Hernaður og allt sem tengist hernaðarumsvifum hefur gríðarlega mikla mengun og náttúruspjöll í för með sér um allan heim. Veru erlends herliðs á Íslandi fylgdi og fylgir nákvæmlega sami ófögnuður. Það á ekki einungis við um óhóflega eldsneytisnotkun með tilheyrandi útblæstri, heldur trufla hernaðartæki dýralíf og skilja eftir sig gríðarlegt magn hvers kyns eiturefna.
Ein af ánægjulegustu ákvörðunum síðasta þings var jafnframt ein af þeim sem hvað minnsta athygli vakti. Alþingi samþykkti þar einum rómi að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að gera rannsókn og tímasetta hreinsunaráætlun á Heiðarfjalli á Langanesi. Svæðið er alræmt fyrir mengun frá þeim tíma þegar Bandaríkjaher rak þar ratsjárstöð frá 1957 til 1970.
Saga þessa máls er orðin áratugagömul. Fljótlega eftir að herstöðvarrekstri Bandaríkjamanna lauk á fjallinu tóku eigendur landsins að krefjast úrbóta, enda viðskilnaðurinn skelfilegur og fljótlega ljóst að mikið magn spilliefna hafði borist út í náttúruna. Íslensk stjórnvöld höfðu á sínum tíma samið við hermálayfirvöld um að engar bætur skyldu koma fyrir náttúruspjöllin og engar kröfur gerðar um hreinsun.
Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði höfum alltaf látið okkur þessi mál varða. Ögmundur Jónasson hafði á sínum tíma frumkvæði að því að taka málið upp sem formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og vann mikilvæga undirbúningsvinnu. Síðar tók annar þingmaður Vinstri grænna, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þráðinn upp að nýju og lauk þeirri vinnu sem fyrr segir með þessari gleðilegu samþykkt þingsins.
Á dögunum upplýsti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra svo að ráðist verði í rannsóknir á svæðinu eftir ábendingar Umhverfisstofnunar. Rannsóknin beinist að hættulegum spilliefnum á borð við PCB, kvikasilfur, blý og úran. Öll þessi efni munu finnast á svæðinu og kunna að ógna grunnvatni. Líklegt má sömuleiðis telja að álíka mengun megi finna annars staðar þar sem Bandaríkjaher var með slík umsvif um miðja síðustu öld.
Það var löngu tímabært að hefjast handa við að þrífa upp þennan eitraða arf hersetunnar og vonandi að unnt verði að lagfæra verstu umhverfisspjöllin.
Höfundur er þingmaður og skipar annað sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi norður.