Á vormánuðum 2009 fékk ég (ásamt flestum fundarmönnum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins) pungspark frá Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni flokksins og ritstjóra. Nú ætla ég að gera tilraun til að rétta minn hlut.
Nú kann einhverjum að finnast ég vera óvanalega seinn til svars eftir þetta pungspark Davíðs, en það vita þeir sem hafa fengið spark í pung, að það tekur tíma að jafna sig. Svo er hitt, að ég áleit sem svo að kannski væri þetta bara rétt hjá Davíð, landsfundarfulltrúar og breiðfylking sjálfstæðismanna hefði gert rangt í að samþykkja skýrslu Endurreisnarnefndar flokksins á landsfundi. En nú sé ég að svo var ekki.
Sigurður Örn Ágústsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og forstjóri.
Það sem ég veit en Davíð ekki
Þegar ég var lítill drengur fannst mér bæði gaman og sniðugt að segja óspurður að við pabbi vissum allt í heiminum. Þá var ég gjarnan spurður um eitthvað, og ef ég vissi ekki svarið sagði ég hróðugur: „Pabbi veit svarið við þessu.“ Nú vill þannig til að ég og Davíð Oddsson, fyrrum landsfaðir og núverandi ritstjóri, vitum allt – það sem ég ekki veit (og það er margt) virðist hann vita. Hann er með svar við flestu. Til að flýta fyrir ætla ég að tína til það helsta sem ég veit en ekki hann.
Við Davíð höfum aldrei ræðst við þó að ég hafi kosið hann á sínum tíma og við stutt sömu stjórnmálastefnuna, hann í framvarðarsveit en ég sem atkvæði. Ég hóf afskipti af stjórnmálum í janúar 2009 því að mér fannst, eins og mörgum sjálfstæðismönnum þá, með ólíkindum að forystusveit flokksins tæpti hvergi á því einu orði að hugsanlega hefði flokkurinn gert mistök sem hefðu stuðlað að, leitt til eða aukið við þann mikla vanda sem hrunið var. Á fundi sjálfstæðismanna í lok janúar 2009, sem boðað var til á Grand Hotel í kjölfar stjórnarslita, var ekki mikla auðmýkt að finna hjá forystusveit flokksins. Mér fannst þessi nálgun vera röng og taldi að ef ekki yrði beygt af þessari „við gerðum ekki neitt vitlaust“ leið myndi flokkurinn og sú stefna sem hann á að túlka fá lítið fylgi í kosningum og við myndum vinna okkur hægar en efni stæðu til úr vandanum. Sú varð og raunin.
Á fyrrnefndum fundi setti Geir H. Haarde á laggirnar Endurreisnarnefnd og fékk Vilhjálm Egilsson til forystu. Þetta veit Davíð Oddsson. En hitt veit hann kannski ekki að ég hitti Vilhjálm á þessum fundi og sendi honum í tölvupósti sex síðna samantekt atriða sem ég taldi að flokkurinn þyrfti að viðurkenna opinberlega að gera hefði mátt betur. Horfa inn á við. Að það væri frumforsenda til að öðlast traust fólks í landinu að nýju að mæta í kosningar með uppgerða fortíð í farteskinu, sýna auðmýkt og læra af reynslunni. Þetta skrifaði ég Vilhjálmi meðal annars:
„Ég er þeirrar skoðunar að nú verði að fara fram uppgjör við fortíðina. Ísland er svo gott sem gjaldþrota og við sjálfstæðismenn vorum skipstjórar, svo notað sé vinsælt myndlíkingamál úr sjómennskunni. Ég trúi því að það sé af hinu góða fyrir flokkinn að fara þessa leið. Getur þá engu skipt hvern eða hverja þau atriði sem hér að neðan eru nefnd snerta. Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera hafinn yfir persónur og leikendur, hann er til fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir fólkið sem um stund er í framvarðarsveit hans.“
Nýr tónn: gagnrýni
Ég bauð fram krafta mína. Vilhjálmur tók mér vel og fól mér, sem aldrei hafði starfað innan Sjálfstæðisflokksins, að stýra þeim hópi sem fjallaði um „uppgjör og lærdóm“. Hinir hóparnir þrír voru: „Hagvöxtur framtíðar“, „Atvinnulíf og fjölskyldur“ og „Samkeppnishæfni“. Þessir þrír kaflar fengu ekki jafnmikla umfjöllun og sá fyrsti. Enda kvað þar við nýjan tón: gagnrýni.
