"Sjónarmið sjötugra“ er hugtak sem er að ná fótfestu í íslenskum fjölmiðlum. En margir hafa misskilið hugtakið þar sem “sjónarmið sjötugra” hafa ekkert að gera með venjulegt sjötugt fólk eða fólk á sjötugsaldri almennt. Þau lýsa ákveðnu hugarfari og úreltum politískum hugsjónum sem gagnast ekki lengur samfélaginu sem við lifum í.
Kannski er orðavalið óheppilegt, og þá má spyrja sig hvers vegna þetta var valið af Verdicta (ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtæki rekið af Hallgrími Óskarssyni), því einhver hlýtur ástæðan að vera. Fyrirtækið birti niðurstöður á „greiningu“ eða rannsókn síðastliðinn janúar en formál rannsóknarinnar eru enn ansi óljós. Verdicta segir að rannsóknin hafi verið unnin með því að markmiði að „auka umræðu um málefni sem eru til umræðu hverju sinni.“ Það hefur svo sannarlega tekist þar sem umræðurnar á Facebook láta ekki á sér standa:
Sjónarmið sjötugra vs sjónarmið nútímans
Hvort sem fólk er ósammála, sammála eða yfirhöfuð skilur hvað átt er við, þá er áhugavert að velta fyrir sér hvað er verið að tala um og hver hin hliðin geti verið – við gætum til dæmis kallað andstæðuna "sjónarmið nútímans”. "Sjónarmið sjötugra” vitnar í skoðanir gamalla flokkshana sem stjórnuðu landinu í áraraðir fyrir hrun – fólk og hópar sem ennþá virðast ráða bak við tjöldin.
Alla vega er þeirra hagsmuna vel gætt: endurgreiðslan, lóðaúthlutanir, niðurfellingar skulda, pólitík sem byggir á ótta við það óþekkta svo að spilling geti þrifist og lítið um sakfellingar í fjármálaheiminum í kjölfar hrunsins svo eitthvað sé nefnt (að Kaupþingi nú undanteldu). Þeir sem aðhyllast “sjónarmið sjötugra” berjast gegn umbótum og vilja viðhalda gömlum gildum, á kostnað heildarinnar (“Einkavæðum heilbrigðiskerfið og virkjum náttúruna með skammtíma ávinning”) en það er ekkert skilyrði að vera á sjötugsaldri til þess að fylgja þessari stefnu. Yngra stjórnmálafólk virðist hafa meðtekið boðorðin 10 og hagar sér samkvæmt því sem einu sinni þótti rétt, en ekki endilega eftir vilja fólksins, eða eftir því sem væri farsælast fyrir landið, náttúruna eða þjóðina. Margir stjórnmálamenn -og konur nútímans haga sér á þann hátt sem stjórnmálamenn fortíðarinnar hegðuðu sér, því þannig halda þau að stjórnmál eigi að vera - verandi eitt peð í flokkspolitík þar sem hugsað er um sína. Það sem þessi hópur skilur ekki er að það er eitt “fyrir” og “eftir” hrun.
Eftirmál hrunsins eru þau að við þurfum að læra af reynslunni og líta fram á veginn, en ekki aftur fyrir okkur. Og ef við lítum til framtíðar hlýtur að blasa við að hlutunum þarf að breyta ef við viljum sjálfbært samfélag, ef við viljum sanngjarnt Ísland, og ef við viljum lifa af.
Grikkland og Spánn nútímavæðast
Það mætti færa rök fyrir því að "Sjónarmið nútímans” séu ekki komin til landsins, því þau eru í prufu erlendis og eru rétt að byrja að að gera sig þar. Samfélagssinnar eru nýjasta trendið í pólitík. En til þess að þau komist upp á yfirborðið virðist sem að löndin þurfi fyrst að ná botninum. Lítum bara til Grikklands og Spánar. Í nýafstöðnum kosningum í Grikklandi í síðasta mánuði komust tveir mjög ólíkir flokkar til valda sem hafa hafið samstarf vegna þess að þeir eru sammála um að vera ósammála því hvernig fjármálakerfinu er háttað í Evrópu.
Alexis Tsipras, nýrr forsætisráðherra Grikklands.
