„Sjúkraliðar, lögreglumenn og félagar í SFR eru brjálaðir yfir því að ríkið bjóði þeim minni kjarabætur en öðrum stéttum.“ Svo segir í frétt RÚV. Enn eitt alvarlega verkfallið hjá starfsfólki í almannaþjónustu gæti hafist innan tíðar, vegna þess að stjórnvöld hafa haldið þannig á kjarasamningum að sumir hópar fá meira en aðrir.
Ríkið er sagt vera að bjóða fyrrnefndnum stéttum 17 til 20 prósent hækkun yfir nokkurra ára samningstíma, á meðan aðrar stéttir hafi fengið um 30 prósent hækkun.
Það verður að teljast undarlegt hjá stjórnvöldum að vilja skapa til illanda, eftir það sem á undan er gengið, með því að segja ítrekað við einstaka hópa að þeir eigi ekki skilið að fá það sama og aðrir. Án þess að fyrir liggi góðar röksemdir fyrir því.
Það styttist í kosningar, og miðað við hvernig fylgið hefur þróast hjá á stjórnarflokkunum, í gegnum síðustu verkfallstímabil, þá verður að teljast skrítið að stjórnvöld vilji ekki semja strax á sömu forsendum og markaðar hafa verið í öðrum samningum. Þó fylgið megi ekki ráða för, þá er það ákveðin vísbending um að samningatækni stjórnvalda hafi verið afleit og almenningur sjái það skýrt og greinilega.