Á haustmánuðum 2008 upplifði fólk á Íslandi eina stærstu kreppu sem dunið hefur yfir í áratugi og enn sér ekki fyrir endan á. „Íslendingar“ voru allt í einu saman á einhverri „þjóðarskútu“ og enginn vissi hvert hún stefndi. Við tóku ótrúlegir mánuðir þar sem fólk fyllti skápa sína af dósamat, maður eyðilagði húsið sitt með beltisgröfu, Oslóartréið sett á bál, Bónusfáninn dreginn að húni á Alþingi og táragasi sprautað yfir Austurvöll. Þetta endaði svo með sprunginni ríkisstjórn. Þegar efnahagurinn tekur svona miklum breytingum myndast ný pólitísk tækifæri en jafnframt þarf nýja gerð af pólitík til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Ég hélt að tími vinstri-stjórnar í landinu væri loks runninn upp. En stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna áttu ekki svar ástandinu sem tryggði þeim völd í annað kjörtímabil.
Nýr hugmyndafræðilegur grunnur
Inn á þetta pólitíska sögusvið steig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sjarminn virtist ekki leka af manninum og því þótti mér Framsókn undir hans stjórn ekki vera mikil ógn við hina nýju vinstri ríkisstjórn. En hann var fljótur að verða fyrirferðamikill á þingi og notaði Icesave-deiluna til þess að leggja hugmyndafræðilegan grunn að nýjum Framsóknarflokki. Sá grunnur er byggður á andstöðu við hnattvæðinguna, ásamt afturhvarfi til þjóðernishyggju. Þetta einkennir líka hægri pópulista flokka í Evrópu. Sigmundur Davíð hét því að fara á þjóðlegan megrunarkúr, „íslenska kúrinn“, líklega til þess að komast í topp form áður en hann myndi mæta erlendu hrægammasjóðunum.
Helsti lærdómur lekamálsins er að hatur á útlendingum var látið ráða för í ákvarðanatöku nánasta aðstoðarmanns ráðherra með hræðilegum afleiðingum á líf Tony Omos.
Borgastjórnarkosningarnar staðfestu með mosku málinu að flokkurinn er óhræddur við að ala á útlendingahatri til þess að afla atkvæða. Þessi tilhneiging var nýlega staðfest í Facebook-færslu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, um lekamálið þar sem hún segir að það eigi „einfaldlega að breyta lögunum þannig að það sé ekki trúnaður um vinnugögn hælisleitenda.” Henni þykir ekki mikið að því að ógna friðhelgi einkalífs hælisleitenda sem hún greinilega lítur á sem annars flokks borgara. Helsti lærdómur lekamálsins er að hatur á útlendingum var látið ráða för í ákvarðanatöku nánasta aðstoðarmanns ráðherra með hræðilegum afleiðingum á líf Tony Omos. Nýfallin ummæli Sveinbjargar sýna að hún er óhrædd að nota málið til þess að skapa umræðu sem hvetur til útlendingahaturs.
Thatcher og Friedman myndu snúa sér við í gröfinni
Eins og glöggt er í minni þá var leiðréttingin kosningamálið sem bókstaflega lamaði alla aðra flokka og Framsóknarflokkurinn vann stórsigur. Sjálfstæðismenn mynduðu ríkisstjórn með Framsóknarflokkinum sem eru í svo miklu hugmyndafræðilegu gjaldþroti að þeir og samþykktu að ríkið myndi greiða niður einkaskuldir. Thatcher og Friedman myndu líklega snúa sér við í gröfinni við að heyra þessi ósköp. Nú hefur „leiðréttingin“ loksins litið dagsins ljós og 28 prósent landsmanna fá afslátt á lánum sínum meðan hin 72 prósent sitja eftir með sárt ennið.
Einu hugmyndirnar til að svara ástandinu á landsbyggðinni er að færa Fiskistofu nauðuga til Akureyrar.
