Greinendur eru nú farnir að sjá, það sem blasti við að gæti gerst, eftir að íslensk stjórnvöld ákváðu að fara út í fordæmalausar aðgerðir til þess að lækka húsnæðisskuldir sumra Íslendinga um samtals 80 milljarða króna. Það sem nú er byrjað gerast er það, að peningarnir úr ríkissjóði eru farnir að kynda undir hækkun fasteignaverðs, sem síðan fer út í verðbólguna. Sem svo hækkar skuldirnar sem markmiðið var að lækka.
Fasteignaverð hefur á þremur mánuðum, eftir að tilkynnt var um peningafærsluna úr ríkissjóði, hækkað um 4,2 prósent að raunvirði, sem er gríðarlega mikið og á sér fá fordæmi. Verðbólgan hækkaði úr einu prósenti í 1,6 í mars, og þar ræður húsnæðisliðurinn langsamlega mestu, gríðarlega hröð hækkun fasteignaverðs.
Óhætt er að segja að þessi áhrif hafi verið fyrirsjáanleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og varla til sá hagfræðingur sem yfir þetta lagðist, sem varaði ekki við því að þessi aðgerð gæti farið beint út í verðlag og þannig verið sóun á opinberu fé.
Þeir sem hafa gagnrýnt þessar aðgerðir, meðal annars Kjarninn í ritstjórnarskrifum, hafa oft verið settir niður í flokkspólitísk hólf. Að því er virðist til þess að koma í veg fyrir að staðreyndir um þessa aðgerð fáist ræddar, og auðvelda þannig pólitíska bardaga.
Blessunarlega hefur fólk séð í gegnum þetta, eins og kannanir hafa sýnt, og myndað sér skoðun á þessari aðgerð án þess að vera með flokkspólitísk gleraugu. Fylgið hefur verið að tætast af stjórnarflokkunum allt frá tilkynnt var um aðgerðirnar, einkum Framsóknarflokknum. Líklega bjóst Framsóknarfólk ekki við því að það myndi gerast.
Alþingi bíður nú eftir því að fá að sjá skýrslu um þessa aðgerð, þar sem fram mun koma, í fyrsta skipti, hvaða fólk eða hópar það eru sem eru að fara fá þessa 80 milljarða úr ríkissjóði, á tímum erfiðleika í opinberum fjármálum, mikilla opinberra skulda og hárra skatta. Það hafa komið fram upplýsingar, sem virðast sýna að tugir milljarða króna muni renna til efnafólks sem hefur ekkert með peningana að gera, á sama tíma heilbrigðisþjónusta er óviðunandi og aðstoð til þeirra sem eiga ekki fasteign er lítil sem engin. Allt verður þetta að teljast með ólíkindum, og verður því ekki trúað, að svona sé þetta í reynd, fyrr en það hefur verið staðreynt með gögnum.
Þessi gögn þarf að setja upp á yfirborðið, hratt og örugglega.