Ég leyfi mér að fullyrða byggt á aðgangi mínum á internetinu og ýmsum athugunum sem ég hef gert þar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur mikinn áhuga á skipulagsmálum. Það er vel, enda fátt sem hefur jafn afgerandi áhrif á lífsgæði okkar og hið byggða umhverfi og hvernig það er skipulagt. Það sem ég skil hinsvegar ekki og vil sem minnst fullyrða um er í hvaða átt forsætisráðherra ætlar með þennan áhuga sinn.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var undirrituð í maí 2013 var tónninn gefinn um að fegra hið manngerða umhverfi og vernda sögulegar minjar. Þar af leiðandi hefði ekki átt að koma neinum á óvart að frumvarp um verndarsvæði í byggð var samþykkt á síðasta þingi. Það sem kemur hins vegar verulega á óvart er hvernig forsætisráðherra kemst hjá því að svara réttmætum spurningum um hvernig hann og hans ráðuneyti er í stakk búið til þess að taka að sér það sérhæfða verkefni að meta hvaða svæði skulu vernduð, á hvaða forsendum og hvað sé fallegt manngert umhverfi svo fátt eitt sé nefnt. Einnig liggur ekkert fyrir um það hvernig þessi nýsamþykktu lög samræmast núgildandi skipulagsáætlunum, lögbundnum rétt almennings til að koma á framfæri athugasemdum og andmælarétti sveitarfélaga.
Mikil áhætta fyrir ríkissjóð
Til að mynda liggur nú fyrir skyndifriðun á uppbyggingarreit við hlið Tollhússins í Reykjavík sem Minjastofnun, á grundvelli laga um verndarsvæði í byggð, fór fram á fyrir rúmum mánuði síðan. Ekki liggur enn ljóst fyrir hver aðkoma forsætisráðherra var að málinu og hvort hann hyggist staðfesta skyndifriðunina eða ekki. Fram hefur komið í fjölmiðlum að lóðarhafar telja tjónið sem þeir hafa orðið fyrir af völdum þessarar skyndifriðunar nema um 2,2 milljörðum króna og hyggjast þeir sækja það tjón í ríkissjóð.Ég hef engar sérstakar forsendur til að meta hvort þessi tala sé rétt eða ekki, en það er ljóst að með ákvörðun sinni var Minjastofnun á ábyrgð forsætisráðherra að taka mjög stóra ákvörðun sem felur í sér mikla áhættu fyrir ríkissjóð.
Þar fyrir utan tefur þessi skyndifriðun allar framkvæmdir og vextir á fjármagni sem fara í þetta verkefni tikka eðli málsins samkvæmt á meðan. Þann 15. september sl. lagði undirrituð fram spurningu í sex liðum um aðkomu ráðherra á ákvörðun Minjastofnunar um þessa tilteknu skyndifriðun, bótaskyldu og fagþekkingu í ráðuneytinu á sviði minjaverndar og skipulagsmála. Nú, meira en mánuði síðar hafa enginn svör borist.
Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega félags- og húsnæðismálaráðherra, hafa lagt ríka áherslu á uppbyggingu fjölbreytts húsnæðis og fjölgun íbúða. Síðast í vor var blásið í lúðra til að liðka fyrir gerð kjarasaminga, 2300 félagslegum íbúðum var lofað, auk lækkunar á byggingarkostnaði og hækkunar húsnæðisbóta. Á sama tíma leggur forsætisráðherra fram frumvarp sem gengur þvert á skipulagsferli sveitarfélaga og inntak frumvarpsins vofir yfir mörgum áformum sem uppi eru um einmitt þessa sömu fjölgun íbúða. Ef við tökum þessa tilteknu skyndifriðun á hafnargarðinum út fyrir sviga, þá getur það ekki verið til þess gert að ýta undir framkvæmdir og né lækka byggingarkostnað að bæta við öðru lagi af ógagnsærri stjórnsýslu sem getur haft afgerandi áhrif á mögulega uppbyggingu og hraða framkvæmda.
Gengið lengra
Til viðbótar við þetta hefur forsætisráðherra boðað frumvarp um breytingar á lögum um menningarminjar sem fela í sér heimild ráðherra til eignaupptöku og enn ríkari heimildir til friðunar á stórum landsvæðum. Bæði þessi frumvörp ganga lengra en núgildandi lög og fela í sér íþyngjandi heimild ráðherrans í gegnum Minjastofnun til þess að hlutast til um skipulag í sveitarfélögum. Af einhverjum ástæðum þykir ráðherra enginn ástæða til að skýra það nánar, samanber skriflega fyrirspurn mín um mögulega friðun Vatnsmýrarinnar og eignarupptöku á landsvæði eða húsnæði á því svæði sem var lögð fram 22. september og er enn ósvarað.
Það er sjálfsagt að deila áhyggjum forsætisráðherra á því að viðkvæm byggð í miðborginni sé varðveitt og að turnabyggð eigi ekki heima á ákveðnum svæðum í Reykjavík. Einmitt af þessum sökum er söguleg og menningarlega verðmæt byggð í hjarta miðborgarinnar varin með margvíslegum hætti í aðalskipulagi Reykjavíkur og mikið lagt uppúr því að hlúa vel að henni og styrkja, t.d. með ákvæðum um að hæðir húsa skulu ekki fara yfir 6 hæðir í miðborginni. Hugsanlega þarf að efla slíka vernd enn frekar en slíkt þarf þá að gera að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld og uppbyggingaraðila.
Ótækt
Það er ótækt ef tilviljanakenndar ákvarðanir ráða því hvaða svæði byggjast upp og ljóst að óttinn við það að lenda í skyndifriðun eða eignaupptöku er nóg til að letja og tefja allt ferlið sem ráðherrar þessarar ríkistjórnar segjast vilja hraða og bæta.
Í stað þess að hamla uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, og þá sérstaklega í miðborg Reykjavíkur, væri nær að treysta því að skipulagsyfirvöld á hverjum stað hafi lært af mistökum fyrri ára og að samtal þeirra við uppbyggingaraðila einkennist af gæðakröfum um fallegt manngert umhverfi og að almannaheill sé tryggður.