Í mars síðastliðnum birtust niðurstöður könnunar Vörðu – rannsóknarstofnunnar ASÍ og BSRB um stöðu launafólks og atvinnulausra á Íslandi. Skömmu seinna fengum við í Eflingu niðurstöður þar sem staða félagsfólks Eflingar var sérstaklega skoðuð. Þar mátti sjá svart á hvítu hverskonar „áskorun“ það er að komast af á launum verkafólks í „skemmtilegustu borg í heimi“. Þar mátti sjá svart á hvítu afleiðingar þeirrar kerfislægu andúðar sem fengið hefur að vaxa og dafna í okkar stéttskipta samfélagi gagnvart vinnuaflinu.
43,2% Eflingar-kvenna sögðust eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. 17,8% Eflingarkvenna höfðu þurft að fá einhverskonar fjárhagsaðstoð frá ættingjum, vinum eða hjálparsamtökum. 30,5% Eflingarfólks gat ekki mætt óvæntum útgjöldum (viðgerð á heimilistækjum, kostnaður við skólaferðalag barns svo að dæmi séu tekin). 21, 5% Eflingarkvenna mátu líkamlega heilsu sína slæma þegar þær svöruðu könnuninn og 41,4% Eflingarkvenna mátu andlega heilsu sína slæma. 54,3% Eflingarfólks hafi þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu af einhverjum toga vegna kostnaðar. Og svo mætti áfram telja.
Í þessari viku birti fyrrnefnd Varða niðurstöður könnunar sem unnin var að beiðni Öryrkjabandalags Íslands. Aftur fengum við að lesa um kerfislæga andúð á hópi fólks; líf öryrkja er líf erfiðleika og áhyggna. Kaldur skuggi peningaleysisins eltir fólk hvert sem það fer, hvað sem það gerir. Líf fullorðinna og barna er gert eins erfitt og hægt er að hugsa sér:
30% öryrkja eiga ekki fyrir kostnaði vegna skipulegra tómstunda barna sinna. 40% hafa ekki efni á að kaupa nauðsynlegan fatnað fyrir afkvæmi sín og 34% öryrkja geta ekki keypt eins næringarríkan mat og þau telja börnin sín þurfa. 85% einhleypra foreldra eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. 63% kvenna með örorku geta ekki mætt óvæntum útgjöldum. 58% þessara kvenna hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu og 56% um sálfræðiþjónustu.
Á meðan sjálfsupphafning meðlima valdastéttarinna nær nýjum hæðum, og valdamenn og konur eyða endalausum peningum teknum úr ríkissjóði til að kaupa af sjálfum sér risastórar myndir út um alla borg hefur skeytingarleysið gagnvart því óbærilega ástandi sem ríkir í lífi fjölda fólks aldrei verið jafn skelfilega áberandi. Skýrslur líkt og þær sem hér eru nefndar fá umfjöllun í fréttum eitt kvöld. Þau sem bera ábyrgð þurfa ekki einu sinni að standa fyrir máli sínu, þrátt fyrir augljósan alvarleika þess er um ræðir. Þau komast upp með að láta eins og völd þeirra séu einfaldlega afleiðing náttúrulögmála, sömu náttúrulögmála sem dæma fólk til vanlíða og skorts.
En því sem hér að ofan er lýst er ekki náttúrulögmál. Það er ekki náttúrulögmál að verkakonum sé haldið föngnum í hlekkjum ofur-arðránsins. Það er ekki náttúrulögmál að þær uppskeri svo lítið fyrir sitt ómissandi vinnuafl að tilvera þeirra og barna þeirra sé endalaus „áskorun“ í því að komast af. Það er ekki náttúrulögmál að lífsskilyrði öryrkja séu svo erfið að læknisheimsókn verði lúxus sem ekki er að hægt að leyfa sér. Það er ekki náttúrulögmál að börn öryrkja geti ekki notið þess að eiga áhyggjulausa barns-tilveru, fulla af leikjum og gleði. Nei, niðurstöður kannana Vörðu um kjör vinnuaflsins og öryrkja eru niðurstöður mannlegrar gjörða og gjörðaleysis. Niðurstöðurnar segja sögu af þolendum og gerendum. Vegna þess að það sjúka kerfi sem við lifum í féll ekki af himnum ofan. Er ekki þyngdarlögmál, er ekki eitt af lögum Mendels. Nei, það er hannað, innleitt og því viðhaldið af manneskjum sem í orði aðhyllast gildin um frelsi og jafnrétti en hafa fyrir löngu gengið inn í speglasal nýfrjálshyggjunnar til að ráfa þar um, undirseld valdaþránni, undirseld tækifærismennskunni. Undirseld trúnni á kerfið; sama hverjar afleiðingarnar eru má ekki hrófla við því viðbjóðslega stigveldi sem okkur hefur verið troðið inn í.
Arðránskerfið hvílir á efnahagslegu ofbeldi. Það er staðreynd. Það þarf gerendur til að framkvæma mannfjandsemina. Og það þarf sjúka meðvirkni til að kerfið megi vaxna og dafna á kostnað þolendanna. Það er staðreynd.
Því segi ég: Hingað og ekki lengra. Hættum meðvirkninni með ruglinu. Okkar sjálfra vegna og vegna þeirra sem haldið er föngnum af þeirri hræðilegu en einföldu ástæðu að ríkidæmi auðstéttarinnar er ávallt á kostnað hinna eignalausu. Við hljótum í sameiningu að hafna því að lítil börn líði skort vegna þess að útgerðarauðvaldið fær aldrei nóg, vegna þess að fjármagnseigendur fá aldrei nóg, vegna þess að yfirstéttin í Valhöll fær aldrei nóg.
Þetta er okkar samfélag. Við skulum ekki sætta okkur við það lengur að eitrun stéttskiptingarinnar og misskiptingarinnar haldi áfram að breiða úr sér, með ömurlegum afleiðingum. Við eigum að berjast gegn arðráni, kúgun og óréttlæti. Við eigum að berjast fyrir frelsi, réttlæti og systkinalagi. Sjálfsvirðingin segir okkur það. Við skulum leyfa henni að ráða för.
Höfundur er formaður Eflingar. Hún er í 4. sæti á lista Sósíalista í Reykjavíkurkjördæmi norður.