Sýndarmennska eða alvara í loftslagsmálum?

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar um loftslagsstefnu Samfylkingarinnar í aðsendri grein. Hann segir stefnuna vera bæði skýra og róttæka en flokkurinn vill að stefnt verði að 60 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.

Auglýsing

Samfylkingin hefur verið leiðandi í umræðu um loftslagsmál og aðhaldi gagnvart ríkisstjórninni í málaflokknum á kjörtímabilinu. Í fyrra lögðum við fram þingsályktunartillögu um græna atvinnubyltingu þar sem kallað er eftir róttækum loftslagsaðgerðum með sérstakri áherslu á metnaðarfyllri loftslagsmarkmið, bætta landnýtingu, stofnun græns fjárfestingarsjóðs og stóreflingu almenningssamgangna.

Nokkrum mánuðum síðar samþykkti landsfundur Samfylkingarinnar grunnstefnu þar sem loftslagsmál og græn atvinnustefna eru rauður þráður. Þetta er atvinnuskapandi stefna, úrban og alþjóðleg. Í loftslagskaflanum boðum við m.a. uppstokkun í landbúnaðarkerfinu, hraðari orkuskipti með fjölgun rafhleðslustöðva og banni við nýskráningu bensínbíla frá og með árinu 2025, byltingu í almenningssamgöngum með flýtingu Borgarlínu og uppbyggingu heildstæðs samgöngukerfis til að gera það að raunhæfum kosti að ferðast um Ísland án bíls, bann við olíuleit, stuðning við kolefnisförgunartækni og þróun lífrænna orkugjafa og svona mætti lengi telja.

Þetta eru þær alvöru aðgerðir í loftslagsmálum sem Samfylkingin hefur kallað eftir. Við notum orðið alvöru af því við höfnum sýndarmennsku og upplýsingaóreiðu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Við erum ósammála umhverfisráðherra Vinstri grænna um að það sé ásættanlegt markmið fyrir Ísland að ná aðeins fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Við teljum að lykillinn að því að ná fram 60% samdrætti séu róttækar kerfisbreytingar en ekki málamiðlanir við flokka sem leggja ekkert til málanna í loftslagsmálum.

Auglýsing

Samtökin Ungir umhverfissinnar eiga hrós skilið fyrir það frábæra starf sem þau hafa unnið undanfarin ár og þeirra þátt í vitundarvakningunni um hamfarahlýnun á Íslandi. Framtakið Sólin (þar sem umhverfis- og loftslagsstefnum flokka eru gefin stig eftir því hvort minnst sé á tiltekin atriði í stefnunum, atriði sem stjórnmálaflokkarnir fá lista yfir fyrir fram og geta þannig aðlagað stefnur sínar að) er lofsvert, góð hvatning og hefur tvímælalaust valdið því að fleiri stjórnmálaöfl ganga nú til kosninga með þokkalega stefnu í loftslags- og náttúruverndarmálum heldur en nokkru sinni fyrr.

Kvarðinn er gagnlegur, sérstaklega fyrir flokka sem áttu eftir að halda landsfundi þegar Ungir umhverfissinnar sendu út leiðbeinandi gögn, en hann getur auðvitað aldrei fangað með fullnægjandi hætti raunverulegan metnað stjórnmálaflokka í loftslagsmálum. Til þess þyrfti líka að horfa til þingmála sem lögð hafa verið fram, breytingartillagna við frumvörp, áherslna flokkanna á sveitarstjórnarstigi (dæmi: Samfylkingin stendur fyrir einhverjum stærstu loftslagsaðgerðum á Íslandi með þéttingarstefnunni í borginni, Græna planinu og Borgarlínu) og auðvitað þess hvort flokkar meini það sem þeir segja eða felli tillögur á Alþingi um aukinn metnað og róttækar aðgerðir í loftslagsmálum og feli gráum flokkum neitunarvald í málaflokknum.

Ég hvet allt áhugafólk um loftslagsmál til að kynna sér vel loftslagsáherslur Samfylkingarinnar og bera saman við áherslur annarra flokka, til að mynda 50 aðgerða loftslagsvef flokksins (sem ekki var farinn í loftið þegar Ungir umhverfissinnar lögðu mat á stefnu flokkanna). Ég er sannfærður um að þetta sé einhver skýrasta og róttækasta loftslagsstefna sem nokkur flokkur hefur sett fram í aðdraganda þessara kosninga og að sterk Samfylking sé lykillinn að því að mynduð verði græn og stórhuga ríkisstjórn í haust.

Höfundur skipar 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar