„Sjúkdómurinn Alzheimer eða elliglöp er eins og löng kveðjustund. Já við erum mörg sem eigum eða höfum átt einhverja nána ættingja sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessum sjúkdómi. Læknir einn lýsti því sem hraðminnkandi heila. Ég óska engum þess að fá elliglöp eða Alzheimer. Þegar heili fólks hrörnar hægt og rólega, breytist það bæði andlega og líkamlega og gleymir að lokum hverjir ástvinir þeirra eru. Að endingu getur sjuklingurinn orðið rúmfastur, getur ekki hreyft sig, borðað eða drukkið.“
Ofangreindur texti fer nú hraðförum um Facebook-síðuna mína og vafalaust fleira fólks. Honum er deilt af velmeinandi fólki sem vill vekja athygli á alvarleika málsins.
En nemum aðeins staðar. Er þetta hjálplegur texti fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra?
Við erum að tala um sjúkdómsferli þar sem mörg ár líða oftast frá greiningu til andláts – stundum meir en tíu ár. Eiga þau ár að vera „löng kveðjustund“? Hvernig fer tíu ára kveðjustund fram?
Í þessum texta er ekki stakt orð um allt það sem hægt er að gera til að þessi tími geti verið gefandi, þroskandi, ástríkur... Ekki orð um að neitt sé hægt að gera, annað en bíða og kveðja sinn nána aðstandanda daglega.
Vissulega er Alzheimer’s sjúkdómur (og margir aðrir heilbabilunarsjúkdómar) þess eðlis að hann versnar jafnt og þétt yfir tíma. En svo er um marga aðra sjúkdóma án þess að læknavísindin tali um þá sem „langa kveðjustund“.
Hugsum okkur t.d. meðfædda taugahrörnunarsjúkdóma. Börn sem svo er ástatt um fer aftur jafnt og þétt og deyja ung. Myndi einhver ráðleggja foreldrum þeirra að líta á ástandið með þessum hætti? Myndu foreldrar þessarra barna sætta sig við að lífi barnanna þeirra væri lýst með þessum hætti? Ég held ekki. Ég held að netheimar myndu fyllast fordæmingu á slíkri orðræðu – og undir þá fordæmingu myndu m.a. taka þeir velmeinandi einstaklingar sem nú eru að pósta textanum hér að ofan.
Ég tek fram að ég er ekki að skrifa til að gagnrýna það fólk. Ég vil vekja athygli á hvar þekking og viðhorf samfélags okkar er statt varðandi fólk með heilabilun. Að við höldum að þessir sjúkdómar séu með einhverjum hætti markaðir dauðanum frá greiningu og séu í raun og veru aðeins bið eftir dauðanum. Ansi löng bið og biðtími sem sem betur fer má nota í margt annað.
Þessi texti er hræðsluáróður. Texti af þessu tagi varð ekki til í því skyni að hræða fólk eða valda því óhamingju. Þessi viðhorf urðu til þegar byrjað var að skilgreina elliglöp sem sérstakan sjúkdóm. Þau voru þá (ég er að tala um árin upp úr 1970) talin vænleg til að 1) afla fjár til rannsókna og leit að lækningu sem læknavísindin voru vongóð um að myndi finnast innan skamms 2) eyða öldrunarfordómum sem jafnan tengdust elliglöpum.
Hvorugt gekk eftir. Lækningin er enn ófundin þrátt fyrir glaðbeittar yfirlýsingar um nýjar uppgötvanir sem reglulega birtast og til eru jafnvel vísindamenn á sviðinu sem efast um að Alzheimer’s greiningin sé alveg raunhæf og vilja meina að mikið af þessu ástandi sem nú hlýtur það heiti sé – öldrun heilans eða það sem nefna má elliglöp. Látum þó þau fræðilegu álitamál liggja milli hluta. Það skiptir nefnilega ekki öllu máli hvað ástandið heitir heldur hvaða viðhorf við – einstaklingar og samfélag – höfum til þess og til þeirra sem fyrir því verða.
Fyrir mörgum árum var ég stödd í útskriftarveislu. Þar var einnig afi þess sem áfanganum hafði náð, heiðursmaður á níræðisaldri. Hann hafði verið greindur með heilabilun nokkru áður, nógu löngu til að flestir vissu af því. Allir heilsuðu honum og spurðu hvað hann segði gott – en svo talaði enginn meir við hann. Ég settist hjá honum og fór að spjalla við hann, því við þekktumst ágætlega. Hann sagði mér margt úr æsku sinni og uppvexti og var aldeilis ekki á gati um hvernig hagaði til á heimaslóðum hans. Það var svo gaman hjá okkur að maðurinn minn varð afbrýðisamur!
Ég segi ekki frá þessu til að upphefja sjálfa mig. Ég gat gert þetta vegna þess að ég hafði aflað mér þekkingar á heilabilunarsjúkdómum, þekkingar sem gekk gegn viðhorfi stimplunar og fordóma.
Það skal strax tekið fram að það er ekkert beinlínis rangt sem sagt er í þessum texta. Alzheimer’s sjúkdómur eða elliglöp eða heilabilunarsjúkdómar almennt er alvarlegt ástand sem reynir á alla sem hann snertir. Áður en greining fæst hefur venjulega farið langt tímabil sem einkennist af kvíða og áhyggjum. Lítið hefur verið horft til þess hvernig einstaklingnum sem er að veikjast líður og er það í samræmi við fordómana sem fylgja heilabilun, þeir einstaklingar eru einhvern veginn ekki taldir með eftir greiningu heldur er öll áherslan á aðstandendur (þeir eru jú ekki með heilabilun heldur eins og við hin). En það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á hvað það hefur í för með sér að finna vitræna getu vera að bregðast manni í vaxandi mæli, nokkuð sem margir reyna eftir fremsta megni að leyna, meðal annars í von um að ef maður ekki hefur orð á vandanum muni hann mögulega hverfa. Þrátt fyrir þetta eru engin tilboð um stuðning, já, ekki einu sinni fræðslu fyrir þessa einstaklinga. Það er sannarlega ekki mikill stuðningur eða fræðsla fáanleg fyrir aðstandendur en þó er hún fyrir hendi. En – ekki fyrir sjúklingana. Er það eðlilegt?
