Sigrum við norðrið?

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, skrifar um mikilvægi norðurslóða.

Auglýsing

Land- og hafsvæði norðurslóða skiptist á milli átta ólíkra ríkja með ríflega 4 milljónum íbúa. Þar af eru aðeins 400 þúsund manns frumbyggjar. Fjölmargar byggðir eru lítil þorp en bæir og borgir með 3.000 til rúmlega 300.000 íbúum stækka. Hröð nútímavæðing hefur einkennt samfélögin í tvo til þrjá áratugi. Í heild hefur búseta heimafólks haft lítil áhrif á dýraríkið, gróðureyðingu og loftmengun enda svæðið risastórt. Fremur skilur atvinnustarfsemi á borð við kola-, olíu- og gasvinnslu og raforkuframleiðsla, ásamt námagreftri, eftir sig misdjúp spor og sumt af veiðimennskunni hefur ekki hlíft nytjastofnum nægilega.  Norðurslóðir eru gríðarlega þýðingarmikið land- og hafsvæði fyrir framvindu lífsskilyrða á jörðinni. Jöklar, hafís, pólsjór, kaldir og hlýir hafstraumar og jarðklaki (sífreri) eru breytur í veðurfarsjöfnunni; svo stórar að miklar breytingar náttúrufars á svæðinu skipta sköpum fyrir mannkynið. Þrennt er þar stórvægast: Hrörnun hvíta endurskastsskjaldarins, þ.e. hafísþekjunnar, og þar með hlýnun Íshafsins, hop jökla með tilheyrandi sjávarborðshækkun og súrnun sjávar vegna síhækkandi magns koldíoxíðs (nú 417 milljónustu hlutar í stað um 300 árið 1950) í lofti.

Þegar menn fagna opnun norðursins sem hafsjó tækifæra og sæg erfiðra en gefandi verkefna er þörf á að staldra við og segja: - Já, kannski, en horfumst í augu við raunveruleikann og málum ekki enn eina rósrauða mynd af okkur og veröldinni. Fetum okkur hægt fram og snúum við þegar við á. 

Við erum ekki lengur á braut sem stefnir að hlýnun undir tveimur stigum á heimsvísu á næstu tveimur til þremur áratugum heldur gæti miklu verr farið, ef fram heldur sem horfir.

Áhuginn á norðrinu

Undanfarið hafa augu fjárfesta, fjármálastofnana og ráðuneyta beinst að svæðinu. Skyndilega blasir við nýr aðgangur að gjöfulum auðlindum og mikilvægar siglingaleiðir að auki. Mikill auður og digur hagnaður getur fallið mörgum í skaut; reyndar eftir himinháar fjárfestingar. Talið er að um 90 milljón milljónir dala fari ef til vill í þær á næstu árum. Þrennar höfuðauðlindir eru mest áberandi í umræðunni um "tækifæri og áskoranir“: Jarðefnaeldsneyti, málmar og steinefni og loks land undir vegi, járnbrautir, orku- og efnaleiðslur, samskiptatæki, flugvelli og hafnir við nýju siglingaleiðirnar sem kunna að opnast á næstu árum og áratugum: Norðausturleiðin meðfram Síberíu, Norðvesturleiðin meðfram Kanada og þverleiðin yfir Norðurpólinn. Leiðsögukerfi fyrir flug og siglingar varða miklu í þessu skyni.

Auglýsing
Tækifærin eru sögð felast í framförum og hagvexti, en áskoranirnar í að minnka eða koma í veg fyrir rask og mengun, og enn fremur neikvæð áhrif á samfélög manna. Hvernig finnum við jafnvægið á milli náttúrunytja og náttúruverndar? Hvenær er best að láta verkefni kyrr liggja?  Hver eru þolmörkin sem marka sjálfbærni samfélaganna?

Margir vilja ræða þetta til hlítar og láta náttúruna og vilja nærsamfélaga ráða mestu en aðrir meta tækifærin mest og telja tækni og góðan vilja einkafjármagnseigenda og ríkisvalds, í samvinnu landa, geta leyst vandamálin. Og jafnvel fer þannig að úr sér gengin orðanotkun er tekin upp sbr. sérútgáfu Morgunblaðsins 1. nóvember 2014. Ensk þýðing á íslenska hugtakinu norðurslóðasókn var þar orðin að: Conquering the north - norðrið sigrað. Þegar þess er gætt að þumalfingursregla í olíu- og gasvinnslu er á þann veg að fyrir hvern dollar sem fjárfest er fyrir fást tíu í staðinn, ef sæmilega tekst til, er ekki að undra að margir vilja sigrast á... hverju? 

