Það er áhugavert að fylgjast með málflutningi Samtaka atvinnulífsins gegn kröfugerð Starfsgreinasambandsins, þar sem farið er fram á að lægstu laun hækki í 300 þúsund krónur. Málflutningur SA byggist á þeirri lífsseigu hugmynd að hækkun lægstu launa muni sjálfkrafa leiða til þess að allt fari úr böndunum með óðaverðbólgu og óstöðugleika. Efnahagslegur stöðugleiki verði ekki varðveittur nema með því hinir efnalitlu verði áfram efnalitlir. Þessu er slengt fram eins og um náttúrulögmál sé að ræða. En á þessi napurlegi málflutningur við rök að styðjast? Mun leiðrétting á launakjörum stétta sem hafa augljóslega borið skarðan hlut frá borði leiða af sér verðbólguskot og óstöðugleika?
Verðbólga í boði peningavaldsins
Á Íslandi hefur verðbólga verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans nánast samfleytt frá því að það var sett árið 2001. Það eru fjölmargar ástæður fyrir verðbólgunni. Helst má nefna gengislækkun krónunnar, sem olli mikilli verðbólgu í kjölfar hrunsins; aukið peningamagn í umferð, m.a. vegna óhóflegra lánveitinga bankanna; hækkanir á húsnæðisverði; útþenslu- og stóriðjustefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins; og sveiflukennt heimsmarkaðsverð á olíu. Það verður ekki betur séð en að verkafólk beri litla sem enga ábyrgð á verðbólgu undanfarinna ára. Þvert á móti er það einkum peningavaldið sem kynt hefur undir verðbólgu og efnahagslegum óstöðugleika.
Þó geta komið upp aðstæður þar sem hækkun lægri launa gæti aukið á verðbólgu, einkum ef það er ekki til nægur auður til að standa undir hækkununum og atvinnurekendur velta hækkuninni beint út í verðlag. En hér á landi er misskipting auðs með þeim hætti að stærðarinnar hluti þjóðarauðsins fer þegar í vasa eigenda fyrirtækja og fjármagns.
Þó geta komið upp aðstæður þar sem hækkun lægri launa gæti aukið á verðbólgu, einkum ef það er ekki til nægur auður til að standa undir hækkununum og atvinnurekendur velta hækkuninni beint út í verðlag. En hér á landi er misskipting auðs með þeim hætti að stærðarinnar hluti þjóðarauðsins fer þegar í vasa eigenda fyrirtækja og fjármagns. Hlutfall þjóðarauðsins sem fer í arðgreiðslur til fjármagnseigenda, miðað við hlutfall launa almennings, er allt of hátt. Eins er launabilið milli hæstu og lægstu laun of breitt. Það er því vel hægt að mæta kröfum Starfsgreinasambandsins með því að leiðrétta lægri laun á kostnað ofsagróðans og ofurlauna. Ef atvinnurekendur velja hins vegar að hækka verðlag sem nemur launahækkunum, þá skrifast aukin verðbólga á þeirra reikning. Eins ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn velja að láta gengi krónunnar síga (til að bæta útflutningsgreinum upp hærri launakostnað), þá er aukin verðbólga á þeirra ábyrgð.
Ef eitthvað er hefur verkalýðshreyfingin verið alltof fús til að hverfa frá kröfum um launahækkanir sem duga fyrir lágmarksframfærslu. Í ljósi misskiptingarinnar sem er við lýði á Íslandi getur grunnur að samfélagslegri sátt einungis skapast með því að fyrirtæki geri allt sem í þeirra valdi stendur til að halda aftur af verðhækkunum.
Láglaunafólki verði ekki fórnað fyrir stöðugleika
Vissulega eru dæmi um minni fyrirtæki sem gætu að líkindum ekki staðið undir hækkun lægstu launa nema með því að velta þeim að hluta til út í verðlagið. En það eru ýmsar leiðir til að koma til móts við slík fyrirtæki, t.d. með skattaívilnunum og öðrum skipulagsbreytingum í efnahagsstjórninni. Lykilatriðið er að láglaunafólki verði ekki lengur fórnað til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, sem kemur sannast sagna niður á láglaunafólkinu sjálfu. Því eins og Starfsgreinasambandið hefur réttilega bent á þá felur núverandi krafa um stöðugleika í sér að hinir tekjulægstu haldi áfram að hafa lítið á milli handanna, að misskiptingin viðhaldist. Þannig er staðinn vörður um það kerfi að örfáir einstaklingar geti skammtað sér meginþorra þjóðarauðsins. Og því miður er stefna ríkisstjórnarinnar einnig í þá veru, eins og skýrt kemur í ljós með afnámi auðlegðarskatts og lækkun gjalda á sjávarútveg (sem er í hvað sterkastri stöðu en einnig vinnuveitandi margra þeirra einstaklinga sem nú fara fram á mánaðarlaun sem hægt er að lifa af).
Hin hráa stétta pólitík
Eftir stendur hrá stéttapólitík. Klifun atvinnurekenda um að hækkun lægstu launa valdi upplausn og efnahagslegum hamförum er af pólitískum toga. Þessi draugasaga á sér takmarkaða fræðilega stoð. Hún er einkum til þess fallin að réttlæta auðæfi og ríkidæmi hinna fáu.
Yfirstéttir allra landa hafa í aldaraðir haldið því fram að fátækt sé óumflýjanleg og allar tilraunir til að bæta kjör almennings muni enda með ósköpum. Þessi kenning hefur alltaf reynst röng. Og hin napurlega mýta SA um stöðugleika á kostnað hinna efnaminni er það líka. En tillögur Starfsgreinasambandsins um að hækka lágmarkslaun í þrjú hundruð þúsund á mánuði er bæði sanngjörn og réttmæt.
Sveinn Máni er doktorsnemi við Cambridge-háskóla og Halla er ráðgjafi og alþjóðastjórnmálafræðingur.