Í góðum grunnskóla er yfirleitt ekki talað um að börnin séu „heppin með kennara” – þvert á móti þá er í slíkum skóla undantekning ef kennarar nálgast ekki væntingar foreldra um hæfni og þar með um líðan og árangur barnanna. Þannig má halda því fram að það sem einkennir góðan skóla öðru fremur er að þar séu (nær) allir nemendur hjá góðum kennara.
Í lökum grunnskóla getur það hins vegar verið stórkostlegt happdrætti fyrir nemendur hvort þau lenda í bekk hjá góðum kennara – þau eru þá eðlilega sögð „heppin með kennara” – og þarna skilur oft mikið á milli.
Starfsskilyrði kennara – ekki síst í grunnskólum – eru ákaflega mismunandi; skólasamfélag, skólaumgjörð og foreldrasamfélag eru af miklum breytileika. Húsnæði og námsgögn eru líka talsvert mismunandi og af ólíkum aldri og standard. Rannsóknir virðast hins vegar ekki endilega sýna fram á að árangur skapist af efnislegum þáttum – þvert á móti. Langflestar rannsóknir sem ég þekki til benda í þá átt að starfsandi og megináherslur innan skólans, viðhorf og væntingar kennara til nemenda og jákvæðni skólans í samskiptum við foreldrana ráði miklu og stundum mestu um árangur barnanna. Það segir mér að menntun og starfsþekking kennara og skólastjóra er og verður lykill að því að skapa slíkt viðhorf og þann skóla –anda sem byggir undir gott samfélag og hvetjandi umgjörð fyrir víðtækan og breiðan þroska barnanna.
Já; í góðum skóla eru þannig (næstum) allir kennarar góðir kennarar. Í lökum skóla er þá á hinn bóginn margir eða jafnvel flestir kennarar sem ekki uppfylla skilyrðin um að kallast góðir kennarar og einstaklingsframtak afburðafólks megnar þá jafnvel lítils.
Þarna þarf ekki að vera að kennararnir séu illa menntaðir eða illa meinandi – hreint ekki. Undirmáls –umgjörð frá hálfu skólastjóra og rekstraraðilans getur þvert á móti beinlínis eyðilagt góðan kennara – og komið í veg fyrir að kennarinn nýti þekkingu sína og starfshæfni til árangurs og ánægju með nemendum sínum og komið með því í veg fyrir að kennarinn byggi, með góðu starfi, – upp sína eigin sjálfsmynd og leggi að mörkum til samstarfsfólks. Mygla í húsnæði getur vissulega verið háskaleg og eitruð fyrir nemendur og starfsfólk, en „myglað andrúmsloft” er ekki síður háskalegt og einkenni þess getur verið erfitt að greina utanfrá.
Jafn réttur allra
Meginmarkmið uppeldis og menntunar hafa hins vegar ekki breyst neitt teljandi. Enn stefnir skólastarf í leik – og grunnskóla að eflingu á alhliða þroska allra barna, kennslu í lestri og talnafærni og mikilvæga menntun til undirbúnings skólagöngu í framhaldsskóla þar sem menn geta lagt grunn að frekara námi og/eða undirbúið starfsvettvang í iðngreinum og þjónustu. Meginstefna íslenskra skóla er að skólinn eigi að þjónusta alla – óháð bakgrunni og þroska – svo fremi að mögulegt sé yfirhöfuð að sinna þörfum viðkomandi innan hins almenna skóla. „Skóli án aðgreiningar” er hugtak sem sveiflað er þegar menn vilja skapa sér stöðu í orðræðunni – og þá því miður alveg eins til að hnjóða í skólakerfið eins og til að standa með því. Þarna virðist hins vegar skorta býsna mikið á að rekstraraðilar skólanna – hafi sýnt því raunverulegan skilning að til þess arna þarf bæði fjármögnun og fagmennsku en umfram allt þarf samstöðu í nærsamfélaginu um þetta forgangsmál.
Það blasir við að Alþingispólitíkin hefur sl. 30 ár unnið að því að færa fjölmörg verkefni á sviði félagsþjónustu og menntunar til sveitarfélaganna án þess að sjá til þess jafnhliða að viðunandi fjármögnun sé trygg. Slumpafjármögnun í gegn um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga skortir alla lýðræðislega ábyrga jarðtengingu og mætir ekki þeirri kröfu „að jafna” aðgengi þeirra sem þjónustuna þurfa að sækja. Margt bendir í þá átt að fátækari sveitarfélög séu byggð hærra hlutfalli af fólki sem á undir högg að sækja og sem átti hugsanlega vísan sérstakan stuðning undir eldra módeli í fjármögnun grunnskóla. Sænska reynslan af „sveitarfélaga –væðingu” grunnskólans hefur klárlega aukið mjög á misrétti gagnvart grunnmenntun þar í landi – þar sem fátæk hverfi og byggðarlög bjóða upp á mun fátæklegri skóla og minni fjölbreytni og lakari stuðning af viðbótargreinum og sérþjónustu. Danska módelið á hinn bóginn nálgast fjármögnun grunnskólanna og stjórnsýslu talsvert ólíkt því sem okkar módel gerir og til að mynda í vinabæ Akureyrar (Randers) er fjármagni markvisst stýrt til stuðnings þeirra sem standa höllum fæti og getur munað umtalsvert í fjárveitingum til skóla innan sama sveitarfélags þegar heildarmyndin er rýnd. Yfirlýst markmið þar í landi er að stuðla að jafnrétti nemenda til náms og þjónustu og reiknireglur fjárstýringar eru hannaðar í samræmi.
En þetta var nú bara inngangurinn;
„Börnin okkar”
Tilefni þessa pistils er að „gömlum og lönguhættum skólastjóra og sérfræðingi á sviði uppeldis og skólastjórnunar” blöskrar mjög sú þáttagerð sem ríkisútvarp landsmanna hefur keypt af einkaaðilum og kallar „Börnin okkar” . . . og hefur nýverið lokið göngu á RÚV.
Börnin okkar er sex þátta röð þar sem rýnt er í íslenska skólakerfið. Sérfræðingar, skólafólk foreldrar og börn varpa ljósi á kosti þess og galla og mögulegar lausnir. Hugmynd og handrit: Gunnþórunn Jónsdóttir og Hermundur Sigmundsson. Dagskrárgerð: Eiríkur Ingi Böðvarsson og Gunnþórunn Jónsdóttir.
Þarna veður mjög á súðum; samsafn fullyrðinga og illa samtengdra brota – og upphrópanir. Greinilegt er að fagfólk sem starfar á vettvangi og þekkir málefnin út og inn er jafnvel sniðgengið. Áberandi er að samhengi er ekki á umfjöllun þannig að mörgum viðmælendum hlýtur að vera „bjarnar – greiði” með því sem klippt er inn á þau.
En jú; – ekki er hikað við að láta í veðri vaka að alhæfingar sé boðlegt að draga út frá tilviljanakenndum og einstökum dæmum.
Framsetning þáttastjórnenda er með þeim hætti að greinilega er það markmið þeirra að útmála leikskólana og starfsmenn þeirra og stjórnendur sem einhvers konar sökudólga.
Fræðsluhorn Hermundar er síðan kapítuli útaf fyrir sig. Eiginlega minnir það helst á „fúla föndurgæjann” sem Karl Ágúst lék í Spaugstofunni á síðustu öld, en hann var alltaf eins og úr takti við raunveruleikann og eiginlega búinn að afskrifa áheyrendur frá byrjun. Hverju prófessorinn hyggst koma til skila er ekki svo augljóst af samhenginu né hvaða erindi það á yfirleitt.
Grunnskólinn – „Guð minn góður”
Grunnskólinn fær ekki burðuga einkunn; – enda börnin auðvitað ekki búin að fá neina kennslu af viti að því er ætla mætti. Já og Snævar þurfti t.d. sannarlega að fá sérkennslu við hæfi á sínum tíma – um það mundum við ekki deila núna árið 2022 – hvað svo sem við í kennaraliði Oddeyrarskólans sem beint var fingri að vissum árið 1975. Vissulega erum við reynslunni ríkari og þekkingu okkar á dyslexiu, og ADHD hefur fleygt fram. Árið 1985 (einum 10 árum eftir að Snævar útskrifaðist úr Oddeyrarskóla) var hugtakið „lestregða” kynnt fyrir kennarasamfélaginu á Norðurlandi með grein Guðrúnar Sigurðardóttur sérkennara í tímaritinu Heimili og skóli. Og fimm árum seinna fengu kennarar í Barnaskóla Akureyrar til að mynda fræðslustund um þessa tegund af námsvandamálum, greiningarleiðir og möguleg viðbrögð í þjálfun og kennslu í námsferð til Hollands og Belgíu. Frá þeim tíma hefur þekkingu okkar og greiningartækni sannarlega fleygt fram – – og enginn einasti kennari ætti nú að útskrifast úr fagnámi án þess að þekkja dyslexi og talnablindu og þekktar greiningar og þjálfunarleiðir auk annarra algengra námsvandamála. Afnám sérgreindra réttinda kennara til kennslu á ólíkum skólastigum hefur því miður stóraukið hættu á að kennarar lendi í að taka að sér verkefni sem eru verulega utan við þekkingarsvið þeirra og þá gæti vel undirbyggð lestrarkennsla orðið meiri tilviljunum háð.
Hvort hins vegar rekstraraðili skólans er tilbúinn að fjármagna náms – og þroskagreiningar og fjármagna sérkennslu eða námsgögn – óháð biðlista eftir greiningum – er svo annað mál og vert að spyrja um. Í langflestum tilvikum er það ekki þekkingarleysi eða viljaleysi kennara sem um er að kenna – þegar börn fá ekki greiningu eða viðeigandi námsúrræði – það eru rekstraraðilar í gegn um fjárveitingar og tregðu í stjórnsýslu og stjórnendateymi þeirra sem er líklegra að um væri að kenna.
Auðvitað eru einstök, slysaleg og hörmuleg dæmi um skólavandamál og einstaklingsvanda sem siglir í gegn um kerfið – er látið danka – vegna áhugaleysis og úrræðaleysis einstakra kennara og skólastjóra – en það er meira en hæpið að birta einstök dæmi um slík mistök og fúsk og túlka þau sem einkennandi fyrir heilu skólastigin. Slíkt eru auðvitað ekki vísindi og varla afsakanlegt sem mistök þáttastjórnenda – því að þeir sem fá dagskrárvald í ríkisútvarpi allra landsmanna verða að geta vitað betur og staðið undir því faglega trausti sem slíkum aðgangi að þjóðarsálinni fylgir.
Fordómar gagnvart greiningum
Og svo er það greiningar barnageðlækna og lyfjanotkun við til að mynda ofvirkni. Vissulega má spyrja sig hvort margföldun á lyfjameðferð barna með ADHD og ofvirkni sé byggð á góðum gögnum og undirbúningi. Eftirlit með faglegum störfum lækna er til staðar og sjálfsagt að kalla eftir því að slíku eftirliti sé sinnt, en það verður ekki gert með því að hrópa upp að allir séu bara að fá greiningu og það séu bara „allir á rítalíni” – þetta hafi nú sko ekki verið svona „þegar ég var í skóla.”
Fullyrðingum Hermundar og co og ægilegum fordómum, sem jaðra við atvinnuróg gagnvart barnageðlæknum, hefur verið mótmælt harðlega m.a. af ADHD fólki sem þekkir til greininga og árangurs af lyfjameðferð.
