um borð í stjórnlausu flutningaskipi. Margir voru stoltir yfir því að okkar menn hefðu unnið slíkt mannúðarverk. Þetta fólk vildi komst til Evrópu á flótta frá heimkynnum sínum – eða öllu heldur, á flótta frá því sem eitt sinn var þeirra heima en er það ekki lengur. Er kannski bara vígvöllur. Í byrjun janúar myrtu menn Boko Haram um 2000 manns í Nígeríu. Saklaust fólk. Fólk sem hafði ekki unnið sér annað til óhelgi en að vera til. Frelsi, jafnrétti og bræðralag var þessu fólki fjarlægur veruleiki.
Ofbeldisverk eru svo algeng og ofbeldismenningin svo útbreidd að við þurfum ekki að undrast að ofbeldisverk séu unnin. Vonandi kippum við okkur samt upp við fréttir af þeim. Vonandi verðum við ekki samdauna þessum hryllingi heldur fyllumst ógeði þegar við hlustum á fréttirnar. Og vonandi gerum við eitthvað.
3. Satíran
Víkjum aftur að miðvikudeginum í París. Af hverju Charlie Hebdo? Jú, svarið virðist blasa við. Þetta tímarit hafði birt virkilega grófar myndir af öllu mögulegu, m.a. Múhameð spámanni og forsprökkum Íslamska ríkisins. Ég held reyndar að þessar myndbirtingar skýri ekki mikið einar og sér. Mér finnst ótrúlegt að ofstækisfullir hryðjuverkamenn suður í Jemen eða Sýrlandi hafi miklar áhyggjur af því hvers konar myndir birtist í skopmyndablaði norður í Frakklandi. Myndbirtingarnar gera blaðið vissulega að skotmarki en til að skilja hvers vegna, verður að sjá og skilja stærra samhengi. Hluti af þessu samhengi er ofbeldis- og stríðsmenningin.
Sumir hafa reyndar furðað sig á því að blað eins og Charlie Hebdo hafi birt jafn grófar myndir og raunin er, að ritstjórnin hafi ekki sett sér skýrari og þrengri mörk. Ég held að slíkar furður séu á misskilningi byggðar. Satíran er jafnan andóf gegn valdi, heilagleika og hefðum. Og þegar hún er andóf gegn valdi, er hún ekki bara andóf gegn yfirvaldi – venjulegum valdhöfum – hún er líka andóf gegn kennivaldi. Hún hæðist að þeim sem sitja á valdastólum og hún hæðist að þeim sem eru viðmið um rétt og rangt, gott og vont, viðeigandi og óviðeigandi. Og hún er ekki síst andóf gegn heilagleika. Satírunni er ekkert heilagt. Um leið og hún setur sér slík mörk, þá missir hún flugið og verður innantómur áróður.
Satíran er jafnan andóf gegn valdi, heilagleika og hefðum. Og þegar hún er andóf gegn valdi, er hún ekki bara andóf gegn yfirvaldi – venjulegum valdhöfum – hún er líka andóf gegn kennivaldi.
Andspænis satírunni er enginn ósnertanlegur, enginn fær að vera handhafi sannleikans, enginn er óskorað yfirvald. Og umfram allt, þá undirstrikar satíran það að enginn hefur rétt á að vera ekki móðgaður. Að þessu leyti er satíra lík heimspeki.
Sókratesi var ekki margt heilagt. Á sínum tíma reis hann upp gegn hvers kyns kennivaldi. Hann dró í efa hefðina, viðteknar skoðanir, og viðhorf málsmetandi manna og höfðingja. Hver sem var gat átt von á erfiðum spurningum frá honum og það þýddi ekkert að svara með því að vísa í hefð, viðteknar skoðanir eða álit sérfræðinga. Sókrates hélt bara áfram að spyrja þangað til honum sýndist að svarið stæðist mælikvarða skynseminnar. Satírunni er svipað farið. Hún gerir grín að hverju sem er en mælikvarðinn sem hún leggur á verk sín er ekki skynsemin, eins og hjá Sókratesi, heldur fyndnin.
Eins og það er til góð heimspeki og léleg heimspeki, þá er til góð satíra og léleg. Það eru líka til heimspekingar sem kunna sig ekki, sem þekkja ekki sinn vitjunartíma. Sumir halda áfram að spyrja löngu eftir að allir eru hættir að nenna að svara. Þannig getur satíran líka verið. Sumir halda áfram að grínast, löngu eftir að allir eru hættir að hlæja. Það eru líka til heimspekingar sem hefja rökræður þegar þær eru alls ekki viðeigandi. Þannig getur sá sem beitir satíru líka skotið yfir markið og viðhaft grín og háð þegar betra hefði verið að þegja.