Það blasir við manni samfélag með heilbrigðskerfi sem er bókstaflega byrjað að mygla eftir áralangan niðurskurð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni og enginn afgerandi pólitískur vilji til þess að leysa þá deilu. Skólagjöld hafa hækkað og skorið hefur verið niður fjármagn til LÍN. Fjárframlög til kvikmyndagerðar á Íslandi hafa verið stórlega skert. Einu hugmyndirnar til að svara ástandinu á landsbyggðinni er að færa Fiskistofu nauðuga til Akureyrar. Lögreglan ræðst inn á heimili hælisleitenda um leið og hún vinnur verðlaun fyrir ímyndunarsköpun á samfélagsmiðlum. Mitt í þessu spígsporar Sigmundur Davíð um eins og jólasveinn, geislandi af ánægju yfir því að hafa fært „fólkinu“ vænan pakka meðan að Vigdís Hauksdóttir kennir „fólkinu“ að fletta jólakransa í Blómavali.
Fanga upplifun á óréttlæti
Þrátt fyrir þetta bæta stjórnarflokkar nú við sig fylgi. Hægri pópulisma Framsóknar hefur tekist að fanga það sem fólk upplifði sem óréttlæti eftir hrunið en veitt því í pólitískan farveg sem boðar útlendingahatur, samfélagsvæðingu einkaskulda og andstöðu við hnattvæðinguna. Ef eins húmorslaus og sérkennilegur maður eins og Sigmundur Davíð er að vinna pólitíska sigra með jafn slakar hugmyndir að vopni sem byggja á framtíðarsýn sem boðar afturhvarf til hættulegra hugmynda þjóðernishyggju, þýðir það einfaldlega að enginn annar er svara kalli kjósenda um breytta pólitík.
Þetta kristallaðist fyrir mér þegar ég las að formenn stjórnarandstöðuflokkanna (utan Pírata og mögulega Bjartrar framtíðar, sem vill ekki svarað af eða á) sóttu um leiðréttingu lána sinna. Auðvitað veit ég ekki hvernig var í pottinn búið í þeirra heimilisbókhaldi en þetta sýndi pólitíska leti. Skilaboðin sem er verið að senda kjósendum eru þau sömu og það sem gefur Sigmundi Davíð byr undir báða vængi. Stjórnmálamönnum er ekki treystandi og þeir meina ekki það sem þeir segja. Á meðan tekur Sigmundur Davíð sína pólitík svo alvarlega að hann borðar aðeins íslenskan mat og gengur óhræddur í baráttu við erlendu hrægammanna.
Einhver þarf að hugsa stærra
Hægri popúlisminn sækir á í íslenskri pólitík og því þarf að hugsa hratt en vel. Það góða í stöðunni er að ekki er erfitt að bjóða upp á framtíðarsýn sem er bjartari en Sigmundar Davíðs. Það var t.d. ánægjulegt að sjá þáttinn Hæpið á RÚV í síðastliðinni viku. Þar var ungt fólk komið saman að ræða nýja framtíðarsýn sem stóð jafnframt föstum fótum í þeirri þróun sem kapítalismi hefur skilað okkur.
Sýn þar sem ávextir tækniframþróunar kapítalismans eru nýttir til þess að engan þurfi að skorta fæði eða skjól. Framtíð þar sem fólk er ekki gert atvinnulaust vegna tækniframþróunar heldur er tæknin nýtt svo fólk geti unnið minna fyrir sömu laun. Framtíð þar sem tæknin er beisluð til þess að nýta náttúruauðlindir í samhljóm við náttúruna, til að byggja upp fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, ókeypis menntakerfi og skilvirkt samgöngukerfi. Sýn á framtíð þar sem fólk fær að blómstra því það hefur meiri frítíma, þar sem fólk vinnur minna og lifir meira.
Sigmundur Davíð hefur gert eitt rétt, það er að hugsa stórt. Nú þarf pólitískt afl og breyttir flokkar að rísa sem hugsa stærra
Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði heyrt af pólitískri hugmyndavinnu sem hefur svar við sýn Sigmundar Davíðs. Sigmundur Davíð hefur gert eitt rétt, það er að hugsa stórt. Nú þarf pólitískt afl og breyttir flokkar að rísa sem hugsa stærra og vinna sigur á Sigmundi Davíð með nýjum hugmyndum sem geta gert jöfnuð, réttlæti, mannréttindi og lýðræði að veruleika.