Réttur frumbyggja og hugmyndafræði

Eins og oftast í mannkynssögunni við sókn auðlindanýtenda inn á ný landsvæði eru þar fyrir mannverur. Hver kann ekki sögur um misbeitingu valds gegn fólkinu og hundsun á rétti  þess eða lífsháttum. Nú til dags er ekki unnt að fara þannig óheft fram á norðurslóðum. Frumbyggjar hafa skipulagt sig og sett fram sínar kröfur og staðið á sínum rétti.  Að því sögðu er ekki þar með viðurkennt að viðhorf frumbyggja séu ávallt rétt. Meginatriðin eru þó ljós. Rétt frumbyggja til að lifa af náttúrunni og í sátt við hana ber að virða. Líka rétt þeirra til að ákvarða hvernig þeir aðlagast breyttum aðstæðum og tækni og rétt til sjálfbærrar auðlindanýtingar. Misgjörðir liðinna áratuga ber að bæta fyrir.  

Þúsunda ára reynsla frumbyggja af sambýli við náttúru norðursins á erindi við alla sem koma að málefnum norðurslóða. Þar er að finna upplýsingar, viðhorf, hugmyndafræði og aðferðir sem eiga fullt erindi í ákvarðanatöku um næstu og fjarlægari skref við nýtingu og stjórnun norðurslóða. Í norðurslóðastefnu ríkjanna átta er nú orðið lögð áhersla á réttindi og þekkingu frumbyggja og leitast við að samtvinna þau atriði í ákvarðanir sem varða nútíð og framtíð. Ísland er eina landið án frumbyggja sem hér voru fyrir við landnám (hvenær og hvernig sem það fór fram). Sú hugmynd höfundar að efla miðlun þekkingar frá frumbyggjum til okkar hinna, t.d. með stofnun Frumbyggjaskóla SÞ, eða á annan hátt, hefur þótt íhugunarverð.

Jarðefnin freista

Horfa verður á þá staðreynd að engar náttúrunytjar sem herða á hröðum og hættulegum loftslagsbreytingum af manna völdum mega í raun fara fram á norðurslóðum. Það sama á að gilda þar og annars staðar: Sérhver aðgerð sem minnkar losun gróðurhúsalofttegunda eða bindur kolefni á að ganga fyrir aukinni ásókn í jarðefni og mannvirkjagerð. Ósjálfbær orkuöflun í norðri má aðeins fara fram til þess að afla íbúunum nauðsynlegrar orku á meðan sú sjálfbæra er ekki í boði á nærliggjandi landsvæðum. Tryggja verður næga raf- og varmaorku og láta nýsköpun snúast um orkuöflun með vistvænum hætti: Vindi, sólgeislun, jarðvarma, vatnsafli og sjávarorku, t.d. ölduvirkjunum. Löngu er kunnugt að við náum hvergi nærri að draga úr hlýnun loftslags og snúa þróuninni við nema að leyfa 2/3 hlutum þekktra kolefnisauðlinda að liggja kyrrar í jörð. Og samtímis verður að gera frumbyggjum og heimastjórnum kleift að nýta auðlindir heima fyrir. Einnig er réttmætt að fljótandi jarðgas (LNG) sé viðurkennt sem betri orkukostur en kol, olía og venjulegt jarðgas, með tilliti til 20% minni kolefnisgasslosunar LNG.

Allar þjóðir í Norðurskautsráðinu stefna að námuvinnslu norðan heimskautsbaugs, vinnslu kolefniseldsneytis og verðmætra jarðefna, nema Ísland. Hvort tveggja er auðvitað ósjálfbærar náttúrunytjar. Gildir einu hvar vinnslan fer fram eða í hvað efnin eru notuð. Ábyrgð vinnslulandsins í umhverfisvernd nær líka til sölu og notkun efnanna í öðrum löndum. Dæmi um þetta er olíu- og gasvinnsla Norðmanna sem nær ekki til kolefnisbókhalds og skuldbindinga ríkisins, umfram það sem notað er heima fyrir, en er í reynd afar þungvæg á heimsvísu. 

Önnur námuvinnsla en upptaka kolefniseldsneytis kann að vera nauðsynleg í norðrinu, vegna skorts á mikilvægum efnum, t.d. málum, en hún verður þá að vera mjög varkár, undir sérstöku eftirliti og með þátttöku heimamanna. Líta ber á takmarkaða vinnslu jarðefna sem nauðsynlegan fórnarkostnað við velferð mannkyns og þá um leið er skylt að lágmarka umhverfisáhrifin með mótvægisaðgerðum og með því að nýta hringrásahagkerfi sem byggir á endurnýtingu hráefna og úrgangs sem fellur til. Í stað sóknar stórfyrirtækja á norðurslóðir verður að nýta alþjóðlega samvinnu heimskautaríkja og alþjóðastofnana á jafnréttisgrunni til þess að skilgreina þá vinnslu sem mörg landsvæði geta borið með lágmarks umhverfisáhrifum og í samræmi við þarfir alþjóðasamfélagsins, ekki einstakra fyrirtækja eða ríkja, nema ef vera skyldi Grænlands. Þar er jarðefna- og orkuvinnslu talin lykil að sjálfstæði. Færeyingar eru að hluta í sömu stöðu en samkvæmt skilgreiningu norðurslóða eru Færeyjar utan þeirra en tengjast þó beinu samstarfi ríkjanna með ýmsum hætti, sbr. Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið. Eftirtektarvert er að fylgjast með þjóðum utan norðurslóða sækja þangað með fjárfestingum og öðrum áhrifum, t.d. Ástrali og Kínverja, með mismunandi þunga, einkum Kínverjar. Sú aleitna spurning vaknar hvort ekki þurfi að semja um reglur sem miði að sjálfbærni uppbyggingar á landi og vaxandi jafnvægi nytja og verndar, Polar Code 2, líkt og gildir um siglingar (Polar Code 1), þ.e. hegðunarreglur í sæferðum.

Kröfur þjóðríkja og stjórnun í norðri

Málefni norðurslóða hafa verið talin forgangsmál og tengjast landgrunns- og fullveldiskröfum Íslands. Mikilvægi málaflokksins er augljóst og þátttaka í Norðurskautsráðinu ákaflega þýðingarmikil. Viðurkenndar landgrunnskröfur varða öll ríkin átta en með mismunandi hætti. Þær taka mið af jarðfræði á hafsbotni og snúast um auðlindanytjar og ákvarðast í samræmi við hafréttarsáttmála SÞ (UNCLOS). Hingað til virðast rökfærður grunnur krafnanna verið hafinn yfir umræður eða gagnrýni. Ég tel hann smám saman hafa orðið úreltan. Í stað krafna um auðlindarétt á úthafsbotni hundruð mílna á haf út með jarðsögulegum rökum verður að koma samábyrgð á velferð alls lífríkis í hafi. Þar með talið á hafsbotni, sem myndar heild með sjónum fyrir ofan hann. Samábyrgðin er lykill að velferð mannkyns. 

Af þingmannaráðstefnu norðurslóða í Inari árið 2018. Mynd: Arna Bang.

Ísland rís upp af Norður- Atlantshafshryggnum. Við krefjumst réttar á auðlindum vestur fyrir Bretlandseyjar að eigin mati og einnig norður úr, út fyrir efnahagslögsöguna. Rússland beitir jarðfræðilegum rökum til þess að eigna sér hafsbotnsrétt til norðurs, alla leið upp á Norðurpól og raunar lengra. Fjögur önnur norðurslóðaríki, Kanada, Bandaríkin, Danmörk (Grænland) og Noregur leggja í sama leiðangur og krefjast yfirráða yfir sinni sneið norður á pólinn. Um þetta gerðu ríkin fimm með sér samkomulag án samráðs við Ísland, Svíþjóð og Finnland. Í raun réttri er þessi afstaða ekki í þágu mannkyns. 

Hafsbotninn í norðri, utan 200 mílna lögsögu hvers ríkis, ætti að vera sameiginlegt verndarsvæði allra þjóða og nýting lífríkis í úthafi háð alþjóðlegu samkomulagi. Strandríkin fimm ættu að gefa eftir ítrustu hafsbotnskröfur, halda sig við auðlindir innan 200 mílna marka, þar sem eru alþjóðlegar siglingaleiðir, og leyfa alþjóðasamfélaginu að líta á miðju Norður-Íshafsins sem svæði undir verndarvæng mannkyns. Annað og enn flóknara verkefni lýtur að því að endurskoða hafréttarsáttmálann í heild. Vinda ber ofan af óréttmætum kröfum um auðlindir langt út á öll helstu úthafsvæði. Þau eiga að vera vera ósnertar, mannkyni til góða. Ekki er þó útlit fyrir að svo verði í bráð og íslensk yfirvöld tala ekki með þessum hætti. 