Charlie Hebdo var gefið út í þremur milljónum eintaka í dag og á sex tungumálum. Það er uppselt víðsvegar í Frakklandi.
Ég vissi ekki að til væri blað í Frakklandi sem héti Charlie Hebdo fyrr en ég fékk fréttirnar á miðvikudaginn. Og ég hef ekki hugmynd um það hvort teiknarar blaðsins hafi gengið of langt. Ég veit reyndar ekki hvað of langt er, allra síst í Frakklandi þar sem skopmyndir eiga sér aðra hefð en í öðrum löndum. Það breytir því ekki að ég held að satíran sé mikilvæg leið fyrir gagnrýni á valdhafa, kennivald og hefð. Í lýðræðisríki er mikilvægt að hægt sé að efast um valdið, hvort sem það birtist í gervi pólitísks yfirvalds, kennivalds trúarbragða eða annarra kerfa eða stofnana, eða sem vald í krafti hefðar og ríkjandi hugmyndafræði. Í þeirri viðleitni – stöðugu viðleitni – að efast um vald og stöðu, hefð og gildi, eru satíran og heimspekin samverkamenn, hvor með sínum hætti.
4. Trúarbrögðin
Trúarbrögð eru óneitanlega mikilvægur þáttur í því sem gerðist í París seinasta miðvikudag. Það er samt ekki augljóst hvernig ber að skilja hlutverk þeirra í þessum voðaverkum. Mér sýnist það að minnsta kosti ekki augljóst. Það skiptir máli að gera greinarmun annars vegar á valdastofnunum trúarbragða, eða öllu heldur, valdastofnunum sem eru réttlættar og viðhaldið í nafni trúarbragða, og á trúarbrögðum sem gildakerfi, eða það sem maður gæti einfaldlega kallað trúarbrögð sem slík, hins vegar.
Þegar upp rísa voldugar valdastofnanir sem eru réttlættar og viðhaldið í krafti trúarbragða, þá verða trúarbrögðin jafnan undirrót aðgreiningar. Valdastofnanirnar þrífast á því að viðhalda aðgreiningu þeirra sem undir þær eru settir og hinna sem eru þeim óviðkomandi. Í sinni verstu mynd verður slík aðgreining að farvegi afmennskunar. Það sáum við í París á miðvikudaginn, og það hefðum við líka séð í Nígeríu – á blóðvelli Boko Haram – bara ef við hefðum kært okkur um að líta um svo langan veg.
Það er samt ekki hægt að skella skuldinni á trúarbrögðin sem slík. Öðrum þræði eru flest trúarbrögð fyrst og fremst gildakerfi. Með því móti eru þau oft grunnur eða kjölfesta sjálfsmyndar og sjálfsvirðingar þeirra sem aðhyllast þau, hver svo sem þau eru. Og þá geta þau eins verið kjölfesta mennskuhugsjónar og bræðralags.
Öðrum þræði eru flest trúarbrögð fyrst og fremst gildakerfi. Með því móti eru þau oft grunnur eða kjölfesta sjálfsmyndar og sjálfsvirðingar þeirra sem aðhyllast þau, hver svo sem þau eru. Og þá geta þau eins verið kjölfesta mennskuhugsjónar og bræðralags.
Þessar tvenns konar birtingarmyndir trúarbragðanna – trúarbrögð sem valdastofnun og trúarbrögð sem gildakerfi – eru yfirleitt ekki eitthvað tvennt ótengt. Kaþólska kirkjan var um aldir ein öflugasta valdastofnun Evrópu en hún var líka umgjörð um gildakerfi, átrúnað og þar með kjölfesta margra í tilverunni. Og eins er það vitaskuld með íslam; fjölmargar valdastofnanir byggja tilveru sína á trúarbrögðunum og margar hverjar eru vísast ekki annað en eðlileg umgjörð um trúarlíf fólks. Íslenskar kirkjusóknir eru á sinn hátt valdastofnanir sem hafa kristni að grundvelli en eru um leið eðlileg umgjörð um trúarlíf margra Íslendinga.
Því miður er saga flestra stórra trúarbragða sú, að þau eru eða hafa verið notuð til að réttlæta og viðhalda gerræðislegum valdastofnunum sem byggja grundvöll sinn á aðgreiningu og afmennskun. Saga Evrópu geymir margar sögur af slíku ofbeldi í nafni trúar. Ísraelsríki og ofbeldið gegn Palestínu er önnur sláandi birtingarmynd. Einnig Íslamska ríkið, Boko Haram og fleiri öfgafull samtök sem byggja tilveru sína á ofbeldi og hrottaskap.
