Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í Sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands.
Út um allan heim hafa risið upp hópar fólks sem vilja breytingar til hins betra fyrir bæði samfélagið og náttúruna. Stofnun fjölmargra gildisbanka sem fjárfesta í samfélagi og umhverfi, Arabíska vorið 2011, Wall-street mótmælin 2011, endurvakning samvinnufélaga út um allan heim – þar á meðal í Bandaríkjunum, stofnun grenndarmynta (t.d. Bristol pund), nýir flokkar sem stjórna bæjarfélögum (t.d. Frome, Englandi 2011), kirkjusamtök kalla eftir fjárlosun frá jarðefnaeldsneyti (Kvakarar 2011; breska kirkjan 2014), yfir 50 stórfjárfestar í Bandaríkjunum byrja fjárlosun frá jarðefnaeldsneyti 2014, loftslagsgangan mikla út um allan heim haustið 2014, bókin Bylting (Revolution) eftir grínistan Russel Brand í Bretlandi haustið 2014 – svona má lengi telja.
Álíka hreyfingar hafa myndast á Íslandi undanfarin ár. Þar má nefna Búsáhaldabyltinguna 2009, stofnun Besta flokksins 2010, og röð funda þar sem krafist er þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir inntöku í Evrópusambandið (ESB) 2014. Nú er aftur soðið upp úr á Íslandi og þriðji mótmælafundurinn sem er risinn úr grasrótinni er boðaður á morgun, 17. nóvember, undir slagorðinu Jæja. Viðbrögð stjórnvalda eru þau að þetta séu aðallega tónlistarkennarar í verkfalli. Svo er ekki. Hér hefur saman komið þversnið af þjóðinni sem vill sjá breytingar. Ég tek hér að neðan nokkur dæmi.
Ósanngjarn skattur á auðlindir
Fyrstu skref núverandi ríkisstjórnar var að taka af mest allan skatt á útgerðarfélög. Þau eru að auðgast af fiskinum sem er sameign þjóðarinnar. Því kalla margir eftir að við tökum Norðmenn okkur til fyrirmyndar – en þar fer 78% af tekjum olíufyrirtækja í hinn svokallaða olíusjóð, sem stofnaður var upp úr 1990, og nú er Noregur ríkasta þjóð heims. Stór hluti íslendinga er óánægður með skattabreytingarnar, sem gerir útgerðarmönnum kleift að borga sér milljarða í arð á ári.
Annað dæmi um að þjóðin sé ekki að fá sinn skerf af auðlindum þjóðarinnar er að stóriðnaðarfyrirtæki sem nýta 80% af þeirri raforku sem við framleiðum borga mjög lágt verð fyrir rafmagnið sem er tengt álverði í heimsmarkaði.
Annað dæmi um að þjóðin sé ekki að fá sinn skerf af auðlindum þjóðarinnar er að stóriðnaðarfyrirtæki sem nýta 80% af þeirri raforku sem við framleiðum borga mjög lágt verð fyrir rafmagnið sem er tengt álverði í heimsmarkaði. Þegar álverðið er lágt borgar íslenska þjóðin með hverju áltonni sem framleitt er. Meðalarður Landsvirkjunnar af raforkusölu til stóriðju síðan hún hófst er undir 3%. Berum þetta saman við norska olíusjóðinn sem fær 78% af tekjum olíufyrirtækjanna.
Auk þessa borga stóriðjufyrirtækin nær engan skatt í ríkissjóð. Þar sem ekki eitt hlutabréf er í eigu Íslendinga, fer allur gróði fyrirtækjanna í skattaskjól. Nær það eina sem við fáum úr þessu stóriðjuævintýri er eyðilögð náttúra og nokkur hundruð störf auk skattgreiðslna starfsmanna. Fjölmargir Íslendingar eru andvígir þessari stefnu sem er lýst í þaula í Draumalandi Andra Snæs Magnasonar og í heimildarmynd með sama nafni.
Heilbrigðiskerfið
Undanfarin ár hefur breska ríkisstjórnin kerfisbundið rifið niður heilbrigðiskerfið (National Health Service) sem Bretar hafa verið stoltir af síðan síðustu heimsstyrjöld lauk. En síðastliðin ár hefur einkavæðing farið af stað og stór hluti þeirra sem nú sjá um hluta þjónustunnar eru erlend fyrirtæki frá Bandaríkjunum, Suður Afríku og Kanada. Um leið hefur kostnaður aukist. Svo virðist sem hér á landi sé sama stefna að fara af stað.
Slík einkavæðing byrjar á að svelta heilbrigðiskerfið og láta borgara borga meira og meira sjálfa – nú um 20% af kostnaði á Íslandi. Síðan er hluti þjónustu boðinn út til einkaaðila og boðið upp á einkavæddar heilbrigðistryggingar. Þetta teja margir Íslendingar að verði að stoppa. Ég hvet alla sem hafa áhuga á þessum málum að horfa á TEDx fyrirlestur Allyson Pollock í Exeter, Englandi
Olíuvinnsla og loftslagsbreytingar
Nú eru stjórnvöld mjög spennt fyrir að stofna olíuríkið Ísland. Sem sérfræðingur í náttúruauðlindum hef ég kannað hve mikil olía er hér líklega til vinnslu. Ekki eru til mikil gögn frá Orkustofnun en nokkrar norskar skýrslur taka til gögn. Þar kemur í ljós að það magn sem sem vinna má er talið vera um það bil álíka stórt og það sem Bandaríkjamenn brenna á tveimur árum eða svo.
Að leggja í framkvæmdir á innviðum á landi og sjó upp á milljarða króna vegna mögulegrar hámarksársframleiðslu á olíu upp á 40 milljón m3 í kringum 2050, sem myndi síðan endast til um 2070, er vægast sagt alvarlega áhættusamt í heimi þar sem fjárlosun úr olíuvinnslu eykst degi frá degi.
Einnig er sú orka sem fæst úr ævintýrinu takmörkuð. Þegar kannað er hve mikil umframorka (Energy Return on Energy Invested (EROI) – hlutfall orku út framyfir orku inn) í olíuvinnslu varð til í kringum aldamótin 1900 kemur í ljós að hlutfallið var um 100. Olía sem er djúpt í jarðlögum (nokkur þúsund metrar) og og á hafdýpi yfir 1000 m líkt og á Drekasvæðinu er talin hafa hlutfallið minna en 10. Því eru gróðahorfur litlar. Nær væri að setja fjármagn í þróun á endurnýjanlegri orkuframleiðslu.
Ekki má gleyma tengingu olíubrennslu við loftslagsbreytingar. Vísindamenn hafa nú sýnt fram á að við megum einungis brenna um 25% af því jarðefnaeldsneyti sem eftir er, ef við viljum vera innan þeirra 2oC meðalhitnunarmarka andrúmsloftsins sem þjóðir heims hafa samþykkt. Því er olían á Íslandsmiðum, ef nokkur er, best geymd í jarðlögunum þar, sem nokkurs konar bankainneign fyrir komandi kynslóðir. Við getum sem þjóð lagt þetta til og verið til fyrirmyndar á alþjóðavísu. Ungt fólk sem stendur að veftímaritinu Grugg og Ungir umhverfissinnar hafa nú stigið fram með slíkar kröfur og önnur umhverfissamtök og ég eru þeim algjörlega sammála.
