Dóri DNA skrifaði pistil sem birtist í Kjarnanum 4. desember, þar sem hann á hófsaman og yfirvegaðan hátt greindi helstu vandamál íslensks samfélags og setti fram raunhæfar lausnir.
Eða þannig. Í pistli sínum virðist Dóra takast að hrauna yfir flestar stéttir Íslendinga. Lopapeysulið, gervalla landsbyggðina, hippa, alla sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri og alla sem hafa nokkurntíman komið nálægt „fjórflokknum“ svokallaða. Sérstaka andúð hefur hann auðvitað á síðastnefnda hópnum, og gengur lengra í þeim efnum en ég hef séð nokkurn ganga, fyrir utan kannski einhverja í allra myrkustu skúmaskotum kommentakerfanna. Dóri vill nefnilega að Ísland taki fasísk einræðisríki sér til fyrirmyndar og banni hina og þessa stjórnmálaflokka. Og ekki nóg með það, heldur leggur hann til að öllum þeim sem hafa nokkurntíman starfað í þágu þessara flokka verði bannað að koma nálægt stjórnmálum aftur.
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson,
Varaformaður Ungra jafnaðarmanna.
Nú hef ég starfað í ungliðahreyfingu eins þessara flokka sem Dóri setur undir hatt fjórflokksins. Þar hef ég starfað vegna þess að hugmyndafræði flokksins hugnast mér og samræmist þeim lífsgildum sem ég vil að verði höfð að leiðarljósi þegar við ákveðum í hvernig samfélagi við viljum búa (því það er jú það sem stjórnmál snúast um).
En þar sem ég hef starfað í stjórnmálaflokki þá er ég líklegast nú þegar afskrifaður. Ég hlýt, skv. viðhorfi Dóra, að hafa farið í stjórnmál vegna skítlegs innrætis míns, af viljanum einum saman að skara eld að eigin köku og hlæja Jafar-legum illmennishlátri meðan ég skála í kampavíni í spillingarfestivalinu sem stjórnmálin greinilega eru. Best að banna mig og allar þær þúsundir sem hafa starfað í grasrót þessara fjögurra flokka vegna þess að við trúum því ekki að félagshyggja eða frjálshyggja eða umhverfisstefna eða femínismi eða róttæk rökhyggja (ok, ég veit reyndar ekkert hvað það síðastnefnda merkir) sé úrelt eða ómarktæk hugmyndafræði. Um þessa hugmyndafræði snúast stjórnmálaflokkarnir og allstaðar í heiminum þar sem einhverskonar frjálst lýðræði er við lýði, hefur fólk sem hefur áhuga á að hafa áhrif á samfélagið sitt, bundist félagsskap byggðum á ákveðinni hugmyndafræði og kallað það stjórnmálaflokk.
Ég geri mér grein fyrir (eða vona allavega) að pistill Dóra er skrifaður í þessum skrautlega stíl til að auka afþreyingargildi hans.
Ég geri mér grein fyrir (eða vona allavega) að pistill Dóra er skrifaður í þessum skrautlega stíl til að auka afþreyingargildi hans. En alvarlega staðan í samfélaginu sem Dóri talar ekki um, er sú að ungt fólk er í auknum mæli hætt að mæta á kjörstað og traust og tolerans fólks gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum þess er nánast á núllpunkti. Það sem þarf er uppbyggilega og yfirvegaða umræðu um stjórnmál. Gagnrýnin hugsun, en ekki gengdarlaus gagnrýni. Það er ekki hægt í sömu grein að kvarta undan óþoli stjórnmálamanna og boða um leið algjört óþol gagnvart stjórnmálamönnum. Blammeringar og gífuryrði líkt og Dóri DNA viðhefur í grein sinni vil ég því meina að séu mun hættulegri lýðræðinu heldur en fjórflokkurinn.