„Um alla Evrópu hafa lýðræðissinnar og mannréttindasinnar verið að endurskoða afstöðu sína til varnarmála og þjóðirnar hafa þétt raðirnar …“ skrifar Guðmundur Andri Thorsson fyrrverandi alþingismaður í kátlegri grein í Kjarnanum.
Á meðan „lýðræðissinnar og mannréttindasinnar“ voru að þétta raðirnar, hélt stríð í Úkraínu áfram; Rússar lögðu byggðir í rúst og drápu fólk. Nató sendi vopn af margri gerð þangað austur fyrir fólkið að verja sig og drepa Rússa. Morgunblaðið flutti fréttir frá vígstöðvunum á bls 11 þann 29.06.´22. Þar segir að átökin séu engu líkari en „tilraunasvæði fyrir vopn - Stríðandi fylkingar notast við fjölbreytta flóru vopna á átakasvæðum Úkraínu - Allt frá hátæknivopnum yfir í ónákvæmar sprengjur - Bandarískur árásardróni hefur nú vakið athygli Frakklands“.
Sum sé: Stríðið í Úkraínu er markaðstorg vopnaframleiðenda.
Og meðan hershöfðingjar Nató veltu vöngum yfir gæðum vopna sinna og annarra, keyptu þetta og seldu hitt, funduðu stjórnmálamennirnir þeirra í Madrid á Spáni. Þeir sömdu við Tyrklandsforseta. Hann galt jáyrði við því að Svíþjóð og Finnland fengju að ganga í Nató gegn því að hann fengi senda til Tyrklands þrjátíu og þrjá kúrdíska flóttamenn sem búið hafa, og búa, í Svíþjóð og Finnlandi. Og „lýðræðissinnar og mannréttindasinnar“ frá Norðurlöndum sögðu já, já. Þeir eru að þétta raðirnar.
Vefmiðillinn frettabladid.is skýrir þetta nánar og segir að löndin tvö muni skilgreina kúrdíska stjórnmálaflokkinn PKK sem hryðjuverkasamtök og taka til greina framsalsbeiðnir Tyrkja um grunaða hryðjuverkamenn á sænskri og finnskri grundu. Þá verði vopnasölubanni til Tyrkja aflétt og strangari hryðjuverkalöggjöf komið á í báðum löndunum.
Þið eruð að þétta raðirnar „lýðræðissinnar og mannréttindasinnar“, Guðmundur.
Framsal á 33 Kúrdum til lífláts í Nató-ríkinu Tyrklandi. Þið eruð að þétta raðirnar!
Höfundur er rithöfundur.