Hinn 19. júní birtist frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þess efnis að Ísland og ESB hefðu samið um sameiginleg markmið í loftslagsmálum í anda Kyoto-bókunarinnar. Samkvæmt samningnum þarf nettólosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi að dragast saman sem nemur um 860 þúsundum tonna koltvísýrings til ársins 2020, eða sem nemur um 31% af núverandi losun. Þessu markmiði má ná í grundvallaratriðum með tvennum hætti, þ.e. með því að minnka losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið eða með aukinni bindingu koltvísýrings í gróðri, jarðvegi og bergi.
Hinn 22. júní birti RÚV frétt undir fyrirsögninni „Hægt að ná markmiðum með skógrækt“. Þar var haft eftir Arnóri Snorrasyni, skógfræðingi á Mógilsá, að ná mætti verulegum hluta markmiða í loftslagsmálum með skógrækt, einkum ef menn spýttu í lófana, því að dregið hefði úr nýgróðursetningum um helming frá því fyrir hrun.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/48[/embed]
Ýmislegt að athuga við fréttaflutning
Við þennan fréttaflutning er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er ekki minnst á þá margvíslegu möguleika sem felast í aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, einkum frá iðnaði og samgöngum. Í öðru lagi má ráða af fréttinni að skógrækt með nýgróðursetningum sé besta leiðin til að auka bindingu og þar með ná markmiðum Kyoto-bókunarinnar. Í þriðja lagi, sem er utan við efni þessarar greinar, velur Arnór að bera gróðursetningar nú saman við það ár sem allra flest tré hafa verið gróðursett á landinu. Sé hins vegar nýskógrækt síðustu 20 ára borin saman við áratugina þar á undan hefur gríðarleg aukning orðið þar á.
Hér er ekki staður eða stund til til að fjalla ítarlega um möguleika Íslands til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda (þ.e. losun að frádreginni bindingu) eða fara í smáatriði varðandi ólíkar leiðir, enda hefur það verið gert í viðamikilli sérfræðingaskýrslu umhverfisráðuneytisins frá árinu 2009. Mig langar einungis að ræða hvaða áhrif breytt landnotkun getur haft á þetta ferli, því að óvenjuhátt hlutfall útstreymis gróðurhúsalofttegunda á sér stað frá framræstum mýrum og uppistöðulónum hér á landi, eða um 32% árið 2006.
Breytt landnýting til að draga úr losun
Í ofangreindri skýrslu um möguleika Íslands til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda er gerður samanburður á þrenns konar landnýtingu sem hefur áhrif þar á. Þar er um að ræða skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.
Samkvæmt skýrslunni munu gróðursettir nýskógar frá og með árinu 1990 binda um 220 þúsund tonn kolefnis árið 2020 miðað við núverandi skógræktarátak. Þetta eru aðeins um 25% af nauðsynlegum samdrætti í nettóútstreymi samkvæmt Kyoto-bókuninni. Miðað við tvöföldun nýgróðursetninga frá því sem nú er næst að binda um 280 þúsund tonn árið 2020, sem er 32% af skuldbindingum landsins. Þessi tvöföldun hefði þó þurft að koma til strax árið 2010 til að svo gæti orðið, en sú varð ekki raunin, sbr. viðtalið við Arnór.
Landgræðsluverkefni sem hófust um og eftir 1990 munu binda um 555 þúsund tonn koltvísýrings árið 2020 samkvæmt skýrslunni, eða sem nemur um 65% af skuldbindingum landsins. Tæknilega, miðað við aukningu strax árið 2010, hefði landgræðsla getað skilað um 800 þúsund tonnum árið 2020 og farið langleiðina með að uppfylla markmið um 31% samdrátt í nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Aukin skógrækt aðeins ein leið sem unnt er að beita
Endurheimt votlendis er ennþá hverfandi. Miklir möguleikar til skamms tíma felast þó í henni, því áætlað er að um fjórðungur framræsts lands sé ekki nýttur með beinum hætti til fóðurframleiðslu eða beitar og því sársaukalaust fyrir bændur og aðra landeigendur að endurheimta þann hluta. Sé gert ráð fyrir að þessi fjórðungur framræsts lands verði endurheimtur á allra næstu árum má draga úr losun árið 2020 sem nemur um 400 þúsund kolefnistonnum og þar með næst að uppfylla helming Kyoto-markmiðsins. Endurheimt votlendis getur gengið mjög hratt fyrir sig ef samkomulag næst við landeigendur um að fara þá leið.