Hálendið, nýting jarðhitaorku og ferðamenn
Enn stefna stjórnvöld í meiri eyðileggingu á hálendinu – með virkjanabyggingu og raflínlulögn. Þetta gengur þvert á vilja margra sem eru náttúruunnendur og vilja verndun hálendisins – sem oft er vitnað til sem hjarta landsins, eða Miðgarðs, á máli hins virta náttúruverndarsinna Guðmundar Páls Ólafsonar (sjá síðustu bók hans Vatnið). Mál margra sem ég hef talað við undanfarið er: Nú er nóg komið af orkuvinnslu sem seld er á spottprís. Nóg er komið af útblæstri jarðhitaorku umfram endurnýjun líkt og nú á sér stað á Hellisheiði og Reykjanesi. Nóg er komið af eyðileggingu hálendisins með virkjunum. Unnt er að skoða þau svæði sem eru í hættu á Náttúrukorti Framtíðarlandsins sem nú er einnig á ensku. Margir í landinu vilja að sú orka sem eftir er sé nýtt á skynsaman máta þannig að komandi kynslóðir geti einnig notið hennar. Þessu er ég hjartanlega sammála.
Ekki má gleyma að ferðamenn koma til landsins til að njóta ósnortinnar náttúru og víðernis – en ekki til að sjá virkjanir, uppistöðulón og rafmöstur.
Auðlegðarskattar og ójöfnuður
Sú sjónhverfing sem nýfrjálshyggjan heldur fram, að auður færist frá þeim ríku til þeirra sem minna mega sín ef skattar eru lágir á þá ríku, hefur margsinnis verið sýnd sem ósönn. Þeir ríku nýta sinn skerf í meiri einkaneyslu og lúxuslifnað – og auka þannig hagvöxt. Með afnámi auðlegðarskatta og lækkun skatta á útgerðarmenn, eykst ójöfnuðurinn.
Aukning vergrar landsframleiðslu segir ekkert til um skiptingu auðs innan landsins eða um hlutfall hæstu og lægstu tekna. Þetta sést á því að sala á lúxusvöru er að aukast á sama tíma og fjöldi þeirra sem leita til frjálsra félagasamtaka eftir matar- og fatagjöfum eykst. Því hefur fjársöfun á Jæjamótmælum farið í matarsjóð fyrir þá sem minna mega sín.
Tíu prósent tekjuhæstu Íslendingarnir fá rúmlega einn þriðja allra launa á Íslandi og tekjuhæstu 20% fá um 56% allra launa. Tvö present fjölskyldna í landinu eiga nær helming allra skuldlausra eigna. Þetta sýnir að hér eru stjórnvöld á rangri braut og því eru margir íslendingar reiðir.
Skattaskjól
Nú er opinbert að Skattrannsóknastjóri hefur fengið lista yfir 50 íslenska aðila sem eiga fé í skattaskjólum. Fjármálaráðherra hefur ekki gefið leyfi til þess að þessi gögn séu keypt. Bera má þetta saman við viðbrögð Þjóðverja sem keyptu slík gögn og náðu í milljarða evra í ríkissjóð Þýskalands.
Nú eru margir Íslendingar reiðir yfir viðbrögðum ráðherra og ýjað hefur verið að því að líklega bregðist hann ekki við á jákvæðan máta vegna þess að hann sjálfur, eða fólk nærri honum, eigi slíkt fé. Margir Íslendingar fara fram á að málið verði upplýst. Ekki veitir af fé í ríkiskassann.
Sendiherraembætti
Það er með ólíkindum að endalaust sé ónýtum stjórnmálamönnum hyglað með embættum frá seðlabankastjórastólum til sendiherraembætta. Það hefur komið skýrt fram hvaða afleiðingar það hafði fyrir þjóðina þegar Davíð Oddson, sem fyrst einkavæddi bankana sem forsætisráðherra og varð síðan seðlabankastjóri, hlaut slíka framgöngu. Nú hefur ríkistjórnin skipað forsætisráðherra frá hruntímanum, Geir H. Haarde, sem sendiherra. Þessu mótmæla fjölmargir. Slík embætti eiga að vera fyrir þá sem hafa þekkingu á efnahagsmálum (seðlabankastjóri) og hafa unnið sig upp innan utanríkisþjónustunnar (sendiherra).
Ný stjórnarskrá
Eftir hrun fór ný stjórn af stað með að leggja drög að nýrri stjórnarskrá á lýðræðislegan máta. Ísland og Íslendingar hafa fengið mikið lof fyrir erlendis frá. En flestir þeirra sem fjarri búa vita ekki að þetta ferli hefur verið langt frá því að vera lýðræðislegt.
Ferlið byrjaði vel. Þjóðfundur lagði til efni í nýja stjórnarskrá sem kosnir meðlimir á Stjórnlagaþingi áttu að taka tillit til. En svo fór að halla á lýðræðið. Gömlu valdhafarnir sem báru ábyrgð á hruninu vildu ekki breytingar, og reyndu allt sem þeir gátu til að kyrkja ferlið – með aðstoð Hæstaréttar. Fyrrverandi ríkisstjórn brá þá á það ráð að Stjórnlagaþingi yrði breytt í Stjórnlagaráð sem lagði drög að nýrri stjórnarskrá. Þessi drög hafa nú verið kæfð í nefnd á Alþingi. Hér eru margir íslendingar mjög óánægðir að mér meðtaldri.
Hraunavinir
Mælirinn fylltist fyrir marga þegar níu friðsamlegir mótmælendur voru sakfelldir fyrir að gera sitt besta til að vernda Gálgahraun, friðað hraun sem hafði verið gert ódauðlegt af þjóðarmyndlistamanninum Jóhannesi Kjarval. Það er með ólíkindum að eyðilegging á náttúrunni séu taldar framfarir á meðan eyðilegging á listaverkum Kjarvals yrðu talin glæpur. Ákæra valdstjórnarinnar er að mínu mati einungis til að sýna að borgarar hafi engan rétt, þrátt fyrir að Ísland hafi skrifað undir Árósarsáttmálann þar sem þjóðfélagsþegnar hafa rétt til að láta skoðanir sínar í ljós á málefnum tengdum umhverfinu.
Síðan ég flutti til Íslands árið 2008, eftir 30 ára búsetu erlendis, hef ég oft skammast mín fyrir að vera Íslendingur vegna spillingar í samfélaginu
Síðan ég flutti til Íslands árið 2008, eftir 30 ára búsetu erlendis, hef ég oft skammast mín fyrir að vera Íslendingur vegna spillingar í samfélaginu, en aldrei hef ég skammast mín eins mikið og eftir að þessi dómur var felldur. Gálgahraunstónleikarnir, með fríum framlögum listamanna og hundruða áhlustenda í Háskólabíói í lok október, sýna að ég er ekki ein um þessa skoðun. Við bindum miklar vonir við úrskurð Mannréttindadómsstóls Evrópu, en mál níumenninganna hefur verðið lagt fyrir hann með stuðningi Landverndar.
Hvert næst?
Hér að ofan eru einungis nokkur dæmi um hvers vegna grasrótin á Íslandi er nú í uppnámi og kallar eftir breytingum með mótmælafundum undir slagorðinu Jæja. Margt annað má taka til umræðu – t.d. leynd yfir vopnavæðingu lögreglu, birting lögreglu á nöfnun mótmælenda frá 2009-2011, innanríkisráðherra sem tekur ekki ábyrgð á starfemi ráðuneytis síns með afsögn, höft á menntun þeirra sem eru eldri en 25 ára, hækkun matarskatts, lúxúsbílakaup ráðherra, vanmat á mikilvægi tónlistarkennslu, stóra leiðréttingin sem er talin farsi af mörgum og svo framvegis.
Ef ríkisstjórnin hlustar ekki, verða dagar hennar líklega ekki margir, því fólkið í landinu hefur misst traust á stjórnmálamönnum. Þetta kemur skýrt fram í skoðanakönnunum.