Í þeim hópi sem ég fór fyrir tóku þátt um 50 sjálfstæðismenn, sem höfðu allir verið virkir í starfi flokksins. Við nálguðumst verkið þannig að bréf mitt til Vilhjálms varð beinagrind okkar framlags. Eftir að hafa setið um 20 fundi, þar sem til voru kallaðir aðilar sem höfðu innsýn eða sérfræðiþekkingu á þessum málum, og reynt að sannreyna fullyrðingar sem við töldum nauðsynlegt að kæmu fram var ágreiningur um hve berort framlag okkar ætti að vera. Engin ástæða væri til að færa pólitískum andstæðingum okkar vopn í hendur, auk þess sem við kynnum að styggja fyrrverandi forystusveit flokksins með skrifum okkar. En sú skoðun varð ofan á að segja hlutina bara eins og þeir eru. Til dæmis að segja berum orðum að það hafi verið pólitísk mistök að einkavæða bankana með þeim hætti sem gert var. Ég held að meira að segja framsóknarmenn séu sammála því, flestir.
Fólk brást, ekki stefnan
Heildarniðurstaðan var að fólk hefði brugðist en ekki stefnan. Enda er ekkert í stefnu Sjálfstæðisflokksins né landsfundarályktunum um að afhenda beri eftir flokkslínum sérvöldum gæðingum ríkiseignir fyrir lítinn pening – þvert á samþykkt ferli. Ég er sannfærður um að þessi niðurstaða okkar stenst skoðun. Ég var sérstaklega ánægður með að Vilhjálmur reyndi ekki að hafa áhrif á niðurstöður okkar eða efnistök, og það efldi mig í þeirri trú að hugsanlega væri hægt að hafa áhrif þótt maður hefði ekki farið í hundrað partí með ungum sjálfstæðismönnum eða unnið fyrir og með atvinnupólitíkusum flokksins.
Þessi skýrsla fékk meiri athygli en margur hugði, og þá sérstaklega kaflinn um uppgjör og lærdóm. Fyrstu viðbrögð Geirs H. Haarde við skýrslunni og innihaldi hennar voru að spyrja hver þessi maður (ég) væri eiginlega – hann þekkti mig ekki neitt. Maðurinn, ekki boltinn. Viðbrögð Davíðs voru þau að gera hana að umtalsefni í skemmtidagskrá á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2009. Pungspark í alla þá sem höfðu lagt á sig mikla vinnu til að gera flokknum gagn, rétta af kúrsinn, leiðrétta augljóst rugl og reyna að marka flokknum stefnu til framtíðar.
Þetta voru kaldar kveðjur, en kannski að einhverju leyti skiljanlegar, frá manni sem bar ábyrgð á mörgum þeirra ákvarðana sem annaðhvort voru teknar eða voru ekki teknar.
Flokkurinn verður að viðurkenna mistök
En eitt af því sem Davíð veit ekki, eða skilur ekki, er að til að hann og Sjálfstæðisflokkurinn fái notið sannmælis og fái viðurkenningu á því að í stjórnartíð hans varð mikil og góð uppbygging grunnþjónustu, innviða samfélagsins, ríkissjóður varð skuldlaus að kalla, á margan hátt ríkti velmegun og velsæld – þá verður líka að tala hreint út um mistök og rangar ákvarðanir.
