Sjö ára gömul stúlka í London eyddi klukkutíma í að föndra gatvörpu heima hjá sér daginn fyrir sólmyrkvann í síðustu viku. Þegar hún kom í skólann komst hún að því að skólastjórinn hafði ákveðið að öll börnin myndu horfa á viðburðinn í beinni netútsendingu. Enginn mætti fara út. Þegar hún kom heim og sagði föður sínum frá þessu þótti honum þetta undarlegt og þegar farið var fram á skýringar sagði skólastjórinn að ástæðurnar væru „trúar- og menningarlegar“. Hann hefði orðið þess áskynja í aðdraganda myrkvans að einhverjir nemendur við skólann hefðu þannig menningarlegan bakgrunn að þeim stæði ógn af því að horfa á sólmyrkva. Þar sem skólinn væri fjölmenningarlegur og legði sig fram um að mæta fólki hefði verið tekin ákvörðun um að börnin horfðu á myrkvann gegnum tölvu, það væri enda næstum það sama. Svo hefði líka verið skýjað – svo þetta hefði verið betra svona.
Nokkur umræða varð um málið í Bretlandi eins og við er að búast. Flestum þykir að hér hafi skólastjórinn farið hressilega yfir strikið. Ofurviðkvæmni sem þessi sé skaðleg, jafnvel þótt hún spretti í grundvallaratriðum af góðum hug. Það að meina börnum að horfa á náttúrufyrirbæri, hugsanlega það eina af þessu tagi sem þau koma til með að upplifa sem börn, geti ekki verið réttlæt með því að til séu menningarkimar sem enn standi ógn af náttúrunni.
Víkur þá sögunni til Reykjavíkur.
Vildu vekja skólakerfið til meðvitundar
Fyrir alllöngu sagði Sævar Helgi Bragason mér frá því að hann og félagar hans í Stjörnuskoðunarfélaginu vildu nýta komandi sólmyrkva til að vekja skólakerfið til meðvitundar um undur náttúrunnar. Til þess að það tækist þyrfti helst að kaupa og flytja inn sólmyrkvagleraugu svo að þau börn, sem möguleika ættu á, gætu séð myrkvann með eigin augum. Að auki var farið að leita leiða til að sjóndöpur börn eða blind gætu upplifað það sem væri að gerast.Næst þegar ég heyrði í Sævari var hann satt að segja í nokkru uppnámi. Hann og félagar hans höfðu afráðið að þeir yrðu að bera alla áhættuna af framtakinu.Ég heyrði aftur í Sævari nokkru seinna. Málið ætlaði að reynast erfitt. Hann hafði gengið milli fólks og stofnana til að fá styrki en enginn vildi styrkja. Aðeins einn ferðaþjónustuaðili hafði lagt til peninga en það kom kannski helst til af því að hann hafði um langa hríð haft mikinn metnað til að nýta stjörnuhimininn í ferðamennskunni og var þess vegna í góðu sambandi við Stjörnuskoðunarfélagið og Sævar til að byrja með. Næst þegar ég heyrði í Sævari var hann satt að segja í nokkru uppnámi. Hann og félagar hans höfðu afráðið að þeir yrðu að bera alla áhættuna af framtakinu. Þeir þyrftu hreinlega að panta gleraugun á eigin reikning og gæta þess að nóg yrði umfram til að hægt væri að selja almenningi gleraugu til að fjármagna gjöfina. Það þýddi að síðustu helgarnar fyrir myrkvann fóru í að vinna launalaust við að selja gleraugu á fjölförnum stöðum á meðan virku dagarnir færu í að koma gjöfunum til skólanna. Það sem hryggði Sævar var að þótt langflestir tækju sölunni afar vel og styddu jafnvel rausnarlega við framtakið þá var nokkur hópur sem sýndi undarleg viðhorf, reyndi að prútta niður verðið, spurði hvort ekki væri einhvernveginn hægt að horfa ódýrara eða ókeypis á myrkvann eða fann að því að verið væri að standa í því að gefa börnunum gleraugun. „Þetta mun aldrei virka.“ sagði ein kona sem kynnti sig sem kennara. „Meirihluti krakkanna hefur engan áhuga á svona löguðu.“
Svo fór boltinn að rúlla
Ég fann síðan hvernig verkefninu óx ásmegin. Fjölmiðlar sköpuðu stemmningu og þótt veðurspár væru tvísýnar myndaðist mikill hiti fyrir sólmyrkvanum. Nú byrjaði fjörið hjá Stjörnufélögum fyrir alvöru. Skyndilega vildu allir gleraugu. Ferðaþjónustan vaknaði og leikskólunum fannst nú ekki nóg að fá nokkur gleraugu svo hægt væri að láta börnin skiptast á. Eftir því sem spennan varð meiri varð ofsinn líka meiri. Fólk fór að hringja í Sævar með heimtufrekju. Einhverjir reyndu að kaupa gleraugun af skólum. Og eins og Sævar hefur sjálfur sagt frá gengu lætin nærri honum. Hann var auðvitað orðinn örþreyttur eftir margra vikna látlausa vinnutörn. Að þurfa að láta yfir sig ganga leiðindi og heimtufrekju; þurfa að hlusta á ásakanir og heift, var bara einum of mikið. Nema hvað. Sólmyrkvinn kom og fór. Meirhluti landsmanna upplifði hann við bestu skilyrði. Grunnskólar tæmdust og börnin stóðu í hnapp úti á skólalóðum og horfðu til himins. Fyrir mörgum var myrkvinn eflaust tilkomuminni en þeir höfðu búist við, sérstaklega eftir hæpið vikuna á undan. En hann var raunverulegur. Raunveruleg upplifun af sjaldgæfu náttúrulegu fyrirbæri. Og sólmyrkvagleraugun voru til áminningar um það. Að standa á kúlu í óravíddum geimsins og sjá tunglið rúlla í veg fyrir sólina er stórkostlegur viðburður, hvort sem maður áttar sig á því strax eða ekki.Hér er gott að hafa í huga að þótt sólmyrkvinn hafi verið á dagatalinu árum og áratugum saman hafði Reykjavíkurborg ekki uppi neinar fyrirætlanir um að nýta hann í kennslu.Fæst börn hafa nokkru sinni séð hnattlögun sólar þar sem hún skín í öllu sínu veldi. Til þess er hún of sterk. Barn sem á sólmyrkvagleraugu getur horft til sólar hvenær sem hún sést og séð hana. Bara það eitt að sjá hversu stór hún er í raun og veru er upplifun sem illmögulegt er að koma til skila í gegnum netútsendingu.
Talið berst að Reykjavíkurborg
Í hvert skipti sem ég heyrði í Sævari barst talið fyr eða seinna að Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Þótt Sævar hefði frá upphafi verið viss um að á endanum tækist að gefa reykvískum börnum gleraugu virtist það vera stórmál. Einfaldlega vegna þess að allt benti til þess að í Reykjavík væri sterk tilhneiging til að meina börnum að horfa á sólmyrkvann af „trúar- og menningarlegum“ ástæðum. Til að tryggja ítrasta hlutleysi í öllum sköpuðum málum hefur borgin sett sér og öllum starfsstöðum sínum reglur um að ekki megi gefa börnum gjafir eða láta þau upplifa neitt sem getur virkað umdeilanlegt á einhvern hátt. Þá þarf að gæta þess í hvívetna að börn megi ekki verða neytendur og auglýsingar eða merkjavörur eru stranglega bannaðar. Hér er gott að hafa í huga að þótt sólmyrkvinn hafi verið á dagatalinu árum og áratugum saman hafði Reykjavíkurborg ekki uppi neinar fyrirætlanir um að nýta hann í kennslu. Skólarnir höfðu hvorki fengið fyrirmæli né fjárheimildir til að kaupa sólmyrkvagleraugu. Þeir hefðu því verið fullkomlega vanbúnir hinu góða skyggni sem svo varð. Þá hefðu skólarnir haft tvo kosti: Að senda börnin út á eigin ábyrgð með stöku rafsuðugler, þrívíddargleraugu eða heimagerðar gatvörpur þar sem einhverjir hefðu nær örugglega freistast til að skemma í sér augun – eða að banna börnunum að fara út meðan sólmyrkvinn gekk yfir og láta þau horfa á hann gegnum tölvu. Að endingu var Sævar neyddur til að þykjast gefa Reykjavíkurborg gleraugun. Öðruvísi væri ekki hægt að taka við þeim. Það er áhugavert að hugsa til þess hvað hefði gerst ef ekki hefði verið hlaupið að duttlungum borgarkerfisins og skólunum þar hefði einfaldlega verið sleppt. Ég held að stöku stjórnmála- og embættismaður megi prísa sig sæla að svo fór ekki. Glampandi sól og öll börn í landshlutanum úti að horfa á sólina nema þau reykvísku sem fylgdust með í gegnum Snapptjatt. Ég er hræddur um að það hefði hitnað undir einhverjum. Þar sem fréttamenn töluðu við Sævar eftir sólmyrkvann hafði hann ekki lengur neinu að tapa. Hann skoraði því á skólastjóra í Reykjavík til að gefa börnunum gleraugun. Gjöfin hefði verið til þeirra en ekki skólanna. Börnin ættu að eiga þau til minningar um atburðinn og til áminningar um vísindin.Skilningslaus og hrokafullur varaformaður
Varaformaður Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar brást ókvæða við. Sagði að Stjörnuskoðunarfélagið hefði fallist á að borgin mætti eiga gleraugun og því kæmi „þras“ um að börnin ættu að fá gleraugun sér á óvart. Börnin myndu hvorteðer ekki fara vel með gleraugun og þótt næsti sólmyrkvi yrði ekki á skólatíma væri mörg rök fyrir því að skólarnir væru betur til þess fallnir að eiga þessi gleraugu en þau. Stjörnuskoðunarfélagið hlyti að sjá það. Annars væri auðvitað best ef gleraugum væri safnað frá hverju einasta barni og þau send til Súmötru þar sem næsti sólmyrkvi verður. Ég hugsa að ég sleppi því að ræða það sérstaklega hversu innilega skilningslaust og hrokafullt þetta svar er. Í stað þess að viðurkenna skömm hjá sér er hnýtt í þá sem gagnrýna hið fáránlega eignarnám fræðsluyfirvalda í Reykjavík á gjöfum til barnanna. Svo er það botnað með einhverju rugli um það að senda eigi gleraugun til þeirra tugmilljóna sem búa í Súmötru eins og hverja aðra þróunaraðstoð. Skólafólki í Reykjavík gæti verið hollt að muna að eina ástæða þess að börnin fengu þessi gleraugu til að byrja með er að þau eru skólaþróunaraðstoð frá fólki úti í bæ sem hefur ástríðu fyrir þekkingu og vísindum. Og miðað við eitt og annað sem gekk á meðan verið var að semja um það með hvaða hætti hægt væri að smygla gleraugunum inn í reykvíska skóla þá kæmi mér á óvart ef borgin þykist nú aflögufær um svo mikið sem frímerki til að koma gleraugunum til Súmötru. Enda stingur varaformaðurinn upp á því að Stjörnuskoðunarfélagið beri kostnaðinn af því – eins og raunar öllu tiltækinu hingað til. Nóg um það. Ef fólk kann ekki að skammast sín þá lagast það sjaldan við skammir frá öðrum. Nær væri að nefna að fyrir utan hið augljósa, að þessar fráleitu reglur þarf að setja á höggstokkinn strax í dag, þá er ástandið í grunnskólum Reykjavíkur orðið pínlega vandræðalegt þegar kemur að öllum þessum misráðna graut tillitssemi og ofverndunar. Sjálft Skóla- og frístundasviðið undanþegur sjálft sig öllum reglum um hverju halda megi að börnum. Dómgreind miðstýringarvaldsins er ekki dregin í efa – aðeins dómgreindir allra annarra. Þannig gengst borgin sjálf fyrir því að vekja athygli á tilteknum bókum á hverri vertíð. Skiptir þar engu þótt bækur séu söluvara og börnin neytendurnir. Og það eru ekki sérlega margar vikur síðan börnum í reykvískum skólum var safnað saman til að hlusta á Friðrik Dór syngja lagið sem hann vildi að þau fjármögnuðu til Austurríkis.Skólayfirvöld í Reykjavík ættu að fletta upp skólastjóranum í London og sjá af hversu mikilli einlægni hann ver þá ákvörðun sína að meina börnum að horfa á sólmyrkvann af tillitssemi við ólíkar þarfir fjölmenningarsamfélagsins. Af þeirri athugun getur bara sprottið tvennt: Annað hvort hin augljósa uppgötvun, að stundum leiðir jafnvel hinn besti vilji af sér tóma þvælu, eða hitt, að okkar fólki finnist skólastjórinn breski fara fram af töluverðu viti. Ef það er raunin er líklega kominn tími fyrir skólayfirvöldin hér, eins og þar, að finna sér eitthvað annað að gera.
Höfundur er kennari.