Nei, Sigga vill ekki verða bankastjóri en hún vill geta borgað leiguna og losna við stöðugan afkomukvíða. Jafnrétti fyrir henni er að eiga fyrir leigunni, mat og að eiga peninga til að geta leyft börnunum sínum að stunda tómstundir og hafa tíma til að geta sinnt þeim betur. Hún vinnur á tveimur stöðum, er ómenntuð láglaunakona og verður að vinna svona mikið. Hún er í leiguíbúð, ein með 2 börn og þarf að borga 250 þúsund á mánuði í leigu. Þá er eiginlega voða lítið eftir. Hún þarf að fæða og klæða börnin sín tvö og allt þetta gengur ekki upp. Sigga hefur lítinn tíma með börnunum vegna vinnuálags og hún er þegar farin að finna fyrir verkjum í líkamanum og þreytu í sálinni. Hún kvíðir því að missa heilsuna, því hver á þá að hugsa um börnin? Þau hafa líka fundið fyrir því að vera fátæk og þeim er hálfpartinn strítt í skólanum svo jaðrar við einelti. Þau geta ekki stundað tómstundir eins og hin börnin. Svo verður að vera til peningur fyrir skólamáltíðum barnanna, sem henni finnst stór biti að borga. Að fara eitthvað í sumarfríinu er ekki mögulegt.
Siggu finnst hún svikin
Sigga starfar við þjónustu-og umönnunarstörf, sem er algjör kvennastétt og láglaunastétt. Það eru því óhemju margar konur í sömu stöðu og Sigga. Þeim finnst skýtið að þegar talað er um jafnrétti í þjóðfélaginu og hjá þingmönnum þá er alltaf verið að tala um að konur komist í stjórnunarstöður, í stjórnir fyrirtækja eða í svona yfirstéttar stöður. Líka hjá flokkum sem segjast vera til vinstri á Alþingi, Samfylkingunni og Vinstri grænum. Sigga hefur til dæmis ekki orðið var við það að fulltrúar þessara flokka séu að berjast fyrir jafnrétti til handa láglaunakonunum í hennar stöðu, félags- og launajafnrétti. Önnur vinna Siggu er hjá Reykjavíkurborg og hún undraðist þegar núverandi stjórnarmeirihluti í borginni, stóð ekki með þeim vorið 2020 þegar þeir á allra lægstu laununum fóru fram á leiðréttingu. Borgarstjórinn vildi ekkert gera til að leiðrétta laun þeirra. Þær þurftu að fara í verkfall. Samt er þetta sama fólk alveg agndofa ef yfirstéttarkonurnar njóta ekki jafnréttis. Siggu finnst þetta mjög óréttlátt. Henni finnst hún svikin.
Sigga er vonlítil og dauf. Hún sér ekki fram á að neitt breytist. Á sama tíma og hún vinnur myrkranna á milli en nær samt ekki endum saman, eru menn og konur með milljónir á mánuði og jafnvel tugmilljónir á mánuði. Og það sem Siggu svíður mest er að þessu ríka fólki finnst bara allt í lagi að það sé stór hópur fólks í samfélaginu sem er í sömu stöðu og hún. Jafnvel finnur hún fyrir fátæktarandúð, svona eins og hún sé annars flokks, geti bara sjálfri sér um kennt.
Láglaunafólk af öllum kynjum
Sigga er hér fulltrúi fyrir svo margar konur sem eru í hennar stöðu. Sósíalistaflokkur Íslands vill berjast fyrir þessar konur fyrst og fremst, þótt sósíalistar gleðjist að sjálfsögðu yfir öllum sigrum kvenna í jafnréttisbaráttunni. Það þarf líka að berjast fyrir láglaunafólk af öllum kynjum sem verður fyrir misréttinu sem Sigga verður fyrir. Mannhelgi og kærleikur eru gildi Sósíalistaflokksins og sú meðferð sem Sigga og aðrir í hennar stöðu fá, á ekkert skylt við kærleika, mannhelgi og samkennd. Rétta heitið er mannvonska. Það eru mannréttindi brotin á láglaunafólki á hverjum einasta degi, alla daga ársins. Þessu viljum við sósíalistar breyta þannig að allir geti lifað mannsæmandi lífi og með reisn. Það er svo sannarlega nóg til, segja heildarsamtök launafólks, Alþýðusamband Íslands, og sósíalistar taka heilshugar undir það.
Höfundur er frambjóðandi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og félagi í sósíalískum femínistum.