Eitt af því sem var umdeilt á kjörtímabilinu frá 2009 til 2013 var fjárfestingaáætlun þáverandi ríkisstjórnar, þar sem gert var ráð fyrir tugmilljarða fjárfestingum í ýmsum verkefnum víða um landið, meðal annars vegaframkvæmdum. Stóð til að fjármagna þessi verkefni með veiðigjöldum meðal annars. Áætlunin náði töluvert langt inn í framtíðina, en hún var kynnt sérstaklega, árið 2012, fyrir árin 2013 til 2015.
Skemmst er frá því að segja, að þessi fjárfestingaáætlun varð ekki að veruleika, og var raunar slegin af nánast í heilu lagi um leið og ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var tekin við, eftir kosningarnar 2013.
Í dag var blaðamannafundur þar sem greina mátti svipuð stef, þegar rætt var um húsnæðismálaflokkinn og fleira. Orðrétt segir m.a. í tilkynningu frá ríkisstjórninni: „Stefnt er að því að byggja 2.300 íbúðir á árunum 2016-2019, að hámarki 600 íbúðir á ári. Að því loknu verður metin þörf fyrir frekari uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins til framtíðar. Áhersla verður á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum.“
Það er eins og stjórnmálamenn gleymi því stundum, að allt þeirra starf markast af fjárheimildum í fjárlögum ár hvert, og síðan pólitísku umboði. Í þessari tilkynningu er ríkisstjórnin að kynna mögulega útgjaldaliði á fjárlögum á árunum 2017, 2018 og 2019. Þetta kallast að lofa upp í ermina á sér, enda alls óvíst að þessi áform geti orðið að veruleika. Það eru t.d. kosningar vorið 2017 og því allt eins víst að þessi húsnæðisstefna ríkisstjórnarinnar verði jafn marklaus og fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar þar á undan reyndist vera þegar upp var staðið. Þrátt fyrir að í báðum tilfellum hafi stjórnmálamenn baðað sig í kastljósi fjölmiðla - að því er virðist í kosningaham.