Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, afhenti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra skýrslu um endurbætur á peningakerfinu í gærmorgun. Skýrslan var unnin að beiðni forsætisráðherra sem skipaði sérstakan starfshóp til verksins fyrir ári síðan, í mars 2014.
Þegar Sigmundur Davíð skipaði hópinn var Frosti gerður að formanni hans. Auk þess voru þau Þorbjörn Atli Sveinsson, þá sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Straumi, og Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og þá blaðamaður á Viðskiptablaðinu, skipuð í hópinn. Þorbjörn Atli hætti fljótlega og Davíð Stefánsson hagfræðingur tók við hans starfi.
Nýtt og betra peningakerfi, þar sem bankar búa ekki til ofgnótt rafrænna peninga, er mikið hugsjónarmál hjá Frosta og hann hefur eytt miklum tíma og orku í að koma þeim hugmyndum á framfæri af ástríðu, meðal annars í aðdraganda síðustu kosninga. Erlendis hefur hann fundið marga erlenda fagmenn sem eru á svipuðum hugmyndafræðilegum slóðum, meðal annars Adair Turner, fyrrum stjórnarformanns breska fjármálaeftirlitsins sem skrifaði inngang að skýrslunni, og Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times. Verkefninu sem lauk sem skýrsluskilunum í gær, og sá starfshópur sem skipaður var utan um það, var því ekki síst skipaður vegna áhuga og þrýstings Frosta á því að fjalla gaumgæfilega um málið. Í raun má segja að starfshópurinn hafi orðið til utan um Frosta.
Það vakti því athygli að íslensku hagfræðingarnir sem voru skipaðir voru í starfshópinn neituðu að láta kenna skýrsluna við sig. Í Bakherberginu hefur heyrst að það sé vegna þess að hagfræðingarnir Kristrún og Davíð séu ekki sammála þeim pólitísku ályktunum sem dregnar séu í skýrslunni. Kristrún sendi frá sér yfirlýsingu í dag sem staðfestir það sem heyrst hefur í Bakherberginu, að Frosti gerði breytingar sem þau hin gátu ekki sætt sig við, og voru ekki í samræmi við þá skýrslu sem þau höfðu talið sig hafa unnið að.
Starfshópur Frosta, sem var skipaður utan um Frosta, skilaði því af sér minnihlutaáliti sem samanstendur af niðurstöðu eins manns, Frosta Sigurjónssonar.