Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson er mikið ólíkindatól. Hann talar tæpitungulaust, er óhræddur að hjóla fast í manninn á opinberum vettvangi, er ekki alltaf að láta staðreyndir þvælast fyrir sér og hefur tekið að sér að gæta hagsmuna ótrúlega fjölbreytilegs hóps manna. Á milli þess sem hann tínir upp rusl af miklum móð samfélaginu öllu til heilla.
Aðlögunarhæfni Sigurðar G. að málstað skjólstæðinga sinna má meðal annars sjá í þremur málum sem hann hefur flutt fyrir dómstólum.
Sigurður G. er lögmaður þeirra manna sem stóðu að fjárfestingarfélaginu Sund, sem síðar var breytt í IceCapital og er nú gjaldþrota. Síðla árs 2010 tók héraðsdómur Reykjavíkur fyrir mál Arion banka gegn félaginu vegna vanefnda á lánasamningi. Í málinu bar lögmaður Sund/Icecapital, Sigurður G., fyrir sig að félagið hefði verið misnotað markaðsmisnotkunartilburðum Kaupþings, fyrirrennara Arion banka, til að kaupa hlutabréf bankanum til að hafa áhrif verðmyndun hans. Þá hafi rekstur Kaupþings eftir árið 2006 verið „einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans" og fjárfestar hafi „bæði verið blekktir og beittir svikum". Í málatilbúnaði Sunds/IceCapital segir auk þess að stjórnendur Kaupþings hafi „á árunum 2007 til 2008 unnið markvisst þágu einstakra hluthafa sinna og tekið stöðu gegn íslensku krónunni". Á grundvelli þessara raka fór Sigurður G. fram að skjólstæðingur hans yrði ekki bundinn af lánasamningnum. Héraðsdómur hafnaði þessum rökum og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu nokkrum mánuðum síðar. IceCapital var gert að greiða Arion banka 3,5 milljarða króna.
Sami hópur var aftur mættur fyrir dómstóla vorið 2011, nú vegna dótturfélags IceCapital, Iceproperties, sem eigendurnir vildu ekki gefa upp til gjaldþrotaskipta þrátt fyrir himinháar skuldir. Í málflutningi fyrir dómi kom fram í máli lögmanns Iceproperties, Sigurðar G., að hann teldi skjólstæðinga sína hafa verið fórnarlömb markaðsmisnotkunar af hendi Glitnis banka þegar þeir keyptu bréf í honum fyrir um átta milljarða króna, sem voru fengnir að láni hjá Glitni. Þess má geta að Sigurður G. var stjórnarmaður í Glitni fyrir hrun. Dómstólar keyptu ekki rök Sigurðar G. og Iceproperties var gefið upp til gjaldþrotaskipta.
Spólum nú áfram um nokkur ár og sami Sigurður G., sem taldi aðra skjólstæðinga sína vera fórnarlömb markaðsmisnotkunar Kaupþings og Glitnis, er mættur fyrir dómstóla að verja Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóra Landsbankans, í tveimur málum þar sem honum er gefið að hafa stundað markaðsmisnotkun ásamt öðrum starfsmönnum bankans. Í IMON-málinu svokallaða var Sigurjón var sýknaður í málinu í héraðsdómi, þar sem einn dómari af þremur taldi að það ætti að sakfella hann, en það verður tekið fyrir í Hæstarétti 21. september næstkomandi. Í stærra markaðsmisnotkunarmáli var hann sakfelldur og dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir markaðsmisnotkun. Það mál bíður þess að verða tekið fyrir í Hæstarétti.
Af hverju er verið að rifja þetta upp? Jú, vegna þess að í síðustu viku skilaði félag Sigurðar G., sem heitir í höfuðið á honum sjálfum, ársreikningi sem sýndi að lögmaðurinn rekur afar arðbæra starfsemi. Alls nam hagnaður félagsins í fyrra rúmum 70 milljónum króna og heildareignir þess voru 171 milljón króna. Það þýðir að Sigurður G. hefur verið að hala inn um 5,8 milljónum króna á mánuði í fyrra.
Í bakherberginu eru menn sammála um að árangur Sigurðar G. sýni að það margborgar sig að haga seglum eftir vindi. Og tekjurnar má síðan nota til hjálpa við yfirtöku á óþægilegum fjölmiðlum.