Því það er rétt að það var margt mjög gott gert í 18 ára samfelldri stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Ef við sjálfstæðismenn tölum ekki skýrar og hærra um þessi mál, þá fáum við ekki að njóta þess góða sem flokkurinn gerði fyrir landið og getur gert fyrir landið. Flokkurinn mun ekki fá meira en 24-28 prósent í kosningum og áhrifin til að móta samfélagið eftir sjálfstæðisstefnunni verða því lítil. Sjálfstæðismenn eru langtum fleiri en 28 prósent þjóðarinnar, en þá er nú búið að hrekja í aðra flokka – þeir hafa misst (vonandi tímabundið) trúna á framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins. Í síðustu alþingiskosningum galt flokkurinn afhroð, fékk 26,7 prósent atkvæða, og það í kjölfar einnar óvinsælustu ríkisstjórnar á byggðu bóli. Afhroð.
„Gjör rétt, þol ei órétt“
Núverandi forysta flokksins verður líka að hafa kjark til að horfast í augu við raunveruleikann. Vera tilbúin að tala um hann umbúðalaust. Það mun verða erfitt að heyra fyrir Davíð, Kjartan Gunnarsson og marga, marga fleiri. Ekki bara þá sem stóðu í brúnni, heldur líka hina sem fylgdu. Líka mig, sem kaus þessa menn. En satt er satt og þrátt fyrir allt er eitt af grunngildum Sjálfstæðisflokksins. „Gjör rétt, þol ei órétt“.
Samandregnar helstu niðurstöður hóps um uppgjör og lærdóm um hvar sjálfstæðismenn hefðu getað gert betur
> Einkavæðing bankanna. Óumdeilt er að rétt hafi verið að einkavæða þá banka sem voru í eigu ríkisins árið 2002. Með því leystist úr læðingi kraftur sem var atvinnulífinu nauðsynlegur. Pólitísk fyrirgreiðsla skyldi líða undir lok og skilvirkni markaðarins ráða. … Mjög er hins vegar gagnrýnt hvernig var staðið að einkavæðingu þessara tveggja banka. Ferlið var ógagnsætt og hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða voru sniðgengin. Ekki var fylgt upphaflegri aðferðafræði, svo sem um dreifða eignaraðild. Bankarnir lentu, að einhverju marki eftir pólitískum línum, í höndum aðila sem voru reynslulitlir í bankastarfsemi (alþjóðlegri sérstaklega).
> Peningamálastefnan. Verðbólgumarkmið SÍ, frá 2001, hefur aldrei náðst. Hagkerfið er lítið og opið og gjaldmiðillinn örsmár í alþjóðlegum samanburði. Verðbólgan hefur oftar en ekki verið í tveggja stafa tölu. Verðbólga mikið vandamál frá lánaþenslunni þegar árin 2004-5.
> Uppgangur fjármálageirans. Stjórnvöld og Seðlabankinn brugðust of seint við mikilli stækkun bankakerfisins – leyfðu óheftan vöxt án þess að auka eigið fé SÍ – og stækka varagjaldeyrissjóðinn.
> Ábyrgðir ríkisins í reynd. Almenningi var ekki gerð grein fyrir þeim möguleika að ábyrgð á hundruðum milljarða króna, í formi innstæðna í Bretlandi, lægi hjá íslenska ríkinu – sem forvígismenn ríkisstjórnarinnar vissu um.
> Útgjaldastefna ríkisins og sveitarfélaga studdi ekki yfirlýst markmið stjórnvalda og Seðlabankans um efnahagslegan stöðugleika og hjálpaði ekki nóg til í viðleitni bankans að ná tilætluðum árangri. Eftir á að hyggja var afgangur af rekstri hins opinbera ekki nægilega mikill, ekki síst vegna þess að skatttekjurnar hvíldu ekki á nægilega traustum grunni, hvorki hjá ríki eða sveitarfélögum.
