Í umfjöllun ríkisstjórnarliða undanfarið telja þau sig standa vel að menningarmálum. Lilja Alfreðsdóttir nefndi t.d. aukna fjárveitingu til höfuðsafnanna þriggja í ráðherratíð sinni. En hver er staðan hjá íslenskri þjóðmenningu, sérstaklega fornleifum?
Mikið líf hefur verið í fornleifarannsóknum á síðustu áratugum. Má þar tína til tvö þekkt dæmi: rannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit og Skriðuklaustri á Austurlandi. Við vitum meira um trúarlíf og samfélag til forna þökk sé þessum rannsóknum. Þær hafa einnig laðað að ferðafólk og veitt mikilvægt fjármagn til brothættari byggða. Fjármagn í fornleifarannsóknir er því í senn fjármagn til byggðamála og vísindastarfa. Undanfarin ár hafa horfur hins vegar orðið dekkri. Ástæðan? Slæm staða Fornminjasjóðs – eins helsta samkeppnissjóðs á sviði fornleifarannsókna á Íslandi.
Fjárveitinga til sjóðsins hafa nær staðið í stað undanfarin ár. Á seinasta ári fékk sjóðurinn aðeins 44 milljónir (auk tímabundinnar aukafjárveitingu upp á 30 milljónir: samtals um 70 milljónir). Sambærilegur sjóður er til dæmis Safnasjóður sem er um 200 milljónir. Fornleifarannsóknir eru þó gjarnan flóknar og tímafrekar. Margir sérfræðingar koma að verkefnum og ferða- og gistikostnaður getur orðið mikill, einnig kostnaður við ýmis tæki. Því er algengt að slíkar rannsóknar útheimti töluvert fé.
Ef fram heldur sem horfir mun fjárskortur í sjóðnum hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fornleifafræði hérlendis. Hætta er á fólk hverfi til annara starfa eða eigi erfitt með að halda fullu starfi - þurfi jafnvel að gefa vinnu sína í auknum mæli. Af því myndi leiða þekkingartap innan fagsins. Uppbyggingu sem átt hefur sér stað í faginu væri stefnt í voða og þar með fornleifafræði á landinu öllu. Fornleifarannsóknir eru mikilvægar því þær eru jafnan grunnur alls safnastarfs á landinu: Hvar væri Þjóðminjasafn Íslands t.d. án fornleifarannsókna?
Staða fornleifarannsókna á Íslandi er því ekki góð. Við vinnslu fjárlagafrumvarps, sem nú stendur yfir, væri ánægjulegt að sjá að sá metnaður sem ríkisliðar tala um að þau sýni gagnvart íslenskri menningu næði einnig ná til þjóðminja og fornleifarannsókna. Án fornleifafræðinga og sérfræðiþekkingar þeirra er íslensk menning illa stödd.
Höfundur er formaður Félags fornleifafræðinga.