Í gær fóru fram mótmæli. Ef ég skyldi málið rétt var þar saman komið allskonar fólk að mótmæla allskonar ákvörðunum. Það er ekki bara réttur fólks að mótmæla heldur aðdáunarverð dyggð. Þessi mótmæli fóru víst vel fram. Það er gott. Heldur þótti mér þó framkoma Svavars Knúts Kristinssonar –eins af skipuleggjendum mótmælanna- setja furðulegan og stundum jafnvel leiðinlegan blett á umfjöllun um þessa samkomu.
Hann gekk fram með kröfu um „að stjórnmálamenn hætti skætingi, leiðindum og yfirlæti.“
Skætingurinn
Hann sagði orðrétt að stjórnmálamenn væru: „þessi gaur sem kemur í partý og skítur á gólfið hjá þér. Og þegar þú bendir honum á að þetta sé ekki beinlínis í lagi, þá ælir hann yfir lortinn“. Já, þetta sagði maðurinn sem kallaði eftir að hætt yrði með skæting.
Leiðindin
Hann sagði orðrétt: ,,Það er ógeðslega glatað lýðskrum að reyna búa til einhvern skítastimpil á fólk sem er að reyna sýna þá virðingu að reyna ræða við ráðamenn á lýðræðislegum grundvelli,“ í viðtölum kallaði hann þingmenn ríkisstjórnarflokkanna asna og lygara. Já, þetta sagði maðurinn sem kallaði eftir að hætt yrði með leiðindi.
Yfirlætið
Hann sagði orðrétt: ,,Þau [þingmenn ríkisstjórnarflokkanna] geta alveg skilið að við erum ósátt og reið, og farið eftir því. Hann sem sagt krafðist þess að ríkisstjórn Íslands myndi ekki bara hlusta á hann og skoðunarsystkini heldur líka fara eftir því sem þau segja. Já, þetta sagði maðurinn sem kallaði eftir því að hætt yrði með yfirlæti.
Svavar Knút þekki ég ekki. Hef þó haft gaman af tónlist hans og mun hafa það áfram. Í ræðunni hans kom fram að hann væri „alinn upp á heimili þar sem kurteisi og yfirvegun voru í hávegum höfð“. Ekki efast ég um það. Árangur þess uppeldis kom þó lítið fram í orðum og æði hans í gær.
Ég held að áður en Svavar Knútur fer að boða siðbót hefði hann gott af því að hlusta á kollega sinn sem söng þessa ágætis ráðleggingu:
I'm Starting With The Man In
The Mirror
I'm Asking Him To Change
His Ways
And No Message Could Have
Been Any Clearer
If You Wanna Make The World
A Better Place
Take A Look At Yourself, And
Then Make A Change
Hitt er svo annað að sjálfsagt eru þessi skrif mín bara skætingur, leiðindi og yfirlæti – enda ég stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.