> Þensluáhrif Íbúðalánasjóðs. Þrátt fyrir að það hafi verið kosningaloforð Framsóknarflokksins að Íbúðalánasjóður veitti 90% húsnæðislán og stórhækkaði lánshámörk lagði Sjálfstæðisflokkurinn blessun sína yfir þau loforð og uppfyllti með Framsókn. Þessi gjörningur var vanhugsaður og óheillaskref.
> Ófullkomnar upplýsingar. Talnaefni um tekjur og gjöld af eignum og skuldum Íslendinga voru afar ófullkomnar í hagskýrslum. Þannig kom það fram í þjóðhagsreikningum ár eftir ár að ávöxtun á eignir Íslendinga erlendis væri lægri en vaxtakostnaður af erlendum skuldum. Á sama tíma margfölduðust eignirnar og skuldirnar og því ljóst að ekkert eðlilegt samhengi var í þessum tölum og þær gáfu afar villandi mynd af því sem var raunverulega að gerast. Samt voru þessar ófullkomnu upplýsingar grundvöllur ákvarðanatöku og settar fram sem opinber lýsing á stöðu hagkerfisins.
> Pólitísk ábyrgð. Það skýtur skökku við að á ríflega 100 dögum eftir eitt mesta efnahagshrun vestræns ríkis á friðartímum var enginn kallaður til ábyrgðar af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þau skilaboð til þjóðarinnar, að enginn beri pólitíska ábyrgð, eru röng. Hér dugir séríslensk skilgreining á pólitískri ábyrgð ekki. Pólitísk ábyrgð snýst ekki um að kjörinn fulltrúi eigi að sitja sem fastast þrátt fyrir mistök hans sjálfs eða undirmanna, heldur hið gagnstæða. Að standa upp og fara þegar áföll verða þótt engin lög hafi verið brotin af viðkomandi þarf að komast inn í íslenska stjórnmálahefð. Menn þurfa að láta framtíðarhagsmuni njóta vafans og ekki láta sína persónu vera fyrir.
> Pólitískar stöðuveitingar. Sjálfstæðisflokknum hefur verið legið á hálsi að hafa staðið fyrir pólitískum stöðuveitingum. Hér verður Sjálfstæðisflokkurinn að taka af skarið og heita því og sjá til þess að opinberar stöðuveitingar verði ákveðnar á faglegum og hlutlægum grundvelli. Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að beita sér fyrir því að skera á tengsl stjórnmálaflokka, ríkisstofnana og viðskiptabanka.
Það sem Davíð veit en ég ekki
Framvarðarsveit Sjálfstæðisflokkins fyrir „hið svokallaða hrun“ var framkvæmdaglöð, tók af málum af festu og gerði margt. Eins gildir um þá og alla aðra sem gera margt, að þeir gera líka mistök. Það er ekki augljóst að allt af því sem við nefndum þá og ég tíni til hér að neðan hafi verið fyrirsjáanleg mistök. En það er best að kalla hlutina sínu rétta nafni.
Ég veit að Davíð Oddsson er ekki bara einhver maður og það sem hann segir hefur enn áhrif, en merkjanlega dvínandi. Það var ekki bara einhver maður sem sagði alla mína vinnu, og fjölda annarra sjálfstæðismanna, vera einskis virði. Það var fyrrverandi formaður flokksins. Var það vegna þess að einhverjir voguðu sér að gagnrýna hann? Þetta er eitt af því sem Davíð veit en ég ekki.
Í stuttu máli held ég að Sjálfstæðisflokkurinn hefði unnið glæsilegan sigur í síðustu alþingiskosningum þó ekki hefði verið nema fyrir að tala hærra og skýrar um okkar eigin mistök – reiðubúin að læra af þeim og gera betur. Það skiptir litlu hvað forystu flokksins finnst – kjósendur ráða.