Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum eru Íslendingar bestir í jafnrétti kynja. Við höfum staðið okkur best allra þegar saman er lagður árangur kvenna í stjórnmálum, þátttaka í atvinnulífinu, menntun, heilbrigðisþjónusta og efnahagslegur jöfnuður. Alþjóðaefnahagsráðið segir að Ísland, Finnland, Noregur og Svíþjóð, sem skipa næstu sæti þessa jafnréttislista, hafi náð að brúa rúmlega 80 prósent af kynjabilinu. Þessi ríki hafa líka tekið frumkvæði í mörgum málum sem ætlað er að bæta stöðu kvenna. Þetta skiptir ekki bara máli í þessum ríkjum heldur hafa aðgerðir þeirra orðið öðrum ríkjum fyrirmynd og hvatning.
Á ráðstefnunni Nordiskt forum í síðustu viku var augljóst að hróður Norðurlandaríkjanna hefur borist víða. Fólk annars staðar frá í heiminum var sérstaklega duglegt við að benda á árangurinn sem náðst hefur á undanförnum árum. Það var góð og holl áminning og brýning, vegna þess að það getur verið svo auðvelt að gleyma því sem vel er gert og einblína á það sem er eftir. Með því að horfa til baka á allt sem þó hefur verið gert er auðveldara að vera bjartsýnn á að restin geti breyst. Bjartsýnin er nauðsynleg í hvers kyns réttindabaráttu ef ætlunin er að halda fólki við efnið.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/4[/embed]
Því hvað sem hver segir hefur jafnrétti ekki verið náð á Íslandi frekar en annars staðar. Tölfræði um kynbundið ofbeldi og kynbundinn launamun sýnir það svart á hvítu. Sem dæmi fengum við í síðasta mánuði innsýn í líf konu sem er ofsótt af ofbeldisfullum fyrrverandi maka sínum án þess að brugðist hafi verið almennilega við því. Það er ekkert einsdæmi. Hún, fjölskyldan hennar og samfélagið í kringum hana hafa því þurft að lifa í ótta við þennan eina ofbeldismann. Lagasetning er nefnilega ekki nóg, hugur verður að fylgja máli.
Líklega er það merki um það hversu langt við höfum náð að margir hugsa ekkert um jafnréttismál dags daglega og sjá ekki misrétti jafnvel þótt það blasi við þeim. Forréttindin eru ósýnileg þeim sem hefur þau. Og af þessu sprettur sú umræða að nú sé nóg komið, íslenskir femínistar hafi gengið nógu langt og réttindi sem nú sé barist fyrir snúist um yfirráð kvenna en ekki jafnrétti. Þessi umræða hefur alltaf verið til og hún færist bara til eftir því sem baráttan teygir sig lengra. Það er mjög auðvelt að hrópa öfgar án þess að kynna sér raunverulega hina hliðina á teningnum.
Allt sem hefur verið gert hingað til er nefnilega ekki nóg. Rúmlega 80 prósenta jafnrétti er ekki nóg. Jafnréttasta ríki heims má ekki sætta sig við það og slaka á, heldur þarf að herða róðurinn og halda áfram að vera leiðandi. Rétt eins og með önnur réttindi eru þessi ekki sjálfsögð og óhagganleg. Það verður að standa vörð um þau og fara lengra með þau.
Til þess að ná lengra þarf að virkja fleira fólk, ekki síst karla. Sem betur fer veita sífellt fleiri karlar þessum málstað athygli og vita að aukið jafnrétti gagnast þeim líka. Þeir eru eitt mikilvægasta vopnið í þessari baráttu.
Aukið kynjajafnrétti er líka nátengt annars konar réttindabaráttu og getur verið mikilvæg hjálparhella í baráttunni fyrir mannréttindum minnihlutahópa. Kvenréttindi og hinsegin réttindi hafa lengi verið samofin og í Evrópu eru femínistar meðal öflugustu baráttumanna gegn rasisma og fasisma. Það geta Íslendingar haft í huga í umræðum sínum þessa dagana. Svarið við misrétti er nefnilega alltaf aukið jafnrétti, það er svo einfalt.
Leiðarinn birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.