Það sem er rangt við þennan texta er að hann skýrir bara frá einni hlið málsins. Tom Kitwood, sem var breskur sálfræðingur, varð frumkvöðull í að berjast gegn þessu viðhorfi. Hann nefndi það „læknisfræðiviðhorfið“ og gagnrýndi það fremur fyrir að vera allt of þröngt en beinlínis rangt. Kitwood sagði að viðhorfið skilgreindi heilabilun eingöngu sem „lífeðlisfræðilegar breytingar í heila“. En sjálfur skilgreindi hann fjóra mikilvæga áhrifaþætti til viðbótar: almennt heilsufar einstaklingsins, lífssögu hans (æviferil), skapgerð og loks – sem er mikilvægast – félagslegt umhverfi hans. Því það sem gerist þegar fólk fær heilabilun er að þá þarf það, eins og margir aðrir sem hafa sjúkdóma eða færniskerðingu, á hjálp umhverfisins að halda til að geta tekist á við ástandið með sem bestum hætti. Kitwood benti á að þessi einhliða sýn ásamt tilheyrandi hörmungarhyggju hefði haft í för með sér mjög slæma hluti fyrir fólk með heilabilun. Hann setti fram hugmyndafræði persónumiðaðrar þjónustu, hugmyndafræði sem lítur á fólk með heilabilun sem heilar persónur sem hafa sjúkdóm – ekki gangandi birtingarmynd sjúkdóms.
Nýlega skrifaði kollegi minn, Ólína Kristín Jónsdóttir, grein í Fréttablaðið um starfsemi Maríuhúss sem er dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun sem hún veitir forstöðu. Þar er texti sem ég sæi meira gagn í að pósta á samfélagsmiðlum en þennan sem ég vitna hér til. Þar segir hún frá öllu því gefandi og uppbyggilega sem hægt er að gera með einstaklingum með heilabilun. Og það þarf ekki endilega fagfólk til. Við getum öll átt góð og gefandi samskipti við fólk með heilabilun – ef við eyðum fordómum á borð við þá sem hér er fjallað um.
Ég nefndi aðstandendur hér að ofan. Eðlilega eru þeir sérstaklega næmir fyrir tal um lifandi dauða og langa kveðjustund. Það er erfitt að fylgjast með sínum nánustu fara aftur og vita að sú afturför verður ekki stöðvuð. Þeim mun mikilvægara er að aðstandendur fái ekki fræðslu með svona boðskap – sem var mikið um en hefur að nokkru dregið úr á seinni árum – heldur fræðslu um hvernig best verður lifað með heilabilun. Athugið það. Lifað með heilabilun – ekki dáið með heilabilun eins og textinn gefur eiginlega til kynna.
Ef hér væri eingöngu um farandtexta á netinu að ræða sem ekki hefði neinar dýpri rætur væri ég ekki að eyða kröftum í blaðagrein um hann. En þessi texti á djúpstæða samsvörun í algengum viðhorfum. Það sýnir m.a. hvernig fólk er að pósta honum áfram. Ég vitnaði ekki í allan textann en í lokin er látið að því liggja að þeir sem ekki geri sér grein fyrir alvarleika málsins þekki ekki til og eigi ekki aðstandendur sem hafa heilabilun. Þannig að ef eitthvað í þessu snertir þig illa þá er fyrirfram búið að stimpla þig sem ómarktæka.
Mér er því mesta ánægja að lýsa því yfir að ég hef verið svo lánsöm að þekkja marga með heilabilun, flesta vissulega gegnum starf mitt, en einnig í einkalífinu. Ég er einnig aðstandandi og já, það er enginn leikur. En ég get ekki hugsað mér að líta á það sem ekkert annað en langa kveðjustund, já, samfellda hörmung þar sem ég opna augun hvern dag hugsandi um hvort þetta sé dagurinn þar sem minn nánasti „hættir að þekkja mig“ eða missir einhverja aðra mikilvæga færni.
Hvað meinum við með að þekkja? Er það að geta sagt hvað ég heiti og hvernig við erum tengd? Eða er það blikið í augunum og hlýjan í snertingunni? Þetta er eitt dæmi þar sem skilur milli þeirra sem einungis sjá allt hið neikvæða í heilabilun og hinna sem bera gæfu til að finna það besta sem hægt er í sjúkdómsferlinu – einn dag í einu.
Það að megna það er á endanum auðvitað ábyrgð hvers og eins. En það getur verið þung ábyrgð fyrir þá sem eru með heilabilun eða eiga aðstandanda með heilabilun og eru þannig undir miklu tilfinningalegu álagi. Stuðningur og fræðsla fagfólks er nauðsyn – og sá stuðningur og sú fræðsla þarf að vera í anda þess sem Ólína Kristín skrifaði en ekki af því tagi sem leggur áherslu á hrörnun og lýsir sjúkdómsferli heilabilunar sem lifandi dauða.
Í fyrsta lagi er það ekki hjálplegt og í öðru lagi er það rangt. Og í þriðja lagi er það stimplandi og mannfjandsamlegt.
Alveg sama þótt ætlunin hafi verið og sé önnur.
Höfundur er sérfræðingur í öldrunarhjúkrun – og manneskja.