Samvinna um framfarir norðursins

Vissulega hefur orðið árangur af samstarfi norðurslóðaríkjanna átta. Nægir að nefna regluverk um skip og siglingar á norðurslóðum (fyrsta Pólkóðann), samstarf um björgun og viðbrögð við mengunarslysum, vísinda- og rannsóknasamstarf í samfélags- og náttúruvísindum og um menntun. Búið er að ná samkomulagi um að stunda ekki fiskveiðar á hafsvæðum sem enn eru að mestu lokuð vegna hafíss. Í stað þess munu fara fram víðtækar rannsóknir sem rennt geta stoðum undir sjálfbærar sjávarnytjar í Norður-Íshafinu, innan lögsögu ríkjanna fimm. Loks má benda á þátttöku samtaka frumbyggja í Norðurskautsráðinu og stöðu allmargra ríkja utan heimskautasvæða, og samtaka, sem áheyrnaraðila á fundum Norðurskautsráðsins. Ísland tók við formennsku þess 2019 og gegnir henni vel og skilmerkilega til miðs árs 2021. Næst sjá Rússar um forystuna og samkvæmt nýopinberuðum áherslum er mikils að vænta af stórþjóðinni, raungeri stjórnvöld þær á næstu tveimur árum, eins og framast er unnt. 

Til hliðar við Norðurskautsráðið starfar þingmannanefnd norðurslóða (CPAR), m.a. með þátttöku þinga allra ríkjanna átta og Evrópuþingsins á stórri ráðstefnu. Hlutverk hennar er að senda ráðinu samþykktir og tillögur um stefnu og aðgerðir í mörgum málaflokkum; þó ekki varnar- og öryggismálum. Höfundur er formaður íslensku deildarinnar.

Margar þjóðir utan Norðurskautsráðsins hafa skipulagt heimskautastofnanir og samstarf þeirra um nám, rannsóknir og miðlun til samfélaga og þjóða hefur margfaldast. Sífellt fleiri ríki setja sér sérstaka norðurslóðastefnu, nú síðast Evrópusambandið í heild, og verður hún að teljast vel framsækin.

Eitt helsta einkenni norðurslóðasamstarfs ríkjanna átta er sérstætt. Engar ákvarðanir eru teknar án fullrar samstöðu. Ávallt er leitað málamiðlana á mikilvægum ráðstefnum og fundum. Samvinna snýst um alla helstu málaflokka, að slepptum öryggis- og varnarmálum. Lögð er áhersla á skipti á upplýsingum, á aukið vísinda- og menningarsamstarf, lausna leitað á félagslegum vanda, lögð áhersla á velferð og heilbrigði, menningu, fjarskipti og samgöngur, verslun og viðskipti. Alþjóðlega samvinnan á norðurslóðum er næsta einstök á heimsvísu. Auk Norðurskautsráðsins, fer fram formlegt samstarf á vettvangi Northern Dimension, Arctic Economic Council (fyrirtæki), Northern Forum, bæjar- og borgarstjóra í ríkjunum átta, Northern Coastguard Forum (strandgæslu ríkjanna 8). Eru þá ótaldar starfsamar stofnanir, opinberar eða sjálfstæðar, innan og utan Norðurskautsráðsins sem hafa margar með sér samstarf. Frá 2013 að telja hefur samstarfið vaxið með tilkomu árlegrar, opinnar ráðstefnu í Reykjavík, Arctic Circle. Hún er fjármögnuð án þátttöku stjórnvalda, opin öllum sem áhuga hafa og dregur að sér um 4.000 manns.

Sérstaða Arctic Circle

Ráðstefnan Arctic Circle (Hringborð norðurslóða) er orðin stærsti samræðuvettvangur norðurslóða. Þar koma saman stjórnmálamenn, fjárfestar, fulltrúar ríkisstjórna og sveitarstjórna, samtök áhugafólks, fulltrúar menningarstrauma og vísindamenn. Fjöldi ríkja utan norðurslóða sendir sína fulltrúa á ráðstefnuna og sérlegar ráðstefnu eru skipulagðar í heimshlutum á vegum Hringborðsins. Á meginráðstefnunni fæst ágætt og víðtækt, árlegt yfirlit yfir stöðu umræðna og ákvarðana ríkja um sígilda mótsögn: Auðlindanytjar og hagnað af þeim frammi fyrir náttúruvernd og andófi gegn hlýnun loftslags og afleiðingum þess. Ráðstefnan er stærsti fundur veraldar um norðurslóðamálefni og hefur þríþætt gagn: Hún er vettvangur mikillar, frjórrar samræðu, miðstöð margvíslegrar fræðslu og þarfra skoðanaskipta og hún tengir fólk í flestum geirum samfélaga. Á fyrstu ráðstefnu Arctic Circle yfirgnæfðu hugmyndir og stefnumál um auðlindanytjar umhverfisverndina. Smám saman hefur staðan í umræðum og á sérfundum breyst, náttúruvernd og loftslagsmálum í hag. 

