Dóri DNA kýs að taka djúpt í grínárinni í síðasta Kjarna, þar sem hann beinir í pistli sínum „Fótósjoppframboðið“ spjótum að Sjálfstæðisflokknum og frambjóðendum hans. Það er auðvitað í boði og ekki af honum tekið að pistillinn er hressandi beittur þótt hann sé ekkert sérstaklega málefnalegur. Kannski er ekki hægt að gera þá kröfu til grínista að þeir séu málefnalegir en í þessu tilfelli er friðhelgi grínsins vandmeðfarin. Dóri DNA á beinna hagsmuna að gæta þar sem konan hans er ofarlega á lista Bjartrar framtíðar í borgarstjórnarkosningunum. Það er því sjálfsagt að líta svo á að pistill Dóra sé innlegg í kosningabaráttuna, og ástæða til að svara honum sem slíkum.
Má ekki gagnrýna peninga?
Efniviðurinn sem Dóri DNA notaði í pistli sínum var sem sagt pólitísk umræða um síðasta ársreikning Reykjavíkurborgar. Við greinarhöfundar vorum sérstaklega teknar fyrir út af Twitter-samskiptum sem við áttum við Dóra á meðan ársreikningurinn var til umræðu í borgarstjórn, þar sem við bentum á að síðan núverandi meirihluti tók við hafa hreinar skuldir A-hluta borgarsjóðs hækkað um 16 milljarða, og höfðum reiknað út að það væru um það bil 15 milljónir á dag.
Dóri DNA sagði um þá útreikninga í pistli sínum að ef það væri stríð yrði sá sem reiknaði út svoleiðis tekinn bakvið hús og aflífaður. Við erum sem betur fer ekki í stríði en við skiljum ekki alveg af hverju við megum ekki reikna út skuldasöfnun borgarinnar. Það hefði auðvitað verið réttlætanlegt að hrauna yfir málflutning okkar ef við værum ekki að segja satt. En svo er ekki og það er reyndar ekkert í pistli Dóra DNA sem rengir tölurnar.
Af pistli Dóra má hins vegar ráða að honum finnist slík gagnrýni ósanngjörn gagnvart fólki og flokkum sem séu bara að reyna að gera sitt besta. Og allra síst eigi sjálfstæðismenn að gagnrýna neitt, þar sem allt sem aflaga hefur farið sé þeim að kenna og þeir eigi því bara að þegja.
„Stórundarlegt upphlaup“
Hann talar um að gagnrýni okkar hafi verið „stórundarlegt upphlaup“ en það er stór misskilningur að það felist einhver góð pólitík í því að minnihlutinn vinni ekki vinnuna sína og sitji bara og þegi á meðan meirihlutinn gerir sitt besta. Góð pólitík felst í að minnihlutinn veiti meirihlutanum aðhald og setji fram rökstudda gagnrýni. Og fjárhagsstaða borgarinnar hefur nú einu sinni beina skírskotun í forgangsröðun borgarkerfisins, veski borgarbúa, og er grunnurinn að allri þeirri pólitík sem stýrir borginni. Af hverju tekur Dóri það svona óstinnt upp fyrir hönd borgarstjórnarmeirihlutans að hann sé gagnrýndur á þeim grundvelli? Vill hann fótósjoppa pólitíkina þannig að hún verði bara eitt allsherjar misfellulaust og meðvirkt hallelúja með valdhöfum?
Dóri hnýtir einnig í okkur fyrir að segja að þessar 15 milljónir sem núverandi meirihluti hefur safnað í skuldir á hverjum degi undanfarin þrjú ár samsvari því að eyða kostnaði Hofsvallagötutilraunarinnar á hverjum degi kjörtímabilsins. Við vorum aðallega að setja í samhengi hvað þessar fjárhæðir þýða. Því meiri sem meðvitund borgarbúa um fjármál borgarinnar er, þeim mun betra. En það var vissulega fullódýrt að nota það dæmi, þar sem Hofsvallagatan virðist kveikja næstum því jafnheitar tilfinningar og flugvöllurinn.
Skuldasöfnun
Dóri segir jafnframt ósanngjarnt af okkur að vera almennt að fetta fingur út í þessa skuldasöfnun meirihlutans, því hún stafi af láni til Orkuveitunnar. Það er ekki ósanngjarnt að horfa á skuldasöfnun borgarinnar í heild sinni, þar sem meirihlutinn hefur talað mikið um góðan árangur í málefnum Orkuveitunnar og því er eðlilegt að horfa til þess að þar hafi borgin lagt fyrirtækinu til lánsfé. Dóri orðar það reyndar þannig að peningarnir hafi þurft að fara í Orkuveituklúður sem sé „alfarið“ á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Við vitum ekki hvort að þarna hafi hann óafvitandi eða meðvitað langað til að hengja bakara fyrir smið. Í öllu falli er ástæða til að taka fram að R-listi vinstriflokkanna stjórnaði Orkuveitunni illa og bruðlaði með peninga í allt of dýrar höfuðstöðvar, fjarskiptaævintýri og fjáraustur í alls konar óskyldan rekstur ásamt því að gera fyrirtækið stórskuldugt með of háum arðgreiðslum. Sjálfstæðisflokkurinn ber sína ábyrgð á að hafa ekki horfið frá þeirri stefnu nógu hratt þegar hann náði völdum og sama má segja um 100 daga vinstrimeirihluta „Tjarnarkvartettsins“. Frá stofnun Orkuveitunnar var það því aðallega stefna frá vinstriflokkum að skuldsetja Orkuveituna upp í rjáfur. Hrunið gerði svo þær skuldir illviðráðanlegar. Um þetta allt má lesa í skýrslu úttektarnefndar um Orkuveituna sem kom út 2012. Það er auðvitað ekkert sérstaklega eftirsóknarverð pólitík að draga endalaust fram hvaða flokkur gerði hvað á hverjum tíma og fyrirgefa aldrei gamlar syndir, en það virðist stundum þurfa að minna á að þeir sem hafa stýrt borginni og öllum fyrirtækjum hennar meira og minna frá árinu 1994 eru aðrir en sjálfstæðismenn.
Fótósjoppuð hugmyndafræði?
Í endursögn Dóra af rökræðum okkar á milli á Twitter leggur hann út af orðum okkar eins og að við höfum verið að kalla meirihlutann trúða og kommúnista og hann sjálfan feitt svín sem ætti að fokka sér. Það þarf mjög einbeittan brotavilja til að snúa svo hressilega út úr því sem við vorum að segja en svo að það sé sagt þá lítum við ekki á neinn í meirihlutanum sem trúð, okkur þykir það að tala um kommúnista vera óttalega 1962 og „fokkaðu þér feita svín!“ sagði enginn, aldrei.
„Ef það er eitthvað sem Jón Gnarr og Besti flokkurinn hefur kennt okkur þá er það að einlægnin er ofar öllu,“ skrifar Dóri. Og vissulega skipta einlægni og heiðarleiki máli í pólitík. Borgarstjóra hefur einnig verið tíðrætt um að það sé ofbeldiskúltúr í pólitíkinni sem sé vert að uppræta. Það er því áhugavert að fylgismanni hans og þess stjórnmálaafls sem lagði áherslu á að bæta samtal og umtal og orðræðu og efla virðingu og heiðarleika og hvaðeina finnist það vera í anda þess að mæta pólitískum andstæðingum með slíkum fyrirframgefnum fordómum. Hver er munurinn á slíku gríni og að kalla borgarstjóra trúð?
Þegar Besti flokkurinn bauð fram fyrir fjórum árum töluðu frambjóðendur hans mikið um að þáverandi stjórnmálamenn væru óheiðarlegir og spilltir og það ætti að gefa þeim, „fávitunum“, frí. Þegar Jón Gnarr tilkynnti í haust að hann ætlaði að hætta í pólitík viðurkenndi hann að hann væri búinn að skipta um skoðun því hann teldi nú að stjórnmálamenn væru alla jafna bara að reyna að gera sitt besta. Það er rétt og rausnarlegt af honum að segja það. Öll skref sem stigin eru í átt að því að hægt sé að bera virðingu fyrir pólitískum andstæðingum þrátt fyrir að pólitískar áherslur stangist á eru nefnilega þakklát. Vonandi fer pólitíkin batnandi, en það er misskilningur að halda að tilgangur hennar sé ekki að takast á um mismunandi áherslur.
Álitið birtist í nýjasta Kjarnanum.