Syriza, flokkur Alexis Tsipras, nýja forsætisráðherra Grikklands og New Democracy, sem er öfgasinnaður hægri flokkur, hafa fátt annað sameiginlegt en vilja fólksins á bak við sig til að endursemja um skuldir landsins. Í fyrstu voru kröfur Evrópusambandsins mjög strangar (skera niður ríkisreknu lífeyrissjóðina, minnka lágmarkslaun og kröfur um uppsagnir þúsundir ríkisstarfsmanna) eitthvað sem nýja, gríska ríkisstjórnin hefur harðneitað að gera. Hún er kölluð “anti-establishment” og “anti-austerity” en kannski er hún bara strangur fylgjandi “sjónarmiða nútímans” þar sem eiginhagsmunir (bankanna) eru látnir víkja fyrir hagsmunum heildarinnar (þjóðarinnar), þar sem trúin er á að samvinna leiði til framfara og áhersla er lögð á að byggja gott og réttsýnt samfélag, þar sem sömu reglur og tækifæri gilda fyrir alla.
Á Spáni hefur svipuð fylking orðið til sem styður Podemos, nýtt pólitískt afl sem er leitt af sjarmerandi sjónvarpsstjörnunni Pablo Iglesias (remixaðar ræður hans með hip hop ívafi gefa honum fylgi hjá unga fólkinu) en fylgi flokksins hefur stóraukist á því tæpa ári sem hann hefur verið til, hjá ungum sem öldnum. Honum er nú spáð sigri í kosningum síðar á þessu ári. Ástæðan fyrir vinsældum flokksins er að hann gefur sig ekki út fyrir að vera pólítískt afl í anda fortíðarinnar, og þar nær hann til fólksins því á Spáni er mikil óánægja með aðhaldsaðgerðirnar sem fjármálahrunið hefur haft í för með sér og sömu gömlu stefnurnar í stjórnmálum sem virka ekki.
Samkvæmt Iglesias fara hagfræði og lýðræði saman. Hann telur að harðar aðgerðir fjármálaheimsins í dag hafi skaðað samfélögin okkar í heild, ollið meira atvinnuleysi, því að fólk missir heimili sín og að skólarnir séu ekki í stakk búnir til að þjóna hlutverki sínu. Þetta vill Podemos flokkurinn leiðrétta með því að endurheimta lýðræðið til fólksins, þar sem það á heima. Og kosningarloforðin eru ekkert slor, Podemos segist ætla, meðal annars, tryggja lífeyri, mat, orku og húsnæði fyrir alla, styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki, reka umhverfisvænna efnahagskerfi og binda endi á skattsvik kaupsýslumanna svo eitthvað sé nefnt.
Stjórnmálahreyfingar sem fylgja kröfum kjósenda
Það sem fólkið hefur skilið (en pólitisku öflin í öðrum löndum þráast enn við) er að forsenda ríkis sem er rekið í skugga stórfyrirtækja og gróðrastarfsemi á hendur fárra einstaklinga, er ekki lengur raunhæfur valkostur. Nútímaríkin munu ekki einkavæða helstu nauðsynjaþjónustur svo einstaklingar geti grætt á neyð annarrra (heilbrigðiskerfið) eða afsala sjálfsögðum réttindum þegnanna með því að takmarka almenna þjónustu (með niðurskurði á lífeyri, skertum aðgangi að réttarkerfi eða slöku menntunarkerfi).
Það sem hreyfingarnar í Suður-Evrópu gefa til kynna, sem og umræðan eftir árásirnar í París í janúar og í Kaupmannahöfn í febrúar , er að fleiri kalla á samfélag með jöfnum réttindum fyrir alla, þar sem gagnkvæm virðing ríkir sem ekki er tengd innkomu, fjölskylduarfi, trúarbrögðum eða litarhafti. Margir þættir þurfa að koma saman til að jafnrétti sé tryggt en til dæmis er aðskilnaður ríkis og kirkju eitt dæmi svo að engin ein trúarbrögð drottni yfir öðrum. Að allir standi jafnir fyrir lögum og réttindum er líka upphafspunktur (til dæmis ætlar Grikkland að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra). Sterkt menntakerfi sem undirbýr gagnrýna hugsun er líka nauðsynlegt svo breytingar geti átt sér stað.
Flokkarnir tveir sem hér hefur verið minnst á geta vel talist talsmenn "sjónarmiða nútímans” og spurning er hvort að svipaðar fylkingar muni spretta upp annars staðar í Evrópu. Svipaðar kröfur eru þegar til staðar á Írlandi og gæti landið orðið næsta Evrópuríkið sem snýr baki við aðhaldsaðgerðum. Upp frá óánægju kjósenda í löndum eins og Frakkland og Danmörku þar sem Sósíalistar eru við völd, gæti krafan um breytingar líka orðið hávær. Löndin eiga það sameiginlegt að leiða stefnu sem skaðar ímynd Sósíalista meira en þeir gera gagn með því að reka ríki eins og fyrirtæki, með því að einblína á hagvöxt og beita niðurskurði á almannaþjónustu og aðhyllast aðhaldspólitík út í eitt, eitthvað sem yfirleitt er tengt hægri stjórn. Það gæti reynst hægara sagt en gert að ná endurkjöri ef að þessir flokkar fara ekki að svara kalli “sjónarmiða nútímans”.
Pia Kjærsgaard, er annar stofnenda Dansk Folkeparti. Hún, og flokkurinn, leggja mikla áherslu á harða afstöðu í málefnum innflytjenda.
Hins vegar er líka mögulegt að önnur myrk og hættuleg öfl komist til valda áður en þessi lönd ná botninum. Hægri öfgaflokkar eins og Dansk Folkeparti (DK) og Le Front National (FR) njóta meira fylgis en áður, meðal annars vegna þess að þeir spila á hræðsluna við innflytjendur (“sem koma og taka alla vinnuna og auðinn okkar”) og þess misskipta samfélags sem við lifum í. Formenn þessara flokka hafa verið duglegir að spila inn á fréttaþörf fréttamiðlanna og mega eiga það að þeir eru góðir að koma sögum sínum á framfæri sem myndi krefjast lengri útskýringar að rekja en kemst fyrir í 3 mínútna frétt um málefnið í kvöldfréttatímanum eða á netsíðunni.
Óbreyttir stjórnunarhættir munu skaða framtíðina
Tími kapítalismans, þar sem ofurtrúin á að markaðurinn spjari sig án laga og reglna (reglna eins og til dæmis kynjakvóta) er liðin, og er það ein stærsta afleiðing fjármálahrunsins 2008. Nú þurfa þjóðirnar að ranka við sér, eins og Spánn og Grikkland hafa gert, og krefjast breytinga. Breytingarnar verða að koma í gengum lögvaldið og vera krafa kjósenda. Kröfur eins og atvinna, menntun og húsnæði fyrir alla eru lágmarkskröfur ríkra, vestrænna samfélaga. Þar að auki er hægt að bæta við aukinni umhvefisvernd og sjálfbærni samfélaga sem þurfa að standa undir sér. Viðvörunarbjöllur sérfræðinga hljóma úr öllum áttum, hvort sem það eru sameinuðu þjóðirnar sem vara við óafturkræfum loftlagsbreytingum, World Economic forum sem ræðir um leiðir til að sporna við ójöfnuði, eða hópar sem kalla á 25 stunda vinnuviku.
Ekkert minna er ásættanlegt þar sem framtíðin er í húfi. Almennt ríkir samstaða um að líf okkar eins og við þekkjum það, með áherslu á hagvöxt fram fyrir allt, skaðar samfélög, grefur dýpri gjá á milli hópa (þeirra ofsaríku og allra hinna) og að plánetan er í hættu ef við eigum að lifa eftir reglum neyslusamfélagsins mikið lengur. Þetta kallast "Burning platform” í fyrirtækjarekstri, og ekki getum við stólað á að fyrirtæki, sem einblína á hagnað með skammtímasjónarmið að leiðarljósi, geri nokkuð til að spyrna við þróuninni. "Sjónarmið nútímans” þurfa að taka við "sjónarmiðum sjötugra”, á Íslandi, sem og annars staðar, og breytingin kemur getur einungis komið frá fólkinu sem þarf að endurheimta lýðræðið í sínar hendur.