Mér var frekar brugðið við aðsenda grein Jóhanns Friðriks Friðrikssonar, þingframbjóðanda í Suðurkjördæmi, sem birtist í Kjarnanum 20. september sl. í aðdraganda kosninga nú um helgina. Greinin sem ber heitið „Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi“ fjallar um þá heilsufarslegu og efnahagslegu ógn sem stafar af offitu og hvernig við fljótum sofandi að feigðarósi vegna lífstílstengdra sjúkdóma.
Mér var brugðið því að fyrst og fremst einkennist grein hans af gamalkunnum stefum um ógnir offitufaraldursins, sem við höfum heyrt svo margoft áður. Erum við í alvörunni ekki komin lengra en svo að við höldum áfram að klifa á hræðsluáróðri sem er ekki einungis árangurslaus heldur beinlínis skaðlegur? Þrátt fyrir að það sé ekki langt um veg að sækja bestu þekkingu um tengsl heilsufars og holdafars sem og skaðaminnstu aðferðirnar til að efla lýðheilsu?
Í ákalli Samtaka um líkamsvirðingu til heilbrigðisráðherra frá 13. mars sl. mátti finna fræðilega samantekt yfir þessa þætti sem og 36 reynslusögur frá þolendum eða eftirlifendum þolenda fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins (1). Meðal annars var fjallað um það hvernig tengsl holdafars og heilsufars verða til í gegnum miðlunarbreytur í stað beins orsakasambands.
Ofuráhersla á hlutverk holdafars og persónulegri ábyrgð hvers og eins á eigin holdafari í samfélagslegri umræðu undanfarna áratugi hefur leitt til þess að flest upplifum við tengsl offitu og heilsu á eftirfarandi hátt:
Með öðrum orðum teljum við flest að offita orsaki eða leiði til verra heilsufars á beinan hátt. Rannsóknum hefur hinsvegar ekki tekist að staðfesta slíkt orsakasamband nema af afar skornum skammti. Þegar við tölum um afleiðingar offitu á heilsufar líta þessi tengsl meira út í ætt við þetta:
Fjölmargar miðlunarbreytur útskýra langstærstan hluta þeirra tengsla sem holdafars hefur við heilbrigði.
Hér má til dæmis tiltaka að rannsóknir sýna að reynsla af fitufordómum útskýri nærri þriðjung af verra heilsufari feits fólks (2) og auki líkur á snemmbærum dauða um 60% (3), líklega vegna þeirrar streitu sem af henni hlýst og meðfylgjandi álagi á hjarta- og æðakerfið og efnaskiptabúskapinn. Fitufordómarnir leiða síðan til lakari heilbrigðisþjónustu þar sem ofuráhersla er lögð á holdafar sjúklinga í stað raunverulegs umkvörtunarefnis þeirra (4). Það leiðir til forðunar feits fólks á heilbrigðisþjónustu og ýmsum forvarnaraðgerðum á borð við krabbameinsskimanir og bólusetningar, og/eða til endurtekinna þyngdartapstilrauna sem eru sjálfstæður áhættuþáttur fyrir m.a. hjarta- og kransæðasjúkdómum, sykursýki 2 og háum blóðþrýstingi (4, 5, 6).
Hér þarf einnig að tiltaka áhrif jöfnuðar en fitufordómar leiða til kerfisbundinnar mismununar og jaðarsetningar feits fólks (7). Félagsleg og efnahagsleg staða fólks er talin vera stærsti áhrifaþátturinn á heilsufar þess og feitt fólk er þar ekki undanskilið. Þegar jaðarsetning og sú streita sem henni fylgir er sett í samhengi við heilsuvenjur er niðurstaðan sú að bæting á lífsstíl hefur afar lítið að segja þegar kemur að framtíðarþróun sjúkdóma og snemmbærra dauðsfalla svo lengi sem jaðarsetningin heldur áfram (8). Það að Jóhann Friðrik tiltaki einn af þeim þáttum sem geta stuðlað að minni jaðarsetningu, auknu aðgengi feits fólks að fatnaði, sem dæmi um neikvæða þróun setur mig því hljóða.
Þegar tengsl holdafars og heilsufars eru ofureinfölduð á þann hátt sem Jóhann Friðrik gerir í grein sinni og þau römmuð inn sem persónuleg ábyrgð einstaklinga og/eða lýðheilsukrísa með meðfylgjandi gífuryrðum leiðir það til aukinna fitufordóma (9). Fitufordómar leiða svo til lakari heilbrigðisþjónustu, forðunar á henni, endurtekinna þyngdartapstilrauna, lakari heilsuvenja og ójöfnuðar með tilheyrandi heilsufarslegum skaða, auk þess að vera megin drifkrafturinn á bak við hækkandi líkamsþyngdarstuðul undanfarinna áratuga (10).
Heildarmyndin lítur því allt öðruvísi út en við höfum lengi staðið í trú um. Aðgerðir til að bæta lýðheilsu og draga úr lífsstílssjúkdómum þurfa að taka mið af þessu annars er hætta á enn frekari heilsufarslegum skaða (11).
Númer eitt, tvö og þrjú er að falla ekki í gryfjur lýðskrums og reyna að höfða til þeirra fitufordóma sem sannarlega fyrirfinnast í íslensku samfélagi í pólitískum tilgangi (7). Ef að stjórnmálafólki er full alvara á bak við loforð sín um að bæta lýðheilsu þjóðarinnar þarf það að kynna sér allar hliðar mála og styðjast við gagnreyndustu og bestu þekkinguna sem við höfum hverju sinni. Það á að vita betur en að halda uppi hræðsluáróðri sem gerir lítið annað en að magna upp fordóma, jaðarsetningu og heilsufarslegan skaða. Og við, sem kjósendur, eigum að gera skýlausa kröfu um það.
Höfundur er félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu.
Heimildir:
- https://docs.google.com/document/d/190uoNjW0MUDx37s6BcMhRx65XAAwM0mqrNqftAGu8j8/edit
- https://journals.sagepub.com/doi/10.1177/0956797619849440
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4636946/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2866597/
- https://nutritionj.biomedcentral.com/articles/10.1186/1475-2891-10-9
- https://www.hindawi.com/journals/jobe/2014/983495/
- https://bit.ly/38qP6gK
- https://jamanetwork.com/journals/jama/fullarticle/187597
- https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/26776492/
- https://bmcmedicine.biomedcentral.com/articles/10.1186/s12916-018-1116-5
- https://link.springer.com/article/10.1007%2Fs11673-012-9412-9