Jón Ásgeir Jóhannesson skrifar reglulega greinar í Fréttablaðið, sem hann átti einu sinni en er nú í eigu eiginkonu hans. Greinarnar snúast vanalega um ofsóknir sem hann hefur orðið fyrir að ósekju. Slíkar má lesa hér, hér, hér, hér og hér. Eina undantekningin frá þessu leiðarstefi var mýkri grein sem Jón Ásgeir skrifaði nokkrum dögum eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hafði opinberað alla ævintýralegu vanhæfnina, græðgina og skeytingarleysið sem átti sér stað í íslensku viðskipta- og fjármálalífi á árunum fyrir hrun. Þar sagðist hann hafa misst sjónar á góðum gildum en ætlaði að leggja sitt af mörkum til "að byggja Ísland upp að nýju."
Og í dag skrifaði hann enn eina greinina í Fréttablaðið, nú í tilefni þess að Hæstiréttur hefur ómerkt dóm héraðsdóms í Aurum-málinu. Í greininni er kunnuglegt stef. Hann kvartar yfir því að hafa þurft að verja hendur sínar í 13 ár og að tilgangurinn virðist vera „sá að koma mér í fangelsi hvað sem það kostar“. Hann segir ákæruvaldið hafa eytt milljörðum króna af fé íslenskra skattgreiðenda síðustu 13 ár til að reyna að reyna að finna einhvern glæp svo hægt sé að taka hann úr umferð.
Í greininni lætur Jón Ásgeir sem að Hæstiréttur hafi ómerkt niðurstöðu héraðsdóms með því að blessa lygar Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, sem hann kallar „óheiðarlegan embættismann“, um að hann hafi ekki vitað að meðdómari í Aurum-málinu, Sverrir Ólafsson, væri bróðir Ólafs Ólafssonar, sem hlaut þungan dóm í Al-Thani málinu svokallaða. Jón Ásgeir segir: „Hver trúir því að 100 manna herlið sérstaks saksóknara kunni ekki á Google þar sem tengslin liggja fyrir? Hvaða hugsanlega ástæðu hafði héraðsdómarinn til þess að ljúga til um samskipti sín við sérstakan saksóknara? Skiptir ekki máli að bréf liggur frammi í málinu frá meðdómaranum sem styður frásögn héraðsdómarans? Af hverju er svona rugl í kerfinu tekið út á okkur sem vorum sýknaðir? Ekki er við okkur að sakast um það sem gerðist. Eigum við ekki að njóta vafans? Það er skelfilegt að upplifa þá tilfinningu að Hæstiréttur haldi hlífiskildi yfir óheiðarlegum embættismanni en láti réttindi fjögurra einstaklinga lönd og leið.“
Í bakherberginu hafa margir klórað sér fast í höfðinu vegna greinar Jóns Ásgeirs, því hún ber þess ekki merki að hann hafi lesið niðurstöðu Hæstaréttar í málinu. Þar kemur nefnilega skýrt fram að engu máli skipti hvort sérstakur saksóknari hafi vitað hvort mennirnir tveir væru bræður. Það sem skipti máli fyrir Hæstarétt er það sem Sverrir sagði í viðtölum við fjölmiðla 9. júní 2014. Við fréttastofu RÚV sagði hann m.a.: „… Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“
Í sjónvarpsfréttum saman kvöld bættust eftirfarandi ummæli Sverris við fréttina: „„Ég trúi því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var, hann telji það hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Það laumast að mér sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn.“
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að hann telji „óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdómsins.“