Íslenskir stjórnmálamenn ættu ekki að vera hræddir við að ræða um tillögur að grundvallarbreytingum á peninga- og fjármálakerfi landsins eftir það sem undan er gengið. Í fyrsta skipti í mannkynssögunni kúventist staða þróaðs ríkis það hratt, að ekkert annað en beiting neyðarréttar gat bjargað því. Í kjölfarið komu stjórnmálamenn síðan á ströngum haftabúskap með lögum, sem þeir hafa ekki ennþá talið sig geta fjarlægt. Það er staðan núna.
Það var eftirminnilegt í Landsdómsmálinu svokallaða, þegar Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar og Landsdóms, spurði út í þessi mál og þá sérstaklega hvenær það hefði verið ákveðið að breyta kröfuröðinni og hafa innlán rétthærri en skuldabréfin í bú hinna föllnu banka. Það staðfestist hjá vitnum að þetta algjöra grundvallaratriði í allri neyðaraðgerð íslenska ríkisins var ákveðið á síðustu stundu. Það segir sína sögu um hversu gríðarlega miklum vandamálum landið stóð frammi fyrir, án þess að stjórnmálamennirnir hafi gert sér grein fyrir því fyrr en á síðustu stundu.
Kemur ekki á óvart
Nú er komin fram skýrsla um breytingar á peninga- og fjármálakerfi landsins, sem Frosti Sigurjónsson, formaður viðskipta- og efnahagsnefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, tók saman og ber ábyrgð á. Hún er á ensku, en með um tíu síðna útdrætti á íslensku, og hefur verið afhent forsætisráðherra. Ef það stenst ekki lög að hafa skýrsluna á ensku, þá verður Frosti bara að gefa þetta út í bókaformi. Þá er sami sigur unninn, og upplýsingum komið á framfæri við almenning.
Það er alltof sjaldgæft að stjórnmálamenn á Íslandi sýni á spilin með ítarlegum skrifum um hvað þeim finnst um mál eins og tíðkast oft erlendis. Það er góð leið til þess að skjalfesta rökstuðning fyrir tilteknum sjónarmiðum og góð þjónusta við almenning.
Frosti hefur á undanförnum árum haldið tugi funda um þessi mál, ýmist með stórum eða litlum hópum, eða einn á einn. Að grunni til koma þessar hugmyndir sem fram koma í skýrslunni ekki á óvart, í ljósi þess kynningarstarfs sem hann hefur þegar unnið, og greina sem hann hefur skrifað.
Peningamyndun hjá seðlabönkum
Í þeim hugmyndum sem rætt er um í skýrslunni felst grundvallarbreyting á fjármálakerfinu, þar sem inntakið er það, að færa þurfi peningamyndun frá bönkum - sem sannarlega á sér stað - til Seðlabankans. Grundvöllur að endurbótum á peningakerfinu, samkvæmt því sem rakið er í skýrslunni, gæti verið innleiðing á svonefndu þjóðpeningakerfi þar sem Seðlabankanum væri einum heimilt að búa til peninga fyrir hagkerfið. Seðlabankanum yrði falið að skapa peninga sem hagkerfið þarf en Alþingi hefði það hlutverk að ráðstafa nýjum peningum með fjárlögum.
Þetta er grundvallarhugmyndin. Og hún er vissulega róttæk, miðað við það kerfi sem nú er í gildi, en hún er ekki ný. Eftir kreppuna miklu komu þessar hugmyndir fram, og var þá horft til þess, hvernig mætti vernda almannahagsmuni og læra af því sem aflaga fór.
Dínamísk umræða
Í sem skemmstu máli, þá hefur ekki verið unnið samkvæmt þessum hugmyndum í heiminum undanfarna áratugi, en umræða um þær hefur verið dínamísk á undanförnum árum, innan seðlabanka og á vettvangi alþjóðasamstarfs, meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í þeim skilningi eru þessar hugmyndir ekki á jaðrinum, heldur er helsta vandamálið frekar það að erfitt er að útskýra inntakið í þeim fyrir almenningi með þeim hætti, að stjórnmálamenn finni til ábyrgðarinnar.
Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og bankamálaráðherra Íslands á árunum 2006 og 2007 – þegar mesta ójafnvægi sem sést hefur í bankageira í mannkynssögunni var staðreynd á Íslandi – finnur töluvert að þessum hugmyndum Frosta, og setur rök fram gegn þeim. Helst er að nefna það, að þessar hugmyndir eru í reynd mikil ríkisvæðing á grunnstoðum fjármálakerfisins. Og síðan að erfitt er að sjá fyrir sér, hvernig það eigi að geta gengið, að Ísland taki upp kerfi sem er algjörlega á skjön við það sem aðrar þjóðir eru að gera í þessum málum, jafnvel þó gefið sé að það sé raunhæf lausn.
Sjúkdómseinkennin og gagnrýnisraddir
En alveg eins og reyndin var 2006 og 2007 með íslenska fjármálakerfið og stöðu hagkerfisins – mitt inn í mestu efnahagsbólu sögunnar – þá sjást ekki alltaf sjúkdómseinkennin nema að rýnt sé í það sem mögulega gefur vísbendingar um að eitthvað sé að, og hlustað á gagnrýnisraddir.
Það sem er líka ógnvekjandi fyrir okkur sem teljast til óbreyttra leikmanna í hópi almennings, sem ekki eru með hagfræðipróf, er að stjórnmálamenn um nær allan heim hafa ákveðið að nýta seðlabankanna til þess að lina þjáningarnar af skelfilegum efnhagslegum mistökum sínum, og vona það besta í framtíðinni. Frumgögn frá Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Bandaríkjanna sýna þetta. Nær stjórnlaus skuldasöfnun í „helsjúku fjármálakerfi“ eins og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, nefndi það um daginn, er staðreynd. Hópurinn sem óhjákvæmilega borgar í framtíðinni er ábyrgðaraðilinn, almenningur.
Hér má sjá hvernig efnahagsreikningur Seðlabanka Evrópu hefur þanist út, í kjölfar efnahagsþrengingana 2007 til 2010. Til framtíðar er gert ráð fyrir frekari útþenslu, eins og myndin sýnir. Mynd: The Economist.
Því miður er það svo, að ekkert bendir til þess að fjármálakerfið sem búið er við í dag, sé sjálfbært og þannig innrammað að almannahagsmunir séu vel tryggðir. Þvert á móti virðast bankar enn vera alltof stórir til falla, óhagkvæmni innan banka sem starfa í skjóli ríkisábyrgðar á skuldum þeirra er viðvarandi og augljós, ekki bara á Íslandi, og alltof stór hluti hagnaðar fyrirtækja verður til hjá bönkum í stað þess að hann myndist í raunverulegri verðmætasköpun í hagkerfunum. Síðan eru bónusgreiðslur bankamanna til þeirra sjálfra, í þessum aðstæðum, til þess fallnar að sýna almenningi fingurinn og brosa á eftir. Óskarsverðaunaheimildarmyndin Inside Job fangar þetta vel.
Hér má sjá hvernig efnahagsreikningur Seðlabanka Bandaríkjanna hefur þróast. Skuldbindingar hans eru skuldbindingar skattgreiðenda framtíðarinnar. Mynd: The Economist.
Skýrsla Frosta er um róttækar breytingar á þessu „helsjúka“ fjármálakerfi sem almenningur býr við. Almenningur hefur sjálfur horft á það gerast, trekk í trekk, að hagnaðurinn sé einkavæddur þegar vel gengur, í skjóli ríkisábyrgðar á skuldum og stoðum hlutaforðakerfisins (fractional reserve banking) sjálfs, en tapið síðan þjóðnýtt þegar illa gengur.
Ef einhvern tímann er tími til þess að skoða róttækar breytingar á fjármálakerfinu, þá er hann núna, þegar við súpum seyðið af viðvarandi haftabúskap og fullkominni og fordæmalausri óstjórn fjármálakerfisins sem stjórnmálamenn skapa rammann um með löggjöf.
Vonandi þora stjórnmálamenn að ræða róttækar breytingar á kerfi sem er ekki að virka nægilega vel, og að því leyti virðast grundvallarbreytingar á því vera nauðsynlegar ef sagan á ekki að endurtaka sig. Skýrsla Frosta er sjaldgæf og góð viðleitni til þess að ræða um þessa hluti almennnilega, og vonandi tekst að koma þessu mikilvæga máli sem breyting á fjármálakerfinu er framar í forgangsröðin hjá stjórnmálamönnunum.
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ættu líka að nálgast þá umræðu af auðmýkt, eftir það sem undan er gengið, og þora að taka þátt í henni málefnalega, eins og Bank of England er að gera og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sömuleiðis, enda er um alþjóðleg kerfislæg vandamál að ræða.