Af framansögðu leiðir að aukin skógrækt er aðeins ein af þeim landnýtingaraðgerðum sem unnt er að beita til að ná markmiðum um samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2020. Sökum þess hversu skammur tími er til stefnu er afar ólíklegt að nokkur þessara aðgerða, ein og sér, nái að uppfylla þessi markmið.
Árétta skal að hér er ekki fjallað um möguleika til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaði og samgöngum, en þeir eru vissulega mjög miklir og að mörgu leiti gæfulegri leið en aukin binding, þar sem forvarnir eru yfirleitt betri en lækning.
Beinn kostnaður vegna mismunandi aðgerða
Í ofangreindri skýrslu er gerður samanburður á kostnaði kolefnisbindingar í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Tekið er fram að kostnaðarmat sé erfiðleikum bundið, einkum þar sem mestur hluti kostnaðar fellur til strax í upphafi en ágóðinn skilar sér á mörgum áratugum. Þetta á ekki síst við um skógrækt. Með þessum fyrirvara er niðurstaðan sú að hvert tonn bundins kolefnis kostar um 900 kr. í framræsluverkefnum en 1.300–1.500 í landgræðslu og skógrækt. Séu þessir útreikningar réttir er hagstæðast fyrir ríkið að leggja fé í endurheimt votlendis til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
Áhrif landnýtingarkosta á lífríki og landslag
Í frægri grein, „Hernaðurinn gegn landinu“, sem birtist í Morgunblaðinu á nýársdag árið 1970, rekur Halldór Laxness aðför manna og búsmala að náttúru landsins í gegnum tíðina, hvort sem er vegna landbúnaðar eða stóriðju. Tilefni greinarinnar var aðallega áform sem þá voru uppi um frekari virkjun Laxár í Mývatnssveit, sem hefði drekkt um 12 km af Laxárdal, og um groddalega útfærslu Norðlingaöldulóns sem hefði fært á kaf stóran hluta Þjórsárvera.
Í greininni segir nóbelsskáldið m.a.: „Menn komu hér upphaflega að ósnortnu heiðalandi sem var þéttvaxið viðkvæmum norðurhjaragróðri, lýngi og kjarri, og sumstaðar hefur nálgast að vera skóglendi; hér var líka gnægð smárra blómjurta; og mýrar vaxnar háu grasi, sefi og stör, morandi af smákvikindum allskonar og dróu að sér fugla svipað og Þjórsárver gera enn þann dag í dag.“ Mýrarnar segir hann lífseigustu gróðurlendin: „Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins.“ Við þessa lýsingu á landkostum Íslands við landnám og mikilvægi votlendis getur náttúrufræðingur fáu gagnlegu bætt.
Ekki er um það deilt að lífríki landsins er aðeins svipur hjá sjón hjá því sem það var við landnám. Stór hluti gróðurhulu og jarðvegs er tapaður og frjósemi mikils hluta þeirrar gróðurlenda sem eftir sitja er langt undir getu miðað við loftslagsskilyrði.
Löngu áður en Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna leit dagsins ljós hafði íslenskur almenningur og yfirvöld áttað sig á því að margvísleg efnisleg, siðferðileg og lýðræðisleg rök standa til þess að endurheimta forn landgæði eftir mætti. Efnislegu rökin eru t.d. hagkvæmari landbúnaður með aukinni frjósemi landsins, siðferðilegu rökin hafa oft verið sett fram með slagorðinu „Að greiða skuld okkar við landið“ og lýðræðisrökin eru m.a. þau að meirihluti landsmanna telji aukna skógarþekju og grósku æskilega. Hafa ber þó í huga að aðgerðir til að efla landgæði og lífríki, svo sem skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis, breyta jafnframt ásýnd landsins frá því sem nú er.
Efla þarf vistheim
Landgræðsla með aðferðum vistheimtar, þ.e. aðgerðum sem miða að því að endurskapa sams konar eða sambærileg vistkerfi og spillst hafa, hefur eðli málsins samkvæmt minnst áhrif á ásýnd landsins. Langmestur hluti landgræðsluaðgerða fellur núorðið undir flokk vistheimtar. Í alþjóðlegu samhengi er lögð áhersla á að efla vistheimt. Grófari form landgræðslu, svo sem uppgræðsla sanda með lúpínu, hafa stórkarlalegri áhrif á vistkerfi og ásýnd lands eins og allir sjá sem aka um Suðurland að sumri; Skógarsandur og Mýrdalssandur eru einn bylgjandi lúpínuakur næst vegi, blár í júní, annars grænn, þar sem áður var svartur sandur. Ekki er enn hægt að spá fyrir með vissu hvers konar gróðurlendi eða vistkerfi slík landgræðsla skapar á endanum. Merki sjást um landnám skógarkerfils í lúpínubreiðunum, þannig að ef til vill verða sandarnir hvítir af skógarkerfli eftir nokkur ár, svipað og Esjuhlíðar eru nú.
Lífríki breytist með stórvöxnum trjátegundum
Nýskógrækt með stórvöxnum trjátegundum breytir lífríki og ásýnd landsins þó með enn meira afgerandi hætti. Sé t.d. sitkagreniskógur eða stafafuruskógur ræktaður upp á mólendi verða smám saman alger umskipti í lífríki og landslagi: þar sem áður var opið landslag er nú lokaður skógur, þar sem áður ríktu mosar, grös og blómjurtir standa stórvaxin tré, þar sem fiðrildi flögruðu og köngulær spunnu vefi eru blaðlýs að næra sig á safa greninála og þar sem spóinn vall graut tístir glókollur nú. Skógrækt á grónu landi er að þessu leyti eðlisólík uppgræðslu sanda, því hún breytir einu gróðurlendi í annað meðan uppgræðslan skapar nýtt vistkerfi – eða endurheimtir eftir eðli uppgræðslunnar – þar sem lítið eða ekkert var fyrir. Með þessu er ég ekki að segja að greniskógurinn sé „verri“ en mórinn – þótt það sé vissulega svo fyrir þann sem ann víðsýni og berjatínslu – heldur fyrst og fremst ólíkur öðrum gróðurlendum landsins og því framandi í náttúrufarslegu og menningarsögulegu tilliti.
Skógrækt með lerki og lauftrjám eins og alaskaösp hefur ekki eins afgerandi breytingar á lífríki og landslagi í för með sér og greni- og fururræktun. Breytingar á lífríki skógarbotnsins verða minni og þar sem þessi tré fella lauf að hausti verða þau ekki eins áberandi í íslensku landslagi að vetri og sígrænu trén.
Nýskógrækt með birki breytir vissulega líka ásýnd landsins og því lífríki sem fyrir er en birkið verður blessunarlega ekki mjög hávaxið og er þar að auki afar fjölbreytilegt að lit og formi. Langfallegustu skógarnir að mínu mati eru sjálfsánir birkiskógar, sem fella sig algerlega að landslagi og staðháttum. Siðferðislega, lýðræðislega og líklega efnahagslega – a.m.k. fyrir hið opinbera – er birkiskógrækt eða sjálfgræðsla birkis með friðun lands því eina réttlætanlega ríkis- og landgræðsluskógræktin, því einungis með henni endurheimtum við í eiginlegri merkingu forn landgæði og „greiðum skuld okkar við landið“. Í fyrra endurnýjaði umhverfisráðherra samning við Skógræktarfélag Íslands um stuðning ríkisins við svokallaða Landgræðsluskóga, sem hafa það að markmiði að endurheimta landgæði með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land. Ekki er gerð krafa um að eingöngu skuli nota upprunalegar tegundir í þessa skóga og raunin er sú að yfirgnæfandi meirihluti þeirra er svokallaðir blandskógar, sem fá yfirbragð barrskóga þegar frá líður.
Tvenns konar rök eru oft eru sett fram til að réttlæta ríkisstyrkta skógrækt með stórvöxnum innfluttum trjátegundum; viðaröryggi og útivist. Þegar er búið, með ærnum tilkostnaði hins opinbera, að gróðursetja skóga sem geta annað timburþörf landsmanna í mörg ár eða áratugi ef landið lokast, t.d. vegna stríðsátaka, eða olíuverð fer í slíkar hæðir að við höfum ekki lengur efni á millilandaflutningum. Afgerandi meirihluti landsbúa, líklega vel yfir 90%, getur notið blandskóga til útivistar í næsta nágrenni við heimili sitt. Og varðandi útivistina má draga í efa að fólk njóti betur útivistar í blandskógi með furu, greni og ösp en í hreinræktuðum birkiskógi eins og Vaglaskógi eða Bæjarstaðarskógi, en það er önnur saga.
Alþjóðlegi vinkillinn
Þá er eftir að fjalla um alþjóðlegu hliðina á þessu máli. Vissulega er það rétt sem fram kemur í frétt RÚV og varð kveikjan að þessum pistli að margar innfluttar trjátegundir, svo sem alaskaösp, sitkagreni, rússalerki og stafafura, vaxa hraðar og meir en íslenska birkið og binda á endanum umtalsvert meira kolefni. Slíkar tegundir eru því heppilegri en birki til ræktunar ef einungis er einblínt á kolefnisbindingu til að uppfylla ákvæði Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.
En Íslendingar eru aðilar að fleiri alþjóðlegum samningum, m.a. Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, Bernarsamningnum um vernd villtra dýra og plantna í Evrópu og Landslagssáttmála Evrópu. Þessir náttúruverndarsamningar leggja áherslu á skyldu þjóðlanda til að vernda og efla upprunalegt lífríki og ríkjandi landslagsgerðir. Þeir leggjast vissulega ekki gegn skógrækt sem landbúnaði, en skógrækt með innfluttum stórvöxnum trjátegundum í úthaga, undir yfirskini landgræðslu og vistheimtar, gengur í berhögg við þessa samninga.
Frumskyld þjóða er að vernda og viðhalda menningar- og náttúruarfi sínum – og vissulega leitast við að lagfæra það sem aflaga fer. Okkar náttúruarfur er gróin heiðalönd, votlendi og kjarrskógur sem „sumstaðar hefur nálgast að vera skóglendi“ eins og Halldór Laxness orðaði það, 6–10 m hár birkiskógur með reyniviði og gulvíði í bland. Ríkið, vilji það efla landeigendur til góðra verka, á að leggja ofuráherslu á að styrkja vistheimt og landgræðslu í úthaga sem stuðlar að því að endurheimta þennan náttúruarf og skylda styrkþega til að nota tegundir sem eru gamlar í landinu. Með slíkri landgræslu nást markmið Kyoto-bókunarinnar fullt eins vel og með hefðbundinni blandskógrækt þar sem öllu ægir saman.
Ekki á móti skógrækt eða trjám
Undirritaður hefur oft skrifað um skógrækt Íslendinga, sem er eins og margt annað hjá okkur loðmulla þar sem allt leyfist og öllu ægir saman: Viðarskógrækt, útivistarskógrækt, landgræðsluskógrækt, fjölnytjaskógrækt og nú síðast loftslagsskógrækt sem á að bjarga okkur fyrir horn vegna Kyoto en er alls ekki besta leiðin. Börnin okkar munu upplifa þessa skóga meira og minna sem barrskóga því barrtrén vaxa lengur og hærra en íslenska birkið og bera það að lokum ofurliði.
Þessi orð mín má ekki túlka sem svo að ég sé „á móti skógrækt“ eða trjám. Svo er ekki. Mér finnst blandskógar til útivistar í byggð og afmarkaðir viðarskógar á landbúnaðarlandi vel réttlætanlegir. En ég játa að birkiskógar eru í sérstöku uppáhaldi. Þeir eru náttúru- og menningararfur okkar. Mér finnst t.d. stærsti birkiskógur landsins sem er að vaxa upp á Skeiðarársandi – algerlega einn og óstuddur af ríkisframlögum – óskaplega fallegur.
Greinin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.