Áróður – boðun „réttra lausna”
Já; yfirbragð þáttanna og öll framsetning og val á viðmælendum er með þeim hætti að augljóst er að meiningin er að koma á framfæri einhvers konar „boðun eða predikun.” Við blasir að tilteknir pólitíkusar er leiddir fram aftur og aftur ásamt einstaka meintum „sérfræðingum” – og fá að geysa samhengislaust með dylgjum og aðdróttunum um að börnum sé bókstaflega ekki sinnt og skólarnir séu ekki á vetur setjandi. Jafnframt er látið eins og nálgun að einstaklingsmiðun í viðfangsefnum sé alger nýlunda og að „Hermundur og co” hafi nánast fundið upp „hljóð –aðferð í lestrarkennslu.”
Sama hvað; – 10 ára þróunarverkefni verður aldrei í stellingum til að skila yfirfæranlegri reynslu strax að loknu fyrsta ári – og alls ekki ef engin mæling hefur farið fram til samanburðar eða heiðarleg tilraun verið gerð til að meta árangur. Þess vegna er þingsályktunartillaga Eyjólfs Ármannssonar þingmanns Flokks fólksins um að Alþingi mæli fyrir um kennsluaðferð í grunnskóla – í besta falli byggð á víðtæku þekkingarleysi – þó líklegra megi telja að um sé að ræða pólitíska tækifærismennsku. Kennarasamfélagið má aldrei nokkurn tíma láta það yfir sig ganga að stjórnmálamenn á Alþingi fái að stíga fram fyrir alla góða fagþekkingu og sérmenntun kennara og skólastjóra og mæla fyrir um vinnuaðferðir í einstökum skólum – slíkt væri samþykki við fasískum inngripum sem græfu um leið undan lýðræði í landinu.
Ábyrgð dagskrárstjóra á RÚV – eða „atvinnurógur”?
Upplegg og efnistök þáttanna „Börnin okkar” er fyrir neðan allar hellur; – dylgjukenndar aðdróttanir og samhengislaus boðun eða áróður á ekki heima undir þessu yfirskini hjá Ríkisútvarpi allra landsmanna. Gera verður miklu meiri kröfur um fagmennsku og þekkingu á málasviði þeirra dagskrárstjóra sem fá vald til að setja svo gríðarstóra þáttaseríu á skjái okkar. Skólastarfi og árangri kennara og skólafólks hefur verið unnið mein með þessarri framsetningu; – fjöldi kennara hlýtur að sitja eftir með slæma líðan eftir enda nánast hvergi að finna jákvæða málsvörn fyrir kennara og skólastjóra nema í þessu eina „fagnaðarerindi þáttanna” – í Vestmannaeyjum.
Þættirnir sem RÚV sýndi okkur staðfesta fúsk og umfangsmikla óvirðingu í garð fagþekkingar skólastjóra og kennara og fleiri sérmenntaðra stétta. Ábyrgðin á dagskránni er auðvitað hjá Skarphéðni Guðmundssyni fh. RÚV og hafi hann skömm fyrir. Afar brýnt er að uppeldi barna og ungmenna íslensku þjóðarinnar fái jákvætt rými í fjölmiðlum og frið til uppbyggingar. Beinn og óbeinn stuðningur við kennara og skólastjóra er gríðarlega mikilvægur fyrir framtíðarvelferð og heilbrigði samfélagsins – en umfram allt þarf þó að hvetja og styðja foreldra í sínu mikilvæga hlutverki og efla samábyrgð samfélagsins gagnvart framtíðinni í „börnunum okkar” allra.
Höfundur er BA-uppeldisfræðingur og með Meistarapróf á sviði skólastjórnunar frá UBC í Vancouver í Kanada. Hann starfaði sem kennari og skólastjóri og háskólakennari/sérfræðingur lungann úr starfsævi sinni, en er nú ekki lengur á vinnumarkaði.