5. Hvað getum við gert? Hvað ættum við að gera?
Í Frakklandi fer ekkert á milli mála að staðið verður vörð um tjáningarfrelsið. Það er ekki bara nauðsynlegt til að andæfa hryðjuverkum, það er ekki síður nauðsynlegt til að hlúa að rótum fransks samfélags. Ég vildi að hér á Íslandi væri mönnum jafn annt um tjáningarfrelsið og suður í Frakklandi. Ítrekað hefur Mannréttindadómstóll Evrópu dæmt íslenska ríkið skaðabótaskylt eftir að blaðamenn hafa verið dæmdir fyrir meiðyrði í Hæstarétti. Það er vegið að starfsgrundvelli Ríkisútvarpsins sem sjálfstæðs og öflugs – og gagnrýnins – fjölmiðils. Nýlega var DV keypt af einstaklingum sem sveið umræða blaðsins. Svo hreinsuðu þeir til uns öruggt væri að á blaðinu ynni enginn sem valdið gæti óþægindum. Og sjálfur forsætisráðherrann var ekki búinn að vera nema mánuð í starfi þegar hann kvartaði opinberlega undan gagnrýni fjölmiðla.
En þótt við stöndum vörð um tjáningarfrelsið, þá kemur það ekki í veg fyrir fleiri svona árásir.
Það sem árásin í París er áminning um, er að ástand heimsins er ekki gott. Það er beinlínis afleitt. Við vitum það vel, og höfum lengi vitað það. Birtingarmyndir þessa ástands eru m.a. stríðin, t.d. í Úkraínu, Sýrlandi og Nígeríu, kúgunin og þjóðarmorðið í Palestínu, fátæktin sunnan Sahara, glæpirnir í Mexíkó, og svo mætti lengi telja. Ástandið á Vesturlöndum sjálfum er ekki heldur svo gott. Fátækt, atvinnuleysi, örvænting og smán er hlutskipti milljóna manna í þessum glæsta afkima heimsins.
„Það sem árásin í París er áminning um, er að ástand heimsins er ekki gott. Það er beinlínis afleitt. Við vitum það vel, og höfum lengi vitað það. Birtingarmyndir þessa ástands eru m.a. stríðin, t.d. í Úkraínu, Sýrlandi og Nígeríu, kúgunin og þjóðarmorðið í Palestínu, fátæktin sunnan Sahara, glæpirnir í Mexíkó, og svo mætti lengi telja," segir Ólafur Páll Jónsson.
Ef við viljum virkilega koma í veg fyrir fleiri voðaverk eins og þau sem framin voru í París á miðvikudag, svo ekki sé minnst á slátrunina í Nígeríu, þá verðum við að vinda ofan af stríðsmenningu samtímans og bregðast við fátækt og úrræðaleysi, bæði utan Vesturlanda og innan þeirra. Við verðum að gera okkur ljóst að lýðræði verður ekki komið á með stríði. Stríð elur ekki af sér lýðræði, það elur af sér meira stríð, meiri kúgun.
Ef við viljum að eitthvað breytist í raun og veru þá verðum við að finna leiðir til að rækta mennskuna hjá okkur sjálfum og öllum í kringum okkur. Við verðum að finna leiðir til að leggja af aðgreininguna „við“ og „hinir“, því slík aðgreining er farvegur afmennskunar sem aftur réttlætir hvers kyns ofbeldi og smán. Við verðum að taka það alvarlega að heimurinn er einn, að hann er ekki sérlega stór, og að mannlíf og efnahagur er ein samofin heild hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Enginn er eyland, hvorki í góðu né slæmu.
Í bókinni Öld barnsins segir Ellen Key:
Þeir atburðir sem gerðust um aldamótin birtu táknmynd hinnar nýju aldar sem nakið barn sem leggur til móts við heiminn – en dregur sig í hlé þegar við blasa skarkandi vopn, heimur þar sem ekki er þumlungur af rými fyrir hinn nýja tíma að drepa niður fæti.
Margur varð hugsi yfir þýðingu þessarar myndar: þeir hugsuðu um það hvernig efnahagslífið og raunveruleg stríðsátök gáfu hinum lægstu hvötum mannsins lausan tauminn; hvernig manninum hefði mistekist að finna tilveru sinni göfugri birtingarmyndir þrátt fyrir gífurlega þróun siðmenningarinnar á liðinni öld.
Þetta var skrifað árið 1900. Það á því miður enn við í upphafi árs 2015.