Það er ekki hægt að segja annað en Bandaríkin, vinaþjóð Íslands til áratuga, sé nú með kastljósið á sér vegna rannsóknar nefndar bandaríska þingsins á starfsaðferðum CIA í hinu svokallaða stríði stjórnvalda í Bandaríkjunum gegn hryðjuverkum, sem hófst með margvíslegum aðgerðum hersins og CIA eftir árásirnar hrikalegu á tvíburaturnana í New York 11. september 2001.
George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er enn að svara fyrir ýmislegt sem gerðist í hans tíð sem forseti.
Niðurstöður rannsóknarnefndar bandaríska þingsins er sú að CIA hafi misbeitt valdi sínu og blekkt almenning, Hvíta húsið, bandaríska þingið og síðan allt alþjóðasamfélagið, með kerfisbundnum mannréttindabrotum sem fólust meðal annars í pyntingum á fólki og nauðungaflutningi, án dóms og laga. Rökræðan um hvort þetta hafi átt rétt á sér er lifandi þessa dagana, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Niðurstaða nefndarinnar er að ávinningurinn af pyntingunum hafi lítill sem enginn verið, en æðstu ráðamenn Bandaríkjanna á þessum tíma, George W. Bush forseti og Dick Cheney, varaforseti, hafa varið pyntingarnar í fjölmiðlum undanfarna daga. Ríkisstjórn Bush fór frá í janúar 2009, og skildi því við Hvíta húsið þegar efnahagur Bandaríkjanna - og raunar heimsins alls - var í verstu kreppu frá kreppunni miklu í kringum 1930, en upphaf hennar mátti rekja til vandamála stórra bandarískra fjármálafyrirtækja. Síðasta verk ríkisstjórnar Bush var að dæla með fordæmalausum hætti, 700 milljörðum Bandaríkjadala af skattfé almennings inn á fjármálamarkaði í samstarfi við Seðlabanka Bandaríkjanna, til að koma í veg fyrir fall banka og tilheyrandi margfeldisáhrif, þvert á bjargfasta hugmyndafræði Bush og félaga í Repúblikanaflokknum. Þessar upplýsingar um pyntingarnar bætast því á heldur vafasaman afrekalista Bush-stjórnarinnar, þegar umdeild stefnumál eru annars vegar.
Það sem ég er að velta fyrir mér, sem blaðamaður, snýr meðal annars að sjö ára gömlu fréttamáli sem ég vann lengi að og birti umfjöllun um 8. desember 2007 í Fréttablaðinu, fyrir rúmum sjö árum. Þar voru meðal annars birtar upplýsingar um lendingar flugvéla á vegum CIA innan íslenskrar lofthelgi, og síðan áfram annað. Upplýsingarnar voru teknar saman í tíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra, sem skipaði nefnd sem átti að reyna að komast að því hvort fangaflugvélar CIA hafi lent hér. Nefndin komst ekki að neinu um þessi mál, annað en að hún fékk gögn um lendingarnar. Starfsmenn flugvallarins í Keflavík staðfestu við mig að hefðbundið eftirlit með flugvélum sem lentu á Keflavíkurflugvelli hefði ekkert verið þegar kom að flugvélum CIA.
Samkvæmt þessum frumgögnum um flugleiðir flugvélanna á vegum CIA, þá flugu vélarnar meðal annars um íslenska flugvelli, einkum flugvöllinn í Keflavík. Meðal annars voru flugin til og frá Texas í Bandaríkjunum, Washington DC og Búkarest í Rúmeníu, þar sem voru starfrækt leynileg fangelsi í næsta nágrenni, eins og upplýst hefur verið skýrslum Evrópuþingsins og nú bandaríska þingsins. Þar fóru fram pyntingar á fólki, án dóms og laga, svívirðileg mannréttindabrot.
Stjórnvöld hljóta nú að spyrja sig að því, í ljósi þess að það hefur aldrei verið upplýst um það með fullvissu gagnvart íslenskum almenningi, hvort íslensk lofthelgi og Ísland hafi verið notað til þátttöku í kerfisbundnum mannréttindabrotum CIA. Það er alvarlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef það var raunin, og ætti að vera kappsmál að upplýsa um hvort svo hafi verið, til að sýna alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum virðingu.
Bandaríski herinn kvaddi formlega með athöfn, 30. september 2006, þremur vikum eftir að síðasta skráða flug CIA milli Búkarest í Rúmeníu og Washington DC, millilenti á Keflavíkurflugvelli.