Fyrir ekki svo löngu gekk ég til liðs við Knattspyrnufélag Reykjavíkur og mun leika með því í Pepsi-deildinni í sumar. Tíðkast hefur hjá félögum í efstu deild að halda á vordögum í æfingaferð og hafa Spánn eða Portúgal verið vinsælir áfangastaðir. Tilgangur þessara ferða er tvíþættur; annars vegar er æft við bestu mögulegu aðstæður á grasvöllum og hins vegar er vikan notuð í að þjappa mannskapnum saman og ná upp góðum liðsanda fyrir átök sumarsins. Við KR-ingar fórum í ár á svæði sem heitir Campoamor nálægt Alicante á Spáni og heppnaðist ferðin mjög vel í alla staði.
Ég hef farið í ansi margar svona ferðir og vissi því fyrir fram að farið yrði í verslunarleiðangur allavega einu sinni og þá fengi ég hlutverk álitsgjafa. Ég sagði þó við liðsfélaga mína fyrir fram að ekki væri víst að þeir hefðu endilega áhuga á að heyra mitt álit. Ástæða þess er í fyrsta lagi sú að mér finnst að fólk eigi að reyna eftir fremsta megni að eyða peningum sínum á Íslandi. Annað sem ég hef sterkar skoðanir á er mjög ódýr fjöldaframleidd föt sem seld eru í stórum verslanakeðjum – fötunum er hrúgað þar inn og þjónustan er lítil sem engin. Ég vildi heldur að strákarnir legðu metnað í að finna sér góðar og vandaðar flíkur sem seldar eru á Íslandi og um leið eiga góða upplifun við kaupin.
Þessa skoðun mína viðra ég við hvern sem vill heyra hana og fyrrverandi liðsfélagar mínir í Val og Þrótti fengu líka að heyra tuðið í mér þegar þeir keyptu sér hrúgurnar af fatnaði á Spáni. Það má ekki gleyma því að margt smátt gerir eitt stórt og þessi innkaupastefna er ekkert endilega ódýrari til lengri tíma litið. Þegar ég ráðlegg fólki í fatakaupum legg ég mikla áherslu á gæði og notkunarmöguleika. Í þessum tiltekna verslunarleiðangri heyrði ég nokkrar mjög athyglisverðar línur frá strákunum:
„Æ, það er ekki til Large svo ég kaupi bara Medium. Hvort sem er svo ódýrt, skiptir ekki máli.“
„Ég mun örugglega aldrei nota þetta aftur en skiptir ekki máli, kostar svo lítið.“
„Ég kaupi bara marga svona boli, hlaupa alltaf í þvotti og verða of litlir.“
Ég tek það fram að þetta er alls ekki bundið við KR-inga og hef ég heyrt svipaðar setningar frá liðsfélögum mínum í öðrum félögum þar sem ég hef leikið. Auðvitað er gaman að versla erlendis og ég er ekki að biðja fólk um að sleppa því alfarið. Mín skoðun er þó sú að margir af liðsfélögum mínum væru ánægðari í dag ef þeir hefðu keypt sér eina fallega vandaða flík í verslun á Íslandi stað þriggja í ódýru verslununum á Spáni. Þá hefðu þeir einnig styrkt íslenskan efnahag og um það snýst þetta allt að mínu mati. Ég versla við þig og þú verslar við mig, ekki við risakeðjuverslun á Spáni. Styrkjum íslenska kaupmenn og setjum traust okkar á þá. Rekstrarumhverfið á Íslandi er nægilega erfitt fyrir þó að við flykkjumst ekki öll til útlanda að versla.
Íslenskum verslunum hefur vaxið ásmegin undanfarin ár og ég finn fyrir gífurlegri vitundarvakningu meðal fólks hvað varðar tísku og fatnað. Því legg ég til að við eyðum peningunum okkar hjá íslenskum kaupmönnum og treystum því að í staðinn verði boðið upp á betra vöruúrval og samkeppnishæfara verð við verslanir erlendis. Það er ekki stanslaust hægt að kvarta yfir úrvalinu og verðinu hér heima og ætlast til þess að það batni án þess að við stundum viðskipti við það fólk sem stendur í rekstri.
Það er líka svo gaman að rölta um og blanda geði við fólk sem maður hittir á förnum vegi. Það er gott að fá sér góðan kaffibolla í Reykjavík og kíkja í búðir, það er mjög oft spiluð góð tónlist í búðum og boðið upp á afbragðs þjónustu ef maður þarf á henni að halda. Það er eingöngu í gamaldags þenkjandi verslunum að starfsfólk er stanslaust að angra mann og reyna að selja manni einhverja vöru, slíkar verslanir má fólk gjarnan sniðganga mín vegna. Það að ganga inn í verslun til að skoða er alls ekki illa séð af starfsfólki og fullyrði ég að verslunareigendur og starfsfólk fagni allri þeirri umferð sem þau fá í verslun sína. Ekki hika við að kíkja inn í búð þó að þú hafir engar áætlanir um að fjárfesta í nokkrum sköpuðum hlut. Kannski kaupir þú eitthvað næst eða talar fallega um búðina við einhvern af vinum þínum og þá er strax kominn ávinningur fyrir verslunarfólk.
Látum sjá okkur í verslunum hér heima og styðjum íslenska kaupmenn. Það eru ekki allir að reyna að svindla á þér og þetta er ekki allt saman ein stór svikamylla þó að sumt fólk virðist halda það.
Og í guðanna bænum getið þið hætt að versla við Ali Express, við erum betri en þetta Íslendingar.
Íslenskt, já takk.