Flest okkar greiða atkