Flestir eru sammála um að agi, ráðdeild og vönduð vinnubrögð eigi að einkenna ríkisfjármálin. Fjármálaráðherra er á sama máli og hefur komið sjónarmiðum sínum um hinn mikilvæga aga vel á framfæri. Það sama má segja um formann og varaformann fjárlaganefndar, auk fleiri stjórnarliða. Oft finnst mér þessi áhersla þó meira í orði en á borði. Útgjaldaþróun á fjárlagaliðnum „Ríkisstjórn“ er ágætis dæmi um það.
Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar.
Hækkun um 34% á þremur árum
Kostnaður við ríkisstjórnina var 253 m.kr. á árinu 2012. Árið 2013 voru kosningar sem kalla á aukin útgjöld vegna biðlauna ráðherra og aðstoðarmanna. Það ár fór kostnaðurinn í 337,6 m. kr. Í fjárlögum fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir 311 m. kr. og í frumvarpinu fyrir árið 2015 tæpum 340 m. kr. Hækkunin nemur því 34% frá árinu 2012 til 2015. Þetta er töluverð aukning og á eflaust að mestu rætur sínar að rekja til mikils fjölda aðstoðarmanna ráðherra sem enginn hefur lengur tölu á.
Agaleysi víða
Þetta er þó ekki eina dæmið um agaleysi stjórnvalda. Forsætisráðherra stóð t.d. í afar hæpnum styrkveitingum fljótlega eftir að hann tók við embætti og sá Ríkisendurskoðun ástæðu til að gagnrýna framferðið. Þá hefur meirihluti fjárlaganefndar endurvakið vinnubrögð sem seint teljast vönduð. Þannig er að lengi vel tíðkaðist að einstaklingar og samtök kæmu fyrir fjárlaganefnd til að rökstyðja umsóknir sínar um fjárframlög. Þá gátu persónuleg tengsl við nefndarmenn skipt miklu máli. Þessu verklagi var breytt til hins betra á síðasta kjörtímabili, í þverpólitískri sátt, og umsækjendum vísað á ráðuneytin til að tryggja betur jafnræði þeirra á milli. Meirihlutinn ákvað hins vegar að samþykkja fjölmargar slíkar beiðnir nú fyrir jól án þess að umsóknirnar hefðu verið svo mikið sem ræddar í fjárlaganefnd.
Í ljósi þessa tel ég eðlilegt að stjórnarliðar og sjálfskipaðir talsmenn aga í ríkisfjármálum líti í eigin barm og láti vera að predika yfir okkur hinum.
Auglýsing