Af hverju leggur virkjanageirinn svona mikla áherslu á að fá Skrokkölduvirkjun inn í nýtingarflokk Rammaáætlunar? Það er af því þeir hafa fyrir löngu síðan leysa barnaskólagátuna: Hvernig borðar maður fíl? Einn bita í einu!
Skrokkalda er litla þúfan sem á að velta stóra hlassinu, fleiri virkjunum á miðhálendinu sem tengjast skulu inn á nýja raflínu yfir hálendið og uppbyggðum vegi til að þjóna virkjununum. Jarðgufuvirkjanir við Hágöngulón, vatansaflsvirkjun við Skrokköldu, Sprengisandslína og uppbyggður vegur yfir Sprengisand, eru óaðskiljanlegar framkvæmdir. Engin ein þeirra verður án hinna, þar er allt eða ekkert. Þessi fullyrðing er hvorki upphrópun né samsæriskenning, heldur niðurstaða af því að skoða Skrokkölduvirkjun í samhengi við aðrar virkjanir sem nú eru á Þjórsár-Tungnársvæðinu og þau áform til viðbótar sem kynnt hafa verið. Svona var þetta Virkjanasvæðið sem hér um ræðir nær frá suðausturhluta Hofsjökuls að vesturhluta Vatnajökuls, sunnan vatnaskila milla áa sem falla til norðurs og suðurs. Burðaráin á þessu svæði er Þjórsá, lengsta á landsins, sem á upptök í Bergvatnskvísl Þjórsár á Norðurlandi, en lang mest af vatni hennar kemur frá austan og sunnanverðum Hofsjökli. Um margumrædd Þjósárver falla kvíslar frá Hofsjökli á leið sinni út í Þjórsá. Í Þjórsá safnast síðan aðrar ár og vatn sem fellur til á þessu flæmi.
Fyrst er að telja Fjórðungskvísl, sem flytur jökulvatn frá Tungnafellsjökli og beint vestur í Þjórsá. Síðan eru Kvíslavötn, sem safna í sig úrkomu af stóru svæði og höfðu náttúrulegt afrennsli út í Þjórsá. Frá Vatnajökli kemur Kaldakvísl úr Vonarskarði, milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls, flytur vatn úr vestanverðum Vatnajökli og safnar í sig fleiri og styttri jökulám, svo sem Sveðju sem kemur úr krika við Hamarinn. Í Köldukvísl féll líka afrennsli Þórisvatns, til norðurs um Þórisós. Frá suðvestanverðum Vatnajökli kemur svo Tungná, sem segja má að renni á skilum megineldstöðvanna Bárðarbungu og Torfajökuls að Fjallabaki. Kaldakvísl fellur svo út í Tungná rétt áður en Tungná rennur út í Þjórsá.
Svona hefur þessu verið breytt. Fyrsta virkjunin á svæðinu og sú neðsta var Búrfellsvirkjun, sem tekin var í notkun árið 1969 og sú yngsta er Búðarhálsstöð, sem tekin var í notkun árið 2014. Aðrar virkjanir eru Sigöldustöð, Hrauneyjafossstöð, Sultartangastöð og Vatnsfellsstöð, sex stöðvar alls. Fyrir þessar virkjanir hefur verið ráðist í gríðarmikla vatnaflutninga á öllu þessu svæði. Kvíslaveitur ganga út á það að safna vatni frá nyrsta hluta Þjórsár, þar með talinni Fjórðungskvísl, og veita því út í Kvíslavötn, stífla afrennsli Kvíslavatna, sem var til Þjórsár, og veita þeim með skurðum og farvegum til austurs um Illugaver og út í Köldukvísl.
