Oft er kvartað yfir háu eldsneytisverði á Íslandi og mikilli skattlagningu á eldsneyti og sennilega hafa margir það á tilfinningunni að skattlagning eldsneytis sé há á Íslandi í samanburði við útlönd. Í rauninni er þetta þveröfugt. Skattlagning á eldsneyti er í lægri kantinum á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd. Núverandi ríkisstjórn hefur meira að segja frestað eða hætt við hækkun eldsneytisskatta í takt við verðbólgu. Þessir skattar eru að krónutölu og lækka í hlutfalli við verðbólgu ef þeir eru ekki hækkaðir árlega.
Skattar á eldsneyti hafa lækkað umtalsvert til lengri tíma litið. Skatthlutfallið var t.d. yfir 60% af útsöluverði árin 1996-1999 en lækkaði niður fyrir 50% fram til 2004, sjá Mynd 1. Skattarnir eru ekki hærri núna því árið 2013 var hlutur allra skatta að meðaltali 47% af útsöluverði bensíns.
Á Mynd 2 er súlurit sem sýnir upphæð eldsneytisskatta í Evrópulöndum um þessar mundir í evrum á 1.000 lítra eldsneytis. Fyrri súlan fyrir hvert land sýnir bensíngjald en sú seinni olíugjald. Ísland er í áttunda sæti yfir lægsta bensíngjald og eru löndin fyrir neðan öll fyrrverandi austantjaldslönd. Ísland er í 10. sæti yfir lægsta olíugjald en fyrir neðan eru auk fyrrverandi austantjaldslanda líka Grikkland, Spánn og Lúxemborg.
Myndin er allt önnur þegar eldsneytisverð er skoðað eins og sjá má á Mynd 3. Ísland er þar í 20. sæti yfir lönd með lægsta bensínverð en í 27. sæti yfir lönd með lægsta dísilverð. Hér er því 11. hæsta bensínverðið en 4. hæsta dísilverðið borið saman við Evrópulönd. Misháir umhverfis- og virðisaukaskattar eftir löndum hafa þar áhrif en ekki síður kostnaður við flutninga til landsins, dreifing innanlands, umfangsmikið kerfi bensínstöðva og álagning olíufélaganna. Ríkið hefur sennilega minni tekjur af eldsneytissölu á hverja einingu en lönd sem við berum okkur saman við en samt er eldsneytið dýrara hér en víðast hvar.
Það er mikilvægt að staðreyndir séu á hreinu og að við byggjum ekki ákvarðanir okkar á tilfinningu eða bábiljum. Að mínum dómi er fullt tilefni til að hækka eldsneytisskatta í takt við verðbólgu, að láta þá lækka með verðbólgu er röng stefna. Tekjurnar sem ríkið lætur frá sér með lækkun eldsneytisskatta þarf það að innheimta á öðrum vígstöðvum og svigrúmið til að slaka á öðrum sköttum verður minna fyrir vikið. Það væri ekki óeðlilegt að Ísland væri ofan við miðju í Evrópu í skattlagningu á eldsneyti ef mið er tekið af landsframleiðslu og þjóðarútgjöldum. Að við skulum verma botnsætin með fátækari löndum Evrópu er furðulegt.