Að undanförnu hafa reyndir lögmenn margítrekað gagnrýnt Hæstarétt fyrir dómsniðurstöður, einkum og sér í lagi þegar kemur að málum sem tengjast bankamálum og bankahruninu. Þetta hefur til dæmis gerst í innherjasvikamáli og nú síðast í umfangsmesta efnahagsbrotamáli sem leitt hefur verið til lykta í Hæstarétti, hinu svokallaða Al Thani máli. Í það minnsta fjórir lögmenn hafa tjáð sig endurtekið um það mál og gagnrýnt dóm Hæstaréttar harðlega. Um hagsmunatengslin í því, hefur verið fjallað áður á vettvangi Kjarnans, og ekki ætlunin að gera það að umtalsefni að þessu sinni.
Það sem vekur athygli í þessum málum sem tengjast glæpum bankamanna, sem staðfestir hafa verið með dómum í Hæstarétti, er að sumir lögmenn virðast vera mun frekar tilbúnir að tjá sig og gagnrýna Hæstarétt þegar bankamenn eiga í hlut. Það sama má reyndar segja um suma fjölmiðla, sem virðast einhverra hluta vegna horfa með allt öðrum augum á mál, þegar bankamenn og fjárfestar eru annars vegar heldur en fólk úr öðrum stéttum.
Bankamenn og fjárfestar eru ekkert merkilegri en annað fólk. Það er áhugavert siðferðilegt mál fyrir lögmenn að hugsa um, og ræða, hvort það geti ekki veikt tiltrú almennings á því grundvallaratriði, að allir séu jafnir fyrir lögunum, þegar lögmenn virðast vera tilbúnir að ganga mun lengra í þjónustu sinni fyrir bankamenn og fjárfesta en fólk úr öðrum stéttum.
Annað er líka það, sem sjaldan er rætt um, að mörg mál sem koma inn á borð dómstóla eru mun flóknari og erfiðari viðfangs fyrir dómstóla, heldur en málefni sem tengjast viðskiptum. Oftast nær er það svo, að frumgögn eru til um viðskiptin, allt niður í nákvæm gögn um fjármagnshreyfingar og samskipti sem skýra þær sömuleiðis.
Í margbreytilegum ofbeldismálum, svo dæmi sé tekið, er oft á tíðum afar erfitt að átta sig á því hvernig málavextir voru, og vitni stundum engin. Í þeim aðstæðum reynir mjög á dómara, sem taka síðan að lokum afar erfiðar ákvarðanir, oft gegn eindreginni neitun þeirra sem sakaðir eru um grafalvarlega glæpi.
Eftir að dómar falla í þeim málum þar sem sekt er sönnuð, þá fá þeir sem dæmdir eru yfirleitt ekki forsíðurnar endurtekið til þess að afsaka sig, og fjölda lögmanna til að styðja sig í því. Enda er það einkennilegt og felur slíkt í sér óvirðingu gagnvart hinum endanlega dómi í málinu, og þolendum glæpanna. Í það minnsta að mati einhverra.
Það er eðlilega hægt að deila um dóma og refsingar. Það á ekki síst við um þegar fólk er sent í fangelsi, og ætlað að breytast til hins betra og læra af mistökum sínum. Það er ekki augljóst að sú verði raunin, eins og dæmin sýna, og ekki víst að sagan eigi eftir að dæma fangelsi sem bestu staðina fyrir margt fólkið sem þangað er sent.
Þó lögmenn séu í fullum rétti, þegar þeir tjá sig um dóma og mál sem koma inn á borð dómstóla, þá mega þeir ekki gleyma því að réttarríkið er stéttlaust. Framganga þeirra ætti ávallt að taka mið af því.