Þórisvatn var blátt fjallavatn með eigin silungsstofni. Engar ár falla í Þórisvatn en miklar lindir eru í Austurbotni, en svo nefnist “þumallinn” á Þórisvatni. Eina útfallið úr Þórisvatni var um Þórisós til norðurs út í Köldukvísl. Þórisvatni breytti Landsvirkjun í miðlunarlón (sjá: vatnasvið Vatnsfellsstöðvar, á vef Landsvirkjunar) fyrir virkjanir sínar.
Til þess var Þórisós stíflaður og grafið út úr vatninu til suðurs í staðinn og síðar var Vatnsfellsstöð gerð til að virkja það útfall. Vatni til söfnunar og miðlunar var síðan veitt inn í Þórisvatn með því að reisa stíflu norðan Þórisvatns, við Sauðafell, og hækka með henni farveg Köldukvíslar svo hægt væri að veita henni inn í Þórisvatn. Kvíslaveitur koma inn í Köldukvísl fyrir ofan Sauðafellslón og bætast því við það sem Kaldakvísl ber í Þórisvatn. Við þetta breyttist Þórisvatn úr blávatni í jökulvatn, nema rétt nyrsti hluti Austurbotns, og náttúrulegur silungsstofn vatnsins féll. Þórisvatn var næst stærsta stöðuvatn landsins, en nær að verða stærra en Þingvallavatn þegar það er fullt.
Ofar í Köldukvísl, við Hágöngur, reisti Landsvirkjun tvær litlar stíflur og tókst með þeim að búa til miðlunarlónið Hágöngulón. Það lón nær í sínum hæstu hæðum að skáka Mývatni að stærð. Undir Hágöngulóni var drekkt háhitasvæði og þeirri gróðurvin sem þreifst í nábýli þess á annars örfoka miðhálendinu.
Stífla var reist við Sigöldufoss í Tungná og búið þar til Krókslón, sem tekur einnig við vatninu úr Þórisvatni eftir Vatnsfellsstöð. Þaðan er veitt í Sigöldustöð og úr henni beint út í Hrauneyjalón sem gert var með annarri stíflu í Tungná, við Hrauneyjafoss, og þar reist Hrauneyjastöð. Nú rennur vatnið úr Hrauneyjastöð beint út í nýjasta lónið, Sporðöldulón, sem nær yfir ármót Tungnár og Köldukvíslar. Þaðan er vatninu veitt um jarðgöng undir Búðarháls og inn í Búðarhálsstöð, sem stendur á bakka Sultartangalóns í Þjósá. Þar með er vatninu sem fangað var í Kvíslaveitum skilað aftur inn í Þjósá, eftir langan útidúr.
Sultartangavirkjun er næst neðst í virkjanaröðinni. Fyrir hana var Þjórsá stífluð neðan ármótanna við Tungná og vatn leitt um göng niður í Sultartangastöð. Þaðan er því veitt í opnum skurði í átt að Búrfelli og hluti þess leiddur til Búrfellsstöðvar, um Bjarnarlón sem er inntakslón stöðvarinnar.
Eftir það fellur Þjórsá óáreitt til sjávar, ennþá.
Í LSD vímu á hálendinu
Sú virkjanakeðja sem að framan er lýst, byggir á grunnhugmyndum sem eru áratuga gamlar og hefur ekki verið lokið við ennþá. Lang Stærsti Draumurinn, LSD, gerir ráð fyrir miðlunarlóni sunnan Hofsjökuls og flutningi þess vatns frá Þjórsá í gegnum Kvíslaveitur til Þórisvatns og þaðan áfram niður virkjanakeðjuna, enda nær vatnið inn í Þjórsá aftur fyrir efstu virkjunina í ánni, sem er Sultartangavirkjun. Einnig voru í þessum LSD áformum miðlunarlón í Tungná, til móts við Snjóöldu og Veiðivötn og Bjallavirkjun til viðbótar á leið að Krókslóni, við Bjallavað þar sem Friðland að Fjallabaki byrjar. Öll þessi áform hafa verið lögð fyrir Rammaáætlun.
Viðamest í þessum áformum er söfnunarlónið sunnan Hofsjökuls, Norðlingaölduveita, sem teygir sig inn í Þjórsárver. Fyrstu áform um hana voru gríðarstórt lón, en með aukinni tækni í landmælingum minnkaði lónið töluvert. Lónið fékk fyrst grænt ljós 1981, en mætti síðar harðri andstöðu meirihluta sveitastjórnar Gnúpverjahrepps og fór í úrskurðarferli þar sem Jón Sigurðsson var settur ráðherra í verkið. Þarna munaði litlu að Norðlingaölduveitu yrði hrint í framkvæmd. Einörð afstaða oddvita og meirihluta Skeiða og Gnúpverjahrepps, ásamt aukinni virkni umhverfisverndarfólks eftir Kárahnjúkaframkvæmdirnar, stöðvuðu þau áform í bili.
Andstaðan við lón Norðlingaölduveitu réðst einkum af tvennu, vernd sérstæðrar náttúru í Þjórsárverum og ótta við sandfok af bökkum breytilegs yfirborð lónsins. Í þeim slag var líka tekist á um efsta hluta Kvíslaveitna, þar sem áform voru uppi um að koma fyrir seti sem dælt væri upp úr lónunum, þar sem í þeim yrði annars mikil aursöfnun sem rýrði gildi þeirra hratt. Vernd stórfenglegra fossa í Þjórsá hefur fengið aukið vægi eftir því sem fólk hefur kynnst fossunum. Síðasta útfærslan á Norðlingaölduveitu er mun minna lón, nánast inntakslón fyrir miðlun um göng yfir í Köldukvísl og áfram í Þórisvatn. Hin mikla áhersla sem Landsvirkjun leggur á Norðlingaölduveitu er til að fá aukið vatnsmagn í Þórisvatn, en ekki hefur tekist að fylla það undanfarin ár. Þórisvatn er stærsta og mikilvægasta lón Landsvirkjunar á öllu virkjanasvæðinu.
Mikið vill meira
Í LSD áformunum var gert ráð fyrir miðlunarlóni við Hágöngur, en ekki jarðhitavirkjunum þeim sem nú kallast Hágönguvirkjun I og II. Þegar háhitasvæðinu við Hágöngur var sökkt undir lón, fussaði Landsvirkjun yfir hugmyndum um að virkja háhitann þar, því þeir sérhæfðu sig í virkjun vatnsafls en ekki jarðhita. Afar óhægt þótti líka um vik að manna og starfrækja háhitavirkjun uppi á snjóþungu miðhálendinu. Svo fleygir tækninni fram og hnattræna hlýnunin boðar snjóléttari vetur. Landsvirkjun var því fljót að setja upp rannsóknarstöð sem kannar jarðhitann á svæðinu og fýsir nú að virkja hann.
Nú er ætlunin að skábora undir lónið til að komast í háhitann undir því. Til þess þarf að koma gríðar stórum bor inn á svæðið og núverandi vegir bera ekki þann flutning. Háhitavirkjun þarf jafna keyrslu öllum stundum og mönnun allt árið. Til þess þarf að byggja veg að virkjuninni sem best upp úr snjó, því hann þarf að vera fær allt árið. Síðast liðin tvö ár hefur Landsvirkjun unnið að vali á vegstæði, kostnaðarútreikningum á því og undirbúið að fara með veginn í umhverfismat. Hágönguvirkjun á að staðsetja á Sveðjuhrauni, austan við Hágöngulón. Vegurinn þangað þarf að vera uppbyggður, með skeringum og fyllingum, fara fyrst eftir nýja Sprengisandsveginum, en sveigja síðan til austurs, norðurfyrir Hágöngulón og suður með því austanverðu að virkjuninni í Sveðjuhrauni. Án þessa vegar er ekki einusinni hægt að koma fyrir bor fyrir tilraunaholu, hvað þá meira.
Girnilegasti bitinn
Vandi Landsvirkjunar liggur ekki í því hvernig eigi að brytja fílinn, heldur á hvern hátt eigi að reiða fram bitana til að dekstra þeim ofan í krakkaormana, umhverfisverndarfólk og stjórnmálamenn.
Fyrsti bitinn er að koma svæðinu í nýtingarflokk Rammaáætlunar. Án þess getur ekkert frekar gerst. Hamrað er á að nýtingarflokkur sé ekki framkvæmdaleyfi, því áður en til þess komi þurfi að fara fram umhverfismat og frekari rannsóknir á svæðinu. Þess vegna er sagt ástæðulaust fyrir stjórnarandstöðuna að ganga af göflunum út af Rammaáætlun. Annar bitinn er að fá rannsóknarleyfi. Fyrir þeim framkvæmdum sem ráðast þarf í til að framkvæma rannsóknirnar þarf auðvitað umhverfismat, en það tekur til veigaminni þátta en umhverfismatið fyrir virkjunina sjálfa. Ennþá verður sagt ekkert til að æsa sig yfir, þetta er jú ekkert framkvæmdaleyfi.
Þegar kemur að því að biðja um framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni, þarf ekki að setja veginn í umhverfismat af því hann verður þegar kominn og mat á röskun svæðisins verður aðeins mat á þeirri röskun sem bætist við frá rannsóknarferlinu. Slík viðbót verður varla tilefni til æsinga heldur.
Vandamál Landsvirkjunar er að fólk er farið að sjá heildarbitana í pottinum og vill ekki láta plata þeim uppí sig einum í einu. Því er ráðist í að framreiða annan pottrétt. Litli bitinn Skrokkalda er aukaafurð í Miðhálendisáformunum. Hún byggir á því að virkja fallið frá Hágöngulóni að Þórisvatni. Búið er að búa fallegar um mannvirkið en fyrst var kynnt, virkjunin er felld inn í Skrokköldu og að henni liggja pen göng og frárennsli út í Kvíslavatn, sem skilar vatninu tímanlega aftur inn í Köldukvísl fyrir Þórisvatn. Svo skemmir hún ekki Eyrarósargilið, að sögn. Það þarf greinilega öfgaumhverfisverndarsinna til að finnast þetta ekki krúttlegt. Þetta er girnilegur fyrsti biti.
Lítið gagn er að virkjun, nema hægt sé að koma orkunni frá henni. Til þess þarf sumsé raflínu. Hún kemur frá Landsneti og er sér framkvæmd sem alls ekki á að blanda saman við umhverfismatið fyrir Skrokkölduvirkjun. Að virkjuninni þarf bættan veg og það er Vegagerðarinnar að fá umhverfismat fyrir hann, sem ekki má heldur blanda saman við fjarskildar framkvæmdir.
Þessi krúttlega Skrokkölduvirkjun verður aðeins 35 MW að afli, með orkugetu upp á 260 GWh/ár. Hvernig getur það svarað kostnaði að ráðast í þessar fokdýru framkvæmdir með vegi og raflínum langar leiðir upp á erfitt hálendið fyrir svo litla orku? Ekki!
Aleinasta ástæðan fyrir því að ráðasta í Skrokkölduvirkjun er að hún passar inn í heildarmyndina með Hágönguvirkjunum, Sprengisandslínu og nýjum Sprengisandsvegi. Virkjanirnar verða ekki mögulegar án uppbyggðs vegar og þær verða ekki hagkvæmar nema þær fái Sprengisandslínu. Þær bæta líka hagkvæmni Sprengisandslínu og eru eina réttlætingin fyrir því að ráðast í fokdýran Sprengisandsveg. Allir þessir þættir þurfa hver á öðrum að halda, enginn þeirra stendur einn án hinna.
Skrokkölduvirkjun er þannig litla þúfan sem á að velta þessu þunga hlassi af stað.