Nú er hafinn síðari hálfleikur kjörtímabilsins og því orðið tímabært að tromma upp eitt þvældasta en langlífasta þrætumál Íslendinga, afnám verðtryggingar, svo það nái nægilegum hita til að skipta máli þegar kosið verður vorið 2017.
Þetta er kunnuglegur samkvæmisleikur, enda var afnám verðtryggingar eitt helsta loforð annars stjórnarflokksins fyrir síðustu þingkosningar. Þann 22. apríl 2013 skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nú forsætisráðherra en þá verðandi sigurvegari þingkosninga sem fram fóru fimm dögum síðar, pistill á bloggsíðu sína. Fyrirsögn hans var „Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn“. Þar sagði hann að staðan væri ekki flókin. Ljóst yrði að næsta ríkisstjórn yrði annað hvort um áherslur Framsóknarflokksins eða að það yrði mynduð ríkisstjórn gegn þeim. „Annað hvort verður mynduð ríkisstjórn um skuldaleiðréttingu, afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi eða ríkisstjórn þeirra sem telja í lagi að láta vogunarsjóði ákveða hvenær Ísland brýst úr viðjum skulda og hafta, ríkisstjórn sem telur ekki rétt að nýta einstakt tækifæri til að koma til móts við skuldsett heimili, ríkisstjórn um óbreytt fjármálakerfi, ríkisstjórn um verðtryggingu“.
Er fjármálakerfið heilbrigt?
Og það var vissulega ráðist í skuldaleiðréttingu. Sumir Íslendingar eru meira að segja mjög ánægðir með hana. Hinir, sem annað hvort fengu ekkert, fengu miklu minna en þeir töldu sig hafa fengið vilyrði fyrir eða finnst það bara hreint út sagt galið að gefa 80 milljarða króna með tilviljanakenndum hætti úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar í stað þess að nota þá peninga í samneyslu, eru hins vegar ekkert sérstaklega sáttir. Það er allavega svo að skuldaleiðréttingin hefur ekki skilað stjórnarflokkunum fylgisaukningu.
Og það er verið að hrinda í framkvæmd áætlun um losun hafta sem á að lækka skuldir Íslendinga og hjálpa til við að losa um höft. Það má hins vegar segja að vogunarsjóðirnir illræmdu séu að fá að koma nokkuð mikið að ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti „Ísland brýst úr viðjum skulda og hafta“. Sem er reyndar hið besta mál, enda mun betra að semja um góða lausn og skaðleysi en að leggja einhliða á skatt sem gæti túlkast sem eignaupptaka og eiga á hættu á málaferlum fyrir dómstólum sem myndu tefja losun hafta.
Hin atriðin sem Sigmundur Davíð taldi upp að ríkisstjórn hans yrði mynduð um: „afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi“, hafa augljóslega ekki gengið eftir. Þeir viðskiptahættir sem endurreistir íslenskir bankar stunda, til dæmis þegar þeir eru að losa um eignir sem þeim áskotnuðust eftir hrunið, hafa ekki þótt bera yfirbragð heilbrigðis. Nægir þar að nefna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun og sala Arion banka á hlut í Símanum á lágu verði í aðdraganda útboðs. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði til dæmis nýverið að síðarnefnda salan væri klúður og að það væri engin þolinmæði fyrir slíku í þjóðfélaginu.
Frasa-umræðan hefst á ný
Og þá stendur eftir afnám verðtryggingar. Hún var pólitískur frasi síðustu kosningar. Og svínvirkaði. Það kom skýrt fram í stefnuskrá Framsóknarflokksins þá að flokkurinn ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Undir þeim lið sagði m.a.: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána". Það hefur ekki verið gert.
Þar sagði líka að skipa ætti starfshóp til að undirbúa afnám verðtryggingar. Hann var skipaður en komst að þeirri niðurstöðu 2014 að það ætti ekkert að afnema verðtryggingu.
Bjarni Benediktsson sagði síðan skýrt og skorinort í apríl síðastliðnum að það standi alls ekki til að afnema verðtryggingu. Þó væri unnið að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og mögulegt er að það verði lagt fram á haustþingi. Þær breytingar áttu að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum og fara með þau niður í 25 ár. Það frumvarp er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi vetur.
Það sem hefur hins vegar gerst á þessu kjörtímabili er að íslenskir húsnæðislántakendur hafa haldið áfram að taka verðtryggð lán. Ástæðan er sú að verðbólga hefur verið lág í um 20 mánuði og ansi margt íslenskt launafólk ræður ekki við að greiða af öðruvísi húsnæðislánum en verðtryggðum, þar sem mánaðarlegar afborganir eru mun lægri.
Nú er undirbúningur fyrir næstu kosningar þó kominn á fullt og því er umræða um afnám verðtryggingar hafin á ný. Stjórnarandstaðan er byrjuð að krefja forsætisráðherra svara um fyrirhugað afnám á meðan að þingmenn Framsóknarflokksins eru farnir að tala upp nauðsyn aðgerðarinnar eins og þeir séu ekki í aðstöðu til að framkvæma hana. Á liðnum mánuði hefur Sigmundur Davíð farið í viðtal á Útvarpi Sögu þar sem hann sagði að ríkisstjórnin ætlaði að afnema verðtryggingu. Willum Þór Þórsson sagði í útvarpsþætti skömmu síðar að ef ríkisstjórnin færi ekki að koma þessu máli á dagskrá þá yrðu þingmenn að taka málið upp. Þann 6. október flutti Elsa Lára Arnardóttir ræðu í þinginu þar sem hún hvatti til þess að verðtryggingin yrði „tekin úr sambandi“.
Hvað felst í afnámi verðtryggingar?
Afnám verðtryggingar er teygjanlegt hugtak þegar það er notað í pólitískum tilgangi. Sigmundur Davíð útskýrði það svona í bloggfærslu sem hann skrifaði 15. mars 2013: „Afnámið verður að framkvæma þannig að fólk með verðtryggð lán geti skipt yfir í óverðtryggð, lántakendum bjóðist stöðugir vextir, áhætta skiptist milli lánveitenda og lántaka þannig að áættunni sé skipt eðlilega.“ Þetta sagði Sigmundur Davíð að væri einfalt.
Samkvæmt skýringu forsætisráðherra á því ekki að afnema verðtryggingu afturvirkt, enda er það ekki hægt. Ef við lítum framhjá því að Bjarni Benediktsson, hitt höfuð ríkisstjórnarinnar, hefur sagt að verðtrygging verði ekki afnumin, og einbeitum okkur að því hvernig slík aðgerð ætti að fara fram þá virðast nokkrar leiðir blasa við.
Í fyrsta lagi væri hægt að banna ný verðtryggð húsnæðislán með þeim hætti að einungis verði í boði óverðtryggð lán. Í ljósi þess að það er nokkurs konar neyðarástand á íslenskum húsnæðismarkaði um þessar mundir, þar sem ansi stór hluti þjóðarinnar er í vandræðum með að eignast húsnæði og standa undir afborgunum lána, myndi sú aðgerð auka enn á þann ójöfnuð. Þ.e. færri myndu geta tekið húsnæðislán en gera það í dag enda afborganir af óvertryggðum lánum mun hærri en af verðtryggðum.
Í öðru lagi gæti ríkið sett lög þar sem allar fjármálastofnanir yrðu skikkaðar til að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Þar sem allt að 70 prósent allra húsnæðislána á Íslandi eru verðtryggð þá myndi það leiða til þess að þorri Íslendinga færi að borga meira á mánuði í afborganir. Ljóst er að ansi margir Íslendingar ráða ekki við það. Auk þess er skuldabréfaútgáfan sem fjármagnað hefur þorra verðtryggðu lánanna sem veitt hafa verið verðtryggð. Lánastofnanir þyrftu áfram að borga af þeim verðtryggðu skuldum, sem eru að mestu við íslenska lífeyrissjóði.
Í þriðja lagi gæti ríkið ætlað sér að niðurgreiða óverðtryggð húsnæðislán þannig að íslensk heimili hafi efni á þeim. Þ.e. að vextir verði ekki ákvarðaðir á markaði heldur með pólitískum ákvörðunum. Ríkið er sannarlega í aðstöðu til þess sem eigandi Íbúðalánasjóðs, Landsbankans, líklega Íslandsbanka og 13 prósent hlutar í Arion banka. Það myndi þá þýða að þegar slakur undirliggjandi rekstur íslensku viðskiptabankanna myndi verða lakari og sú arðsemi sem ríkið gæti haft af bönkunum eða sölu þeirra myndi lækka eða hverfa. Þess í stað myndi sá arður millifærast til þeirra sem skulda. Þá myndi borga sig að skulda mikið. Því einungis þeir sem skulduðu myndu njóta þessarar milifærslu.
Erum ekki að horfa á rétt vandamál
Í þessari verðtryggingarumræðu verður að taka fram að sögulega þá hafa raunvaxtakjör á verðtryggðum lánum verið hagstæðari en á óverðtyggðum lánum. Eignamyndun í húsnæði hefur aftur á móti verið hægari. Á síðustu árum hefur hins vegar margborgað sig að vera með verðtryggt lán. Frá því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu náði eftirhrunsbotni sínum í febrúar 2010 hefur það hækkað um 43,4 prósent. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkað um 19 prósent. Fasteignaverð hefur því hækkað margfalt umfram verðbólgu.
Allt þetta breytir því ekki að Íslendingar borga svívirðilega vexti af húsnæðislánum sínum. Það skiptir engu máli hvort lánin eru verðtryggð eða óverðtryggð, svimandi hátt vaxtastig Seðlabankans gerir það alltaf að verkum að lánakjör íslensks almennings eru miklu verri en þau kjör sem bjóðast annars staðar. Á meðan að breytilegir óverðtryggðir vextir í Noregi eru 2,15 prósent eru lægstu óverðtryggðu vextir sem bjóðast hér um sjö prósent.
Og umræða um afnám verðtryggingar, með allskyns krúsídúllu-leiðum sem fela í sér millifærslur úr sameiginlegum sjóðum eða notkun á pólitísku valdi til að knýja fram ósjálfbærni í rekstri lánafyrirtækja, er ekkert annað en hávaði til að beina sjónum almennings að vandamáli sem skapast vegna vandamáls í stað þess að horfa á vandamálið sjálft.
Vegna þess að það vandamál heitir íslenska krónan. En það hentar ekki öllum að tala um það.