Endurskoðuð norðurslóðastefna

Árið 2011 samþykkti Alþing þingsályktun sem er fyrsta útgáfa að norðurslóðastefnu Íslands. Hún hefur nú verið endurskoðuð frá grunni. Það gerði þverpólitísk þingmannanefnd og lagði fram nýja, framsýna tillögu til utanríkisráðuneytisins. Ráðherra leggur brátt fram þingsályktunartillögu sem byggð er á vinnu nefndarinnar. Efni hennar verður ekki tíundað hér en minnt á að hún er í takt við þróunina á norðurslóðum, framvindu loftslagsmála, í anda sjálfbærni, jafnréttis og velferðar, friðar og samvinnu við leit að lausnum.

Til eru þeir sem telja að samvinna í Norðurskautsráðinu og samvinna þess og margra áheyrnarlanda geti tryggt að ekki verði alvarlegir árekstrar við opnun norðursins. Aðrir óttast að ströng hagsmunagæsla hvers ríkis og merki um aukna hernaðaruppbyggingu séu til vitnis um að andstæðingar takist á þegar fram í sækir. Ekki endilega með vopnavaldi heldur með því að helga sér og tryggja haf- og botnsvæði og segjast munu verja þau. Önnur ríki gætu reynt að koma sér fyrir, beint eða bakdyramegin, með verkefnum, fólki og aðstöðu í löndunum, einkum þeim minni. Til hliðar standa svo ýmis Evrópuríki, og fjarlægari ríki, og telja að beita verði mun alþjóðlegri og sameiginlegri viðmiðum.

Auglýsing
Í endurskoðaðri norðurslóðastefnu Íslands er fjallað um öryggismál í samræmi við samþykkta þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þar er tekið undir friðsamlegar lausnir og áhyggjur af vaxandi spennu og aukinni, gagnkvæmri hernaðaruppbyggingu á báða bógi í austri og vestri, sem sumpart tengist siglingum og auknum umsvifum í norðrinu. Það minnir okkur á að umræður allra átta ríkjanna og mikla vinnu vantar frammi fyrir vandanum. Fram til 2014 tóku Rússar þátt í umræðuvettvangi herja norðurslóðalandanna, en eftir Krím-málið var þeim vikið þaðan.  Ég tel að ríkisstjórnin og Alþingi eigi að leggja til upphafsskref í átt að heimskautaöryggismálakóða í anda Polar Code 1 (sem ég kalla svo) með boði um ráðherrafund ríkjanna átta undir árslok. Í öllu starfi í átt að Polar Code 3 er unnt að nýta Hringborð norðurslóða, nýleg samtök þingmanna fyrir friði (IAPP), stofnanir eins og Open Diplomacy í Evrópu, Wilson-stofnunina í Washington, og, ekki hvað síst, samstarfsvettvang landhelgisgæsla norðurslóðaríkjanna, auk Sameinuðu þjóðanna. Kóðinn segði til um umgengnisreglur og samskiptareglur öryggis- og varnaraðila á norðurslóðum og hegðan með því markmiði að halda við lágspennu og koma í veg fyrir mistök sem geta leitt til árekstra. 

