Sæl vertu, Jóhanna.
Takk fyrir bréfið.
Ég vil byrja á því að að ítreka afsökunarbeiðni Strætó til þín og annarra notenda akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirra óþæginuda sem þið hafið orðið fyrir vegna mistaka við framkvæmd þjónustunnar. Við leggjum okkur öll fram um að þjónustan sé með þeim hætti að hægt sé að treysta á hana. Sem betur fer get ég sagt að við sjáum að þjónustan gengur betur með hverjum deginum sem líður. Ég ætla að leggja mig fram við að svara þeim athugumsemdum og spurningum sem þú beindir til okkar. Allar ábendingar og athugasemdir frá notendum akstursþjónustunnar eru teknar alvarlega, þær skráðar og unnið úr þeim eins fljótt og kostur er.
Það er algjört lykilatriði fyrir okkur að eiga í virkum samskiptum við notendur þjónustunnar og fá allar þær athugasemdir sem þeir hafa til okkar svo við getum brugðist við þeim og bætt þjónustuna. Strætó hvetur því notendur til þess að koma á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum með, tölvupósti (thjonustuver@straeto.is eða pontun@straeto.is), í gegnum vefsíðu Strætó (www.straeto.is) eða með símtali í þjónustuver (540 2700). Í upphafi árs var það mikið álag á símaveri Strætó að biðtími þeirra sem þangað hringdu var allt of langur. Við þessu var brugðist með breyttu skipulagi og er meðalbiðtíminn nú í um það bil tvær mínútur þannig að löng bið eftir því að fá samband ætti að vera úr sögunni.
Þau mistök sem hafa átt sér stað má að nokkru leyti rekja til þess að við innleiðingu nýs tölvukerfis hefur orðið misbrestur við skráningu upplýsinga er varða þarfir notenda hjá sveitarfélögum eða uppfærðar upplýsingar frá þeim borist of seint. Þetta eru til dæmis upplýsingar um hvernig bíl notendur þjónustunnar þurfa, hvar þeir búa og um hvaða inngang þeir nota. Á fyrstu vikum ársins hefur verið unnið hörðum höndum við að leiðrétta þessar upplýsingar til að koma í veg fyrir frekari óþægindi fyrir notendur. Við áætlum að búið verði uppfæra allar upplýsingar í lok janúarmánaðar. Tölvukerfið sem nú er notast við er erlent og hefur verið notað í sambærilegri þjónustu í mörgum löndum með góðum árangri.
Eins og þú réttilega bendir á þá á Strætó, með aðstoð hagsmunasamtaka fatlaðs fólk, að halda námskeið að minnsta kosti árlega fyrir bílstjóra akstursþjónustunnar. Þar sem að bílstjórar hófu ekki störf fyrr en 1. janúar var ekki hægt að halda námskeið fyrir áramót, en það verður haldið í þessum mánuði. Allir ökumenn sem hófu störf 1. janúar fengu engu að síður þjálfun í akstri og notkun öryggisbúnaðar auk þess að fara með vönum bílstjóra ferðir hluta úr degi.
Eins og þú bendir réttilega á þá hafa reikningar fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks ekki verið sundurliðaðir þannig að notendur hafa ekki getað séð fyrir hvað þeir eru að greiða. Með nýju tölvukerfi mun útgáfa reikninga breytast þannig að á þeim verða allar ferðir á tímabilinu tilgreindar. Fyrsti reikningur nýs árs mun byggja á gamla kerfinu en eftir það verða allir reikningar sundurliðaðir.
Hvað varðar reglur um aksturþjónustuna þá hefur Strætó lítið um þær að segja og er bundið við að vinna eftir þeim. Reglurnar er settar af þeim sveitastjórnum sem koma að akstursþjónustunni og því fer best á því að fulltrúar þeirra svari þeim spurningum og athugasemdum sem við þær eru. Það sama á við um ákvarðanir um gjald fyrir ferðinar og niðurfellingu á því, það er ekki í valdi Strætó.
Það er markmið Strætó að með þeim breytingum sem nú standa yfir verði notendum ferðaþjónustu fatlaðra tryggð bæði sveiganlegri og öruggari þjónusta en áður. Í því felst meðal annars að nú geta pantað sér ferðir með tveggja klukkustunda fyrirvara í stað eins sólarhrings áður sem þýðir að þjónustan verður sveiganlegri fyrir notendur. Þessi breyting hefur það í för með sér að akstursþjónustan verður líkari almenninsgsamgöngum að því leyti að fleiri en einn farþegi getur verið í hverjum bíl. Þetta þýðir þó ekki að við horfum með sama hætti á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og almenna þjónustu Strætó. Til þess að auka öryggi notenda þjónustunnar enn frekar verður bílafloti ferðaþjónustunnar endurnýjaður.
Strætó mun leggja áherslu á að gera akstursþjónustuna eins vel úr garði og kostur er. Í þeim tilgangi leggur fyrirtækið áherslu á að eiga samráð við alla hlutaðeigandi. Sem fyrr segir eru notendur hvattir til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri við Strætó. Að auki munu hagsmunasamtök fatlaðs fólks ásamt fulltrúum sveitarfélaga og þeirra fyrirtækja sem annast aksturinn skipa sérstakan samráðshóp þar sem fylgst verður með framgangi þjónustunnar.
Með vinsemd og virðingu,
Smári Ólafsson, sviðsstjóri akstursþjónustu Strætó