Ketill Sigurjónsson, Orkubloggari, hefur verið áberandi síðustu misseri í umræðu um orkumál á Íslandi. Hann starfar við ráðgjöf og viðskiptaþróun í raforkumálum en ekki kemur fram fyrir hvern hann vinnur.
Þann 26 maí sl. setur hann á vef mbl.is mjög harðorðan pistil þar sem hann fullyrðir margt um orkuverð til álvera á Íslandi og í heiminum. Slíkur pistill frá sérfræðingi í orkumálum gæti verið mjög áhugaverður og uppljóstrandi. En þessi pistill er skrifaður af annaðhvort mikilli vankunnáttu eða einbeittum vilja til að fara rangt með staðreyndir. Slíkt verður að teljast mjög alvarlegt af manni sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur á sviðinu.
Við hjá Norðuráli fylgjumst náið með orkumörkuðum í heiminum. Við sækjum okkur mikið af upplýsingum og þar á meðal mikið af gögnum frá CRU sem er breskt fyrirtæki sem gefur út mikið af greiningum á áliðnaði og er mjög virt í þeim heimi. Hér á landi kaupa bæði álfyrirtækin og orkufyrirtækin upplýsingar frá CRU og eru þær almennt taldar þær áreiðanlegustu sem fáanlegar eru. Ketill Sigurjónsson vísar í gögn frá CRU en fer rangt með tölur. Greining hans er því bæði röng og misvísandi.
Skýrar upplýsingar teknar úr samhengi
Ketill segir að hann ætli að setja upplýsingar fram með skýrum hætti. En svo velur hann að birta samanburð á tölum sem eru ekki samanburðarhæfar. CRU birtir kostnaðartölur orku fyrir álfyrirtæki og þær innifela allan kostnað við raforkuna. Ketill ákveður hins vegar að draga flutningskostnað á Íslandi frá verðinu hér og bera það þannig saman við erlendan heildarkostnað. Þetta er röng framsetning þar sem einfaldlega er verið að hagræða tölum til að fá þá niðurstöðu sem höfundi þóknast. Slíkt er ekki boðlegt í faglegri umfjöllun.
Í framhaldi af þessu fullyrðir Ketill að stóriðja hérlendis greiði 20 USD/MWst fyrir raforkuna og þar með sé verðið með því lægsta í heiminum. Þetta er auðvitað kolrangt hjá Katli enda ber hann hér saman epli og appelsínur. Það kemur fram í ársreikningi Landsvirkjunar að meðal orkuverð sem stóriðjur greiddu fyrirtækinu árið 2014 var um 26 USD/MWst. CRU metur að meðal orkuverð til álvera á Íslandi sé nokkru hærra en Landsvirkjun gefur upp, eða um 30 USD/MWst. Það er 50% hærra en Ketill fullyrðir að álver á Íslandi séu að greiða. Meðal verð til álvera utan Kína (sem er yfirleitt ekki tekið með í slíkan samanburð) er samkvæmt CRU um 29 USD/MWst. Staðreyndir tala hér sínu máli.
Orkukostnaður íslenskra álvera er líklega um 20% hærri en norskra álvera
Samanburðurinn við önnur lönd er því einnig rangur hjá Katli. Hann heldur því fram að meðalorkuverð til álvera á Íslandi sé með því lægsta í heiminum þegar fyrir liggur að samkvæmt þeim gögnum sem hann vísar sjálfur til, upplýsingar CRU, þá greiða álver á Íslandi verð sem er um eða yfir meðalverði til álvera í heiminum. Verðið er þannig hærra en orkuverðið sem álver í Noregi, Rússlandi, Kanada, Ástralíu og mörgum fleiri löndum greiða. Sé allt talið til er orkukostnaður íslenskra álvera líklega 20% hærri en álvera í Noregi í dag.
Þessi skelfilega meðferð Ketils á tölum veldur því að það stendur ekki steinn yfir steini í grein hans. Fullyrðingar hans um lágt orkuverð hér á landi í samanburði við önnur lönd eru út í hött. Meira er ekki um þessa illa unnu greiningu að segja.
Ég verð þó að bæta einu við. Ketill segir að orka sé að losna frá Norðuráli árið 2019. Það er ekki rétt. Þessi orka er samningsbundin með sérstöku framlengingarákvæði í samningunum. Norðurál er að nota þessa orku í dag og ætlar að nota hana áfram um fyrirsjáanlega framtíð. Hún er því ekkert að losna – það er misskilningur Ketils.