Þegar Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningamálaráðherra, lagði fram frumvarp um lög um fjölmiðla árið 2011 var skýrt hvert eitt meginstefið í þeirri lagasetningu átti að vera. Gagnsæi ætti að ríkja um eignarhald á fjölmiðlum. Þetta átti að nást fram með því að öllum fjölmiðlum væri gert skylt að senda fjölmiðlanefnd, ríkisstofnun sem sett var á fót til að framfylgja lögunum, upplýsingar um endanlegt eignarhald. Ástæða þessa var meðal annars sú að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komu fram ábendingar um að slíkt væri nauðsynlegt til að styrkja stöðu fjölmiðla gangvart misnotkun eigenda sinna.
að þá væri ekki hægt að fela fyrir neytendum með neinum hætti hvaða einstaklingar stæðu á bakvið lúxembúrgíska einkahlutafélagaskóginn sem skráður var fyrir hverju fyrirtæki fyrir sig. Þá gætu neytendur að minnsta kosti lesið miðlanna með þeim gleraugum.
Dæmi um að eigendur með ríka hagsmuni af því hvernig fréttir af þeim eru sagðar skipti sér með handafli af fréttavinnslu eru fjölmörg. Tilgangur þess hluta laganna, að kalla eftir upplýsingum um endanlegt eignarhald, var meðal annars sá að þá væri ekki hægt að fela fyrir neytendum með neinum hætti hvaða einstaklingar stæðu á bakvið lúxembúrgíska einkahlutafélagaskóginn sem skráður var fyrir hverju fyrirtæki fyrir sig. Þá gætu neytendur að minnsta kosti lesið miðlanna með þeim gleraugum.
Í endanlegu lögunum stendur að veita eigi upplýsingar svo „rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar“.
Þetta var gott ákvæði, svo lengi sem það entist.
Þurfa ekki að upplýsa um endanlega eigendur
Nú hefur fjölmiðlanefnd nefnilega ákveðið að ekki þurfi að upplýsa um endanlega eigendur fjölmiðla. Um miðjan nóvember komst hún að þeirri niðurstöðu að 365 miðlar þurfi ekki að upplýsa hverjir eigi sjóð sem á 18,6 prósent hlut í þessu stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Ástæðan er sú að lögmaður 365 miðla, sem hefur reyndar líka verið stjórnarmaður í félaginu um árabil, sendi þeim bréf og sagði að starfsmenn fjármálafyrirtækis sem héldi utan um sjóðinn héldu á meirihluta atkvæðisréttar í sjóðnum og því væru yfirráð yfir honum þar, en ekki hjá eigendunum.
Fjölmiðlanefnd, sem í sitja m.a. reynslumiklir hæstaréttarlögmenn og fyrrum formaður Blaðamannafélags Íslands, félst á þessi rök lögmannsins. 365 miðlar þurfa því ekki, einn fjölmiðla landsins, að upplýsa um hverjir séu endanlegir eigendur félagsins.
Fordæmi fyrir feluleik
Þegar fjölmiðlanefnd var sett á laggirnar var ákveðið að hún væri svo ofboðslega sjálfstæð eining að það væri ekki hægt að skjóta ákvörðunum hennar til annarra stjórnvalda. Þar af leiðandi er þessi ákvörðun nefndarinnar, að heimila sjóði í eigu einhverra að eiga fimmtung í fjölmiðlafyrirtæki, endanleg.
Með því hefur skapast fordæmi fyrir þá sem vilja fela eignarhald sitt á fjölmiðlum. Þeir sem vilja gera slíkt geyma eignarhlutinn sem vilji er til að fela einfaldlega inni í sjóði sem er í stýringu fjármálafyrirtækis. Með því er heldur betur hægt að leyna því sem viðkomandi vill varðandi eignarhald og áhrif yfir fjölmiðlafyrirtækjum.
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð mikinn tilgang með tilveru fjölmiðlanefndar og mér hefur ekki fundist tilurð hennar bæta fjölmiðlalandslagið á Íslandi neitt, utan þess að lögin sem hún starfar eftir virtust útiloka feluleik með eignarhald. Nú er ljóst að sú túlkun mín er á skjön við túlkun nefndarinnar.
Því er fjölmiðlanefnd fyrir mér orðin með öllu óþörf og vert að skoða hvort ekki eigi að leggja hana niður til að spara ríkissjóði þær tæpu 40 milljónir króna sem fara í að reka hana árlega.