Í desembermánuði 1890 lét Vilhjálmur II keisari boða alla helstu menntaspekinga Þýskalands til fundar við sig í Berlín. Frá fundinum er m.a. sagt í janúarhefti Skírnis árið eftir. Vilhjálmi lá eitt og annað á hjarta um menntamálin. Gerð hafði verið tilraun til að gera úr honum menntamann en það hafði að mestu mistekist. Smám saman fjarlægðist hinn verðandi keisari menntalífið og hneigðist þess í stað til hermennsku og hernaðar. Téðan desemberdag, stuttu eftir að Vilhjálmur varð sjálfur keisari, steig hann á stokk íklæddur herbúningi og flutti ræðu.
Hin eyðileggjandi áhrif menntunar
Inntak ræðunnar var á þá leið að menntun ungra Þjóðverja eyðilegði þá. Þeir yrðu að tómum latínu- og grískuhestum í stað þess að verða hraustir og góðir þegnar keisarans. Ungir, þýskir menn ættu fyrst og fremst að kynnast hinni glæstu sögu eigin þjóðar. Þeir ættu líka að fá að verða menn – en það yrðu þeir varla í skólanum, því margir kennaranna verðskulduðu ekki að vera kallaðir uppaldir. Skólinn gerði það ennfremur að verkum að fyrr eða seinna tapaði mikill meirihluti stúdentanna sjón. Sjötuíogfjórir af hverjum hundrað drengjum í efsta bekk þyrftu gleraugu. Hverskonar hermenn yrðu slíkir menn? Keisarinn vildi hermenn sem sæju heiminn með eigin augum en ekki gegnum gler. Hann bætti því við að það væri hlutverk góðs keisara að bera skynbragð á nútíma sinn og komandi tíma. Eins og Vilhjálmur sæi framtíðina væri bráðnausðynlegt að gera gagngerar „umbætur“ á þýska menntakerfinu – svo upp myndu vaxa Þjóðverjar af því tagi sem framtíðin þyrfti á að halda.
Það var ekki einungis hin líkamlega hrörnun sem keisarinn sagðist óttast. Hann taldi skólana líka gróðrastíur fyrir sósíalisma. Fyrst og fremst vegna þess að kennararnir væru of duglausir til að uppræta hina andþýsku, tærandi hugmyndafræði þar sem hún léti á sér kræla.
Þetta vil ég, þetta skipa ég
Að ræðunni lokinni fékk fundurinn það verkefni að skipuleggja umbætur á þýska menntakerfinu. Kennslumálaráðgjafi ríkisins, Gústav von Goßler, stjórnaði umræðunum og á máli hans var alveg ljóst að hann vildi standa vörð um megindrætti kerfisins eins og það væri. Að stuttri stund liðinni kom sendiboði til fundarstjórans og rétti honum mynd af keisaranum. Á myndina hafði Vilhjálmur skrifað: „
Sic volo, sic jubeo
,“ sem Skírnir þýðir sem „Þetta vil ég, þetta skipa ég.“
Ljóst varð að gegn keisaranum væri ekki staðið og vinna hófst þegar við að uppfæra þýska menntakerfið í takt við óskir keisarans.
Sáttur almúgi, ósáttur keisari
Seinna átti keisarinn eftir að lýsa miklum vonbrigðum með það hve litlar breytingar urðu í raun og veru á menntakerfinu. Það var helst að vægi latínu og grísku væri minnkað til að koma að meiri átthagafræði og þjóðerniskennslu. Hugmyndir hans mættu enda töluverðri andstöðu innan kerfisins eins og það lagði sig. Þremur mánuðum eftir fundinn sá von Goßler sér þann kost vænstan að segja af sér embætti. Hann taldi sér ekki stætt í lengur enda voru skoðanir hans á menntamálum í hróplegu ósamræmi við áherslur keisarans.
Uppátækið vakti þó mikla hrifningu meðal almennings. Fólk átti afar auðvelt með að sannfærast um að skólarnir gerðu menn að aumingjum og ímugustur á gleraugum og sósíalisma var viðtekinn í þýsku þjóðarsálinni. Raunar er ekki alveg laust við að í hinni íslensku Skírnisgrein frá 1891 örli á hrifningu á málflutningi hins þýska keisara.
Keisaraveldi tortímt
Það er áhugavert að lesa tilvitnanir í ræðu Vilhjálms á skólamálafundinum svona löngu seinna. Sérstaklega er spádómskaflinn um framtíðina merkilegur. Keisarinn sá sum sé fyrir sér að það Þýskaland sem hann ætlaði að móta þyrfti fyrst og fremst hrausta, ættjarðarelskandi hermenn. Það fór enda svo að í sögulegu samhengi er arfleið Vilhjálms II fyrst og fremst sú að hafa tekið upp þá utanríkisstefnu sem leiddi af sér fyrri heimsstyrjöldina og tortímdi um leið keisaraveldinu. Sjálfur dó hann í útlegð í Belgíu rétt fyrir innrás Hitlers í Sovétríkin. Útför hans fór fram þar því Hitler ákvað að virða þá ósk hins fallna keisara að koma ekki inn fyrir mæri Þýskalands aftur fyrr en keisaradæmið hefði verið endurreist.
Hvítar bækur
Á þeim 125 árum sem liðin eru síðan Vilhjálmur dreifði árituðum myndum af sér hefur ýmislegt breyst í því hvernig valdamenn koma vilja sínum á framfæri. Ein áhugaverðasta leiðin er sú að skrifa hvítbók (e. white paper). Hvítbækur eru upprunalega breskar. Þær eru ekki lög eða meitlaðar í stein en í þeim felast sterk skilaboð. Þær fela gjarnan í sér ábendingu um það hvað ráðamenn ætla sér að gera, en það er þó í boði að gera athugasemdir. Þær eru því gjarnan notaðar til að þreifa á stemmningunni áður en stefnubreytingum er hrint í framkvæmd. Einnig eru til blábækur og grænbækur sem gegna aðeins öðrum hlutverkum. Nöfnin eru bókstafleg, komin af upprunalegum lit bókanna innan bresku stjórnsýslunnar.
Hvítbækur eru ekki sérlega algengar í íslenskri stjórnsýslu. Þær þekkjast þó. Þekktasta dæmið í dag er hvítbók menntamálaráðherra. Í henni segir ráðherrann að hann vilji leggja aukna áherslu á læsi og skilvirkni. Stytta á framhaldsskólann og taka upp fleiri lestrarkannanir.
Breytingar framundan
Nú er í gangi vinna við að útfæra breytingar á menntakerfinu. Starfshópar eru að störfum. Innan hópanna hafa vaknað, eins og gengur, ákveðnar efasemdir um suma þætti breytinganna. Ráðuneytið hefur ekki látið það stöðva sig og gripið til þeirra ráða sem þarf til að koma hópunum aftur á sporið. Sic volo, sic jubeo.
Hvað sem allri gagnrýni innan úr skólakerfinu líður þá er því eins ástatt um ráðherrann okkar og síðasta keisarann í Þýskalandi. Það má auðveldlega uppskera almenna ánægju með því að ráðast á menntakerfið fyrir það að gera ungdóminn að aumingjum, hvað þá ólæsum aumingjum. Undirliggjandi eru þó alltaf einhver önnur markmið.
Hvað vill menntamálaráðherrann?
Vilhjálmur II vildi búa til kynslóð sem hætti að rugga hinu ímyndaða þýska langskipi. Hann vildi þæga og kraftmikla hermenn – ekki veikburða, andþýska bókabéusa. Hvað menntamálaráðherrann okkar vill er flóknara mál. Auðvitað vill hann augljóslega að fólk byrji fyrr að bera sjálft kostnaðinn af menntun sinni. Stytting framhaldsskólans ætti að skila því á endanum. Síðasta ár framhaldsskólans verður þá líklega að grunnári í háskóla sem einhver hluti mun alltaf fjármagna sjálfur. Hin aukna áhersla á læsi í hefðbundnum skilningi er síðan hefðbundinn útgangspunktur hjá mönnum á hans pólitísku bylgjulegd. Með því að gera lestur (og hugsanlega reikning) að meginmælipunktum í gæðum menntunar hefur tilhneigingin orðið sú að búið er að koma á fót einföldum markaði með innbyggðum lögmálum sem hrinda af stað heilmikilli „grósku“.
Sjálfbæra flísin í fingri ráðherrans
Síðan kemur sér ekkert illa fyrir ráðherrann að sjá til þess að athyglin sé á læsi. Ekki vegna þess að þar séu einhver annarleg sjónarmið að verki – önnur en þau að meðan athyglin er þar, þá er hún varla annarsstaðar á meðan. Það er til dæmis verst varðveitta leyndarmál menntakerfisins að menntamálaráðherranum er alveg óskaplega í nöp við kafla 2.1.2. í núgildandi aðalnámskrá. Þar er kveðið á að menntun skuli miða að sjálfbærni og virðingu fyrir henni. Þannig bera að taka ítrasta tillit til náttúruauðlinda, jöfnuðar milli manna og efnahagslegs réttlætis.
Það tekur töluverðan tíma að breyta aðalnámskrám og draga þannig við þessar flísar úr fingrum skoðanasystkina
Kaldhæðni og sjálfbærni
Það er kaldhæðnislegt í ljósi þessarar sögu að þrætuepli íslenskrar menntapólitíkur skuli vera sjálfbærni. Það er nefnilega nákvæmlega sjálfbærnin sem var hreyfiafl Vilhjálms keisara. Hann sá ekki fyrir sér að geta viðhaldið þýska heimsveldinu nema staðið yrði gegn andþýskum áhrifum. Ríkið þyrfti að ala upp þýska, þjóðernissinnaða áhugamenn um hernað í stríðum straumum.
Raunin var svo auðvitað sú að allt sem hann gerði leiddi á endanum til þess að Þýskalandi var tortímt í þeirri mynd sem hann þekkti það. Þýskur þjóðernisrembingur og ofuráhersla á hernað var líklega þrátt fyrir allt það síðasta sem kynslóðin sem fæddist á áratugunum umhverfis aldamótin þurfti á að halda.
Blessunarlega erum við Íslendingar að mestu lausir við óhóflegan þjóðernisrembing og hernaðarhyggju. Það er helst að sumir virðist álíta viðskiptalífið hinar nýju vígstöðvar. Þjóðverjar tóku Belgíu – við tókum Magasin du Nord.
Ég held það gæti verið núverandi valdhöfum á Íslandi holl og góð lexía að ígrunda sjálfbærni þess samfélags sem unnið er að því að skapa hér á landi. Stóra útrásin hefði átt að vera okkur dýrmæt áminning um ýmislegt. Áminning sem ætti að bergmála gegnum allar kreppur og hrun og vara okkur við því að beita sömu aðferðum við að fást við afleiðingar okkar eigin ásælni í annarra eigur og komu okkur í vandann til að byrja með.
Höfundur er kennari.