Ef útgerðarmenn eru inntir eftir því hvernig þeir væru reiðubúnir að koma til móts við þjóðina til að skapa sátt um sjávarútveg verður fátt um svör. Jafnvel einföld kerfisbreyting á innheimtu veiðigjalds er ekki til umræðu af útgerðarinnar hálfu. Hafa verður í huga að veiðigjald er ekki skattur heldur afnotagjald eða leiga, af eign annarra, í þessu tilviki þjóðarinnar. Með sama hætti og þeir sem leigja húsnæði greiða leigu fyrir afnot af húsnæðinu þá ber útgerðinni að greiða þjóðinni gjald fyrir afnot af eign þjóðarinnar. Þetta hefur ekkert með skattheimtu að gera frekar en húsaleiga eða hver önnur leiga.
Þau ár sem útgerðin hefur greitt þjóðinni málamyndagjald fyrir veiðiréttinn hafa útgerðarmenn aldrei lagt fram nein sáttaboð til þess að friður ríkti um atvinnugreinina. Á sama tíma hika þeir ekki við að greiða hver öðrum háar fjárhæðir fyrir afnotarétt hvers annars af þjóðareigninni. Út frá sjónarmiði útgerðarinnar er þetta skiljanlegt. Þeirra framlag til sáttar er í besta falli að brosa út í annað um leið og þeir hugsa:
Því skyldum við gefa eitthvað eftir? Við erum með nokkra stjórnmálaflokka í vasanum sem munu alltaf sjá til þess að við höldum öllu því sem við erum með núna og fáum meira í okkar hlut síðar ef eitthvað er.
Þannig hefur fjöldi sáttaviljugra einstaklinga og samtaka komið fram með hugmyndir sem myndu koma útgerðinni vel og skapa hina nauðsynlegu sátt. Þeim hugmyndum hefur hvorki verið gaumur gefinn af útgerðum né stjórnvöldum. Útgerðinni er í raun alveg sama og allt tal þeirra um nauðsynlega sátt í sjávarútvegi er markleysa.
Fræðimenn á þessu sviði hafa sett fram hugmyndir sem ættu að geta stuðlað að sátt en framlag þeirra hefur verið virt að vettugi bæði af stjórnvöldum og útgerðarmönnum eins og að ofan er rakið. Hugmynd þeirra er einföld og hróflar alls ekki við afkomu útgerða frekar en tillögur Hafrannsóknarstofnunar um árlegt aflahámark geta gert. Í sem stystu máli gengur hugmynd þeirra út á að allar útgerðir fái árlega úthlutað 90-95% þeirrar aflahlutdeildar sem þeir höfðu árið áður. Ef við miðum við 95% þá er aðferðin þessi:
- Allir sem fengu úthlutað 100% aflaheimild á fyrra fiskveiðiári fá 95% af því sama úthlutað á nýju fiskveiðiári. Þetta endurtekur sig svo árlega, 95% úthlutun til allra útgerða af aflaheimild fyrra árs.
- Þau 5% af heildarafla sem eftir standa á hverju ári eru boðin til úthlutunar samkvæmt vandlega útfærðri útboðsleið.
- Þessu fyrirkomulagi verður ekki hnekkt af dómstólum vegna þess hversu hægt er farið í sakirnar.
- Ekki er ástæða til að óttast að of miklar aflaheimildir safnist á fáar hendur þar sem lög í landinu banna slíkt og þeim lögum þarf einfaldlega að framfylgja.
- Nýliðun í útgerð verður auðveldari með gegnsæju kerfi byggðu á jafnréttisgrundvelli.
- Með árlegu útboði á 5% heildaraflaheimilda má líkja því við afskrift hjá einstökum útgerðum sem er sambærileg öðrum afskriftum útgerðarinnar.
Hér skiptir mestu máli „vandlega útfærð útboðsleið“. Þannig má t.d. haga útboðum með þeim hætti að allir sem bjóða og fá kvóta greiði sama verð; lægsta verði sem tekið var. Smáútgerð sem bráðvantar kvóta og býður því hátt verð þarf því ekki að óttast að þurfa að greiða meira en aðrir. Þessi aðferð er alþekkt og þrautreynd í faglegum útboðum. Tilhögun útboðsins skiptir öllu máli og mikilvægt að hafa í huga að slíkt útboð á lítið skylt við önnur algeng útboð sem menn kunna að þekkja til og hafa jafnvel sjálfir tekið þátt í.
Þannig munu Færeyingar hafa úthlutað einhverjum aflaheimildum og kallað framkvæmdina „uppboð“ en eftir lýsingum að dæma var sú aðgerð öll í skötulíki og fráleitt að hægt sé að miða við hana sem raunhæfan valkost. Það er ekki nóg að gefa hlutunum nafn og segjast þá hafa framkvæmt það sem í nafninu ætti að vera fólgið. Framkvæmd útboða takmarkaðra almannagæða á borð við fiskveiðiauðlindar er sérstök fræðigrein og Nóbelsverðlaun voru veitt fræðimönnum á því sviði á síðasta ári.
Einstakar útgerðir
Fyrir einstakar útgerðir liti dæmið þannig út að ef þeir sætta sig við að halda 95% þess sem þeir öfluðu árið á undan þá bjóða þeir ekki í þau 5% sem boðin verða út árlega. Þannig verður þetta ár frá ári og ef útgerðir taka ekki þátt í árlegum útboðum á 5% heildarafla þá dragast aflaheimildir þeirrar útgerðar smátt og smátt saman. Útgerð sem kaupir í útboði 5% á hverju ári viðheldur óbreyttri 100% aflahlutdeild svo lengi sem hún kýs. Með þeirri tilhögun sem hér er kynnt kemur tímabinding aflaheimildarinnar af sjálfu sér.
Aðrar aðferðir
Sú leið sem kynnt er hér að framan er hlutfallsleg. Grundvöllur hennar er aflaheimild hverrar útgerðar frá fyrra ári. Forsagan skiptir engu máli, hvort hluta heimildanna var aflað fyrir fimm árum eða bara í fyrra. Þar með er allt utanumhald útgerðar og hins opinbera sára einfalt og framkvæmdin um leið.
Í umræðu hafa líka verið svokallaðar línulegar fyrningar. Það merkir að kvóti sem aflað er rýrnar um 5% af upphaflegri stærð sinni. Hver útgerð þarf þá að halda utan um 20 gerðir aflaheimilda eftir aldri þeirra. Þetta eykur skriffinnsku og ekki síst gerir allan eftirmarkað með aflaheimildir afar ruglingslegar. Til að skapa megi sátt um sjávarútveg er einfaldleiki, skiljanleiki og gegnsæi aðferðarinnar sem notuð er við úthlutun aflaheimilda sem skiptir mestu til að eyða tortryggni.
Nýliðun
Það fyrirkomulag sem hér er lýst gefur nýliðum færi á bjóða árlega í fiskveiðiheimildir og þeim þannig gert kleift að byggja sig upp frá ári til árs. Nýliðar geta treyst því að framhald verði á útboðunum og alltaf verði efnt til útboðs um sama hlutfall heildaraflamarksins t.d. 5% eins og hér hefur verið gert ráð fyrir.
Í dag eru nýliðar undirseldir því að geta aðeins keypt kvóta af útgerðarmönnum sem fyrir eru í greininni og sá kvóti er yfirleitt eingöngu til eins árs í senn, verðlagning á honum ógegnsæ og verð langt ofan við það sem þeir gætu vænst ef fram færi árlegt vandlega útfært opinbert útboð sem sýndi með gagnsæjum hætti verðmyndun aflamarksins.
Einfaldleiki – fyrirsjáanleiki
Þessi einfalda leið sem hér hefur verið stungið upp á auðveldar til muna álagningu veiðigjalda sem nú eru lögð á með aðferðum sem er aðeins á færi fáeinna innmúraðra og innvígðra sérfræðinga að skilja. Auk þess að vera flóknar og breytanlegar frá ári til árs þá byggir álagningin núna á upplýsingum frá liðnum tíma.
Einstakar útgerðir þekkja eigin rekstur betur en nokkur annar og vita því langbest hvað þeir geta leyft sér að bjóða í mikið magn og við hvaða verði í þau 5% heildarafla næsta fiskveiðiárs sem boðin verða út. 95% af úthlutun fyrra árs fá útgerðirnar sjálfkrafa í sinn hlut. Hvort sú fjárhæð sem innheimtist með þessum hætti verður meiri eða minni en það sem útgerðirnar greiða nú verður að koma í ljós. Að minnsta kosti er fyrirsjáanleiki útgerðanna meiri en nú er og úthlutun á sér stað með gegnsærri aðferð á jafnréttisgrundvelli.
Höfundur er hagfræðingur.