Ég skrifaði bókina um Hans Jónatan, manninn sem stal sjálfum, sér fyrir áratug eða svo. Þetta er saga af leysingja sem kom til Íslands árið 1802, gerðist verslunarmaður og bóndi á Djúpavogi, kvæntist og eignaðist tvö börn. Afkomendur hans eru nú um eitt þúsund. Skjöl úr þrælaheimi Dana sögðu Hans Jónatan „múlatta“, móðirin var vestur-afrísk ambátt en faðirinn líklega danskur. Á tuttugustu öld var stundum talað um Hans Jónatan sem „svarta manninn“ og Djúpivogur stundum kallaður „Litla Kongó“.
Þegar bók mín kom út vakti það hins vegar sérstaklega athygli að samborgarar Hans Jónatans, fyrsta mannsins af afrískum ættum sem settist að á Íslandi, að því er best er vitað, höfðu engan áhuga á hörundslit hans. Virtust ekki taka eftir litnum en manneskjan var vel metinn þegn.
Á einhverju stigi bókarritunar hafði ég stuttlega fjallað um „kynþáttahyggju“ sem „einkenndist af því að hörundslitur yfirskyggði allt annað“. „Fólk væri múlattar, litaðir eða negrar – og ekkert meir. Samfélagið sæi þá ævinlega sem slíka og það endurspeglaðist í öllum viðbrögðum hvítra, hvað sem fólk annars tæki sér fyrir hendur, eins og hörund þeirra sem ekki voru hvítir væri einn allsherjar fæðingarblettur sem vonlaust væri að losna við.“ Svo bætti ég við: „Þetta er viðhorfið sem hefur verið kallað „svartur undir stýri“, „driving while Black“.“
Augljóslega sótti ég í smiðju fræðimanna og -kvenna sem höfðu verið að fjalla um fyrirbærið kynþáttahyggju og, ekki síður, horft til fregna frá Bandaríkjunum og víðar þar sem saklausir blökkumenn urðu fyrir barðinu á lögreglumönnum sem „voru bara að vinna vinnuna sína“, eins og það hét. Með semingi fjarlægði ég tilvísunina í „svarta undir stýri“ úr handritinu, kannski væri seilst of langt í bók um blökkumann sem settist að á Íslandi árið 1802.
Nú er öldin önnur. Undanfarna daga hefur mér og mörgum öðrum orðið ljóst að í vaxandi mæli hvílir hörundslitur eins og mara yfir hugskotum okkar þegar við ræðum um fjölmenningu, innflytjendur, löggæslu og samskipti lögreglu og þegnanna. Þetta er kallað „racial profiling“ á sumum erlendum málum. Við erum enn að átta okkur á hvað þetta merkir og af hverju það er á dagskrá, en við þurfum sannarlega að leita að nýju tungutaki sem tekur á fyrirbærinu, rétt eins og við höfum tamið okkur ný orð á öðrum sviðum jafnréttismála.
Lögreglan hefur hundelt ungan dreng í Reykjavík vegna hörundslitar hans, ruðst inn í strætisvagn og bakarí eftir ábendingar (byggðar á hörundslit og hárgreiðslu), í vissu þess að þar sé á ferð afbrotamaður sem leitað er að. „Hlaut lögreglan ekki að bregðast við með þessum hætti?“ hafa margir sagt. Nú fer vart á milli mála að lögreglan var EKKI að vinna vinnuna sína, sýndi ekki nærgætni, hrökk bara í gang af því að það var „svartur maður undir stýri“.
Mikilvægt er að við nálgumst rót vandans sem kynþáttahyggjan felur í sér. Við þurfum að smíða ný hugtök á íslensku, vissulega geta þau verið þung undir tönn í fyrstu en þau ættu að venjast í heiðarlegri og opinskárri umræðu. Ein góð tillaga í þessa veru er nýyrðið „kynþáttamörkun“, sem minnir á markalínur, merki og markaskrár. Almenningur og lögregluyfirvöld þurfa að gera sér grein fyrir alvöru kynþáttafordómum þar sem hörundslitur yfirskyggir allt annað og haga störfum sínum eftir því. Lögum samkvæmt, og samvisku okkar vegna, eigum við að vera jöfn. Markaskrá lýðveldisins á ekki að helgast af svörtu og hvítu.
Höfundur er prófessor emeritus í mannfræði.