Í kjölfar þess að fjárlagafrumvarpið var lagt fram hafa spunnist umræður um verðbreytingar og áhrif þeirra á mismunandi tekjuhópa. Til að stuðla að upplýstri umræðu er tilvalið að varpa ljósi á hvernig Meniganotendur verja tekjum sínum eftir tekjufjórðungum.
Þegar við lítum til meðaltalsráðstöfunartekna þeirra sést að þær eru kr. 395.944 á mánuði sem er um 10% hærra en meðalheildarlaun 2013 samkvæmt Hagstofunni*.
Meðalráðstöfunartekjur lægsta fjórðungsins eru kr. 170.792 á mánuði, þess næstlægsta eru kr. 292.537, þess næsthæsta fjórðungs eru kr. 407.076 og meðalráðstöfunartekjur tekjuhæsta fjórðungsins eru kr. 699.782 á mánuði.
Tekjulægsti fjórðungurinn ver tæpum 24% tekna sinna í matvöruverslunum á meðan sá tekjuhæsti ver tæpum 11% tekna sinna þar. Þá ver tekjulægsti fjórðungurinn 11% í eldsneyti og sá tekjuhæsti tæpum 6%. Á myndinni hér meðfylgjandi má sjá hlutfall tekna sem varið er til ýmissa nota eftir tekjufjórðungum.
Tekjuhæsti hópurinn ver að jafnaði tæpum kr 204.000 til kaupa í þessum tíu flokkum á meðan sá tekjulægsti ver tæpum kr.114.000. Það segir þó ekki alla söguna, því þegar tekjulægsti hópurinn hefur greitt þessa neyslu sína á hann tæpar kr. 57.000 aflögu til annarra nota á meðan sá tekjuhæsti ræður yfir rúmum kr. 496.000.
Um úrtakið:
Um 40.000 Íslendingar eru skráðir í Meniga. Úrtakið nær til 12.683 Meniganotenda sem voru valdir með áreiðanleikaprófunum færsluupplýsinga. Samtölur úrtaksins hafa verið bornar saman við opinberar tölur um þróun neyslu. Úrtakið telst því hæft til greiningar á tekjum og útgjaldahegðun. Notast er við gögn sem ná yfir allt árið 2013. Meðaltalsútreikningar eru miðaðir við einstaklinga en ekki fjölskyldur.
*Ráðstöfunartekjur eru laun, barnabætur, meðlög, styrkir, fæðingarorlofsgreiðslur, lífeyrisgreiðslur, húsaleigubætur og námslán, eftir skatta og gjöld.
**Samkvæmt Hagstofunni voru heildarlaun á Íslandi að meðaltali 526.000 á mánuði árið 2013, eða um 358.000 eftir skatta. Meðalráðstöfunartekjur Meniganotenda eru um 10% hærri þar sem fleiri tekjuþættir eru teknir með í reikninginn.
Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi við Stofnun um fjármálalæsi. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og er heildarfjöldi notenda um 40.000. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Nánari upplýsingar má finna á www.meniga.is og www.fe.is.