Staða Akureyrar og Norðurslóðasetur í Reykjavík

Í norðurslóðastefnunni er vikið að Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Ísland og eflingu hennar. Þar er vísað til kennslu og rannsókna við Háskólann á Akureyri (sem er einn stofnenda Háskóla norðurslóða og aðsetur Heimskautaréttarstofnunarinnar), til Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar með áratuga starf að baki, tveggja fastra sérfræðivinnuhópa Norðurskautsráðsins, Norðurslóðanets Íslands, Alþjóða Norðurskautsvísindanefndarinnar og nokkurra annarra stofnanna og samstarfsverkefna. Starfið á sér rætur aftur til 1997 og mikil þekking og reynsla orðin til á Akureyri. Auk þess hefur samstarf um Grænlandsflug, heilbrigðisþjónustu við austurströnd Grænlands og atvinnurekstur tengdum Grænlandi litað stöðu Akureyrar. Við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Landbúnaðarháskólann og aðrar stofnanir í höfuðborginni og víðar um land fer fram ýmis konar öflug og mikilvæg starfsemi að málefnum norðurslóða. Allt þetta norðurslóðastarf þarfnast yfirlits, almennrar og sértækrar kynningar og frekara samstarfs. Það er við hæfi að haldið sé utan um slíkt á Akureyri um leið og fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið leggja sín lóð á vogarskálar enn öflugra norðurslóðastarfs þar á bæ og annars staðar í landinu. Það gerist með enn betri aðstöðu og auknu fjármagni, eftir því sem við á, til viðbótar við rannsóknasjóði, og ekki hvað síst, með markáætlun rannsókna sem lögð er til í hinni nýju stefnu. Fjölbreytni, samhæfing, dreifing og upplýsingamiðlun eru allt lykilhugtök í norðurslóðastarfinu.

Í norðurslóðastefnunni er einnig lagt til að skapa Hringborði norðurslóða umgjörð með stofnun Norðurslóðaseturs á Íslandi. Það hlýtur að gerast án beinnar aðildar ríkisins að fjármögnun og rekstri, í samræmi við eðli Hringborðsins. Enn fremur er ljóst, að mínu mati, að vönduð umræða og þarfagreining fari fram á því hvað slíkt setur innifelur umfram að vera fast aðsetur undir alþjóðlega starfsemi og fundi Hringborðsins sem samræðuvettvangs og hvar það skuli staðsett. Rannsóknir fara fram annars staðar en tengdar Hringborðinu og þar með ljóst að aðsetur sérfræðinga sem hingað koma er jafnan víða um land. Menntun í norðurslóðafræðum tengist mörgum menntastofnunum hér og í öðrum löndum. Ísland allt og margur vettvangur í sérhverju hinna landanna sjö er í raun kjarninn í almenningsfræðslu og þekkingarleit á norðurslóðum í allri sinni margbreytni. Þess vegna ber að vanda vel allar ákvarðanir er varða Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála og Hringborð norðursins sem helsta alþjóðlega samræðuvettvang allra sem áhuga hafa á málefnum norðurslóða.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Það er erfitt að ímynda sér að það snjói í Brasilíu en snjókoma er eflaust algengari þar en ætla mætti. Þessi mynd er tekin eftir snjókomu í Brasilíu í ágúst árið 2020
Snjór fellur í Brasilíu
Sumir íbúar í syðsta héraði Brasilíu hafa tekið snjónum fagnandi enda ekki á hverjum degi sem þar snjóar. Bændur gætu aftur á móti átt von á lakari uppskeru og verð á hrávörumörkuðum hefur hækkað í kjölfar kuldakastsins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Landspítalinn er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sjúklingur á krabbameinsdeild reyndist ekki með COVID
Sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans, sem sagt var frá í gær að hefðu greinst með COVID-19 reyndust ekki smitaðir af kórónuveirunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Óli varð efstur í forvali VG í Norðausturkjördæmi en Bjarkey Olsen í öðru.
Óli Halldórsson hættur við að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Óli Halldórsson færist niður í þriðja sætið en hann stígur til hliðar úr oddvitasætinu vegna veikinda í fjölskyldunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett
Fjórðungur smitaðra óbólusettur
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Tæplega 750 smit, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Kjarninn 30. júlí 2021
Þessir frambjóðendur skipa sjö efstu sæti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.
María Pétursdóttir og Þór Saari leiða sósíalista í Suðvesturkjördæmi
María hefur starfað innan Sósíalistaflokksins í fjögur ár sem formaður Málefnastjórnar. Raðað er á lista flokksins af hópi flokksfélaga sem hefur verið slembivalinn.
Kjarninn 30. júlí 2021
Ísland og Ísrael örva bólusetta
Á Íslandi og í Ísrael er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði löndin sáu smit nær þurrkast út en rísa svo í hæstu hæðir á ný. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum örvunarskammt.
Kjarninn 30. júlí 2021
Stóru bankarnir þrír fækkuðu allir í starfsliði sínu á fyrstu sex mánuðum ársins.
Starfsmönnum stóru bankanna fækkaði um rúmlega 80 á fyrri helmingi árs
Í lok júní störfuðu 2.167 manns hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Samanlagður hagnaður bankanna nam 37 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar