Málfrelsi, eða öllu heldur tjáningarfrelsi, er rosalega mikilvægt. Sumt fólk skilur ekki hvað það er eða af hverju það er svona mikilvægt. Upplýsingar gera okkur kleift að taka betri og upplýstari ákvarðanir. Til þess að afla okkur eins mikilla upplýsinga og mögulegt er þarf nauðsynlega frelsi til þess að miðla þeim. Allar skoðanir, vondar eða slæmar, falla undir tjáningarfrelsi að því gefnu að þær séu ekki beinlínis hættulegar einhverjum einstakling eða hóp. Dæmi um hættulega tjáningu væri þingmaður að stinga upp á að hópur 1.500 einstaklinga sem hafa ekkert hefur gert af sér þurfi að þola ofsóknir af yfirvöldum. Það að mótmæla byggingu mosku í Reykjavík er ekki slæm tjáning. Það er einfaldlega skoðun, sama hversu vinsæl eða óvinsæl hún er.
Stundum er tjáningarfrelsi misskilið. Einhverjir virðast halda að það sé skjöldur til að hlífa sínum þröngsýnu skoðunum fyrir árásum ,,grátkórs pólitísks rétttrúnaðar” eða lagaleg heimild til þess að afsala sér allri ábyrgð á orðum og gjörðum. Sú fullyrðing að okkur beri skylda til að virða skoðanir annarra er einfaldlega röng.
„Það má ekki segja neitt lengur.“ Ósjaldan hefur maður heyrt þessum orðum hreytt af kátum lögreglumönnum, ölvuðum borgarráðsfulltrúum eða öðrum meiri eða minni spámönnum á kommentakerfum netmiðla þegar talað er um pólitískan rétttrúnað. Það er jafnan undir flaggi málfrelsis sem þessi orð eru mælt og oft ekki löngu eftir að misfordómafullar eða þröngsýnar skoðanir hafa verið viðraðar.
Málfrelsi nær enn yfir þessar skoðanir og ég vona innilega að það haldist svo. Hinsvegar er málfrelsi tvíeggja sverð og það er í þess eðli að allir megi tjá sínar skoðanir, það er ef einhver kýs að tjá sína skoðun, sama hver hún er, mega allir sem heyra hana gagnrýna þá skoðun. Ég endurtek, svo að það komist örugglega til skila: það mega allir sem heyra þína skoðun gagnrýna hana.
Það þýðir ekki að nota sinn rétt til tjáningar, blaðra einhverju þröngsýnu kjaftæði og fara svo í kleinu um leið og einhver notar sinn eigin rétt til tjáningar til þess að gagnrýna fyrrnefnt kjaftæði. Það gengur ekki að ,,þora að segja það sem segja þarf” og ætlast svo til þess að allir taki xenófóbískum og rasískum skoðunum þegjandi. Þorum að segja það sem segja þarf og þorum að taka við gagnrýninni sem fylgir.
Höfundur er menntaskólanemi.