Á undanförnum árum hef ég setið nokkrar aðalmeðferðir í hrunmálunum svokölluðu. Þau eru orðin nokkur og eru ólík að eðli. Langt er í að sjái fyrir endann á þeim. Í sumum hafa hinir ákærðu verið fundnir sekir og í öðrum hafa þeir verið sýknaðir, eins og gengur.
Sömu spurningarnar
Í mörgum þessara mála hafa leitað á mig sömu spurningarnar, sem ég kann ekki svar við, sem snúa að skráðum markaði og kauphallarviðskiptum. Þær eru meðal annars þessar; Hver er lágmarksstærðs skráðs markaðar með verðbréf, samkvæmt akademískum kenningum sem hugmyndin byggir á (þær hljóta að vera grunnurinn)? Eru til leiðarvísar í hagfræði um hver sé lágmarksdýptin á markaði svo að verðmyndunin á honum sé eðlileg, og styrki ávöxtunarmarkað fyrir fjármagn til langs tíma? Er einhver botn?
„Eru til leiðarvísar í hagfræði um hver sé lágmarksdýptin á markaði svo að verðmyndunin á markaðnum sé eðlileg, og styrki ávöxtunarmarkað fyrir fjármagn til langs tíma?“
Nú kann það að vera að einhverjum finnist þetta vera einkennilegar og kannski vitlausar spurningar. Ég er þó ekki viss. Ég hef talað við fólk í bankakerfinu sem spyr sig þessara spurninga, og veltir því upp hvort það geti verið að hugmyndin um skipulagðan verðbréfamarkað í gegnum kauphöll á svæði sem er með ríflega 240 þúsund manns á sjálfræðisaldri, og örfáa virka fjárfesta, sé í grunninn hugmynd sem gangi ekki upp til lengdar. Markaðurinn verði alltaf of grunnur, og hjálpi hagkerfum þar af leiðandi ekki eins mikið – eða í versta falli alls ekki – eins og hann gerir á svæðum þar sem umfangið er meira.
Er dýptin nægileg?
Það má reglulega sjá skarpar lækkanir og hækkanir á markaðsvirði stórra félaga í kauphöllinni, oft um mörg prósentustig, í pínulitlum viðskiptum. Vægi hverra viðskipta á svona litlum og grunnum markaði er mikið, meira en á öðrum mörkuðum sem búa að raunverulegri alþjóðavæðingu, tengingu milli landa, og síðast en ekki síst miklu fleiri fjárfestum en eru á markaðnum hér á landi.
Það er með vilja gert, að sá sem þetta skrifar sé fyrst og síðast að spyrja spurninga, án þess að svara þeim. Vonandi verður einhver tilbúinn/tilbúin að taka við keflinu og velta þessu fyrir sér enn frekar, og svara spurningunum því ég er klárlega sá sem spyr og ekki veit í þessu tilviki. En í ljósi þess að ég er alls ekki eini maðurinn sem veltir þessu fyrir sér, það er hvort það geti verið að íslenski markaðurinn sé einfaldlega of lítill, þá vonandi getur farið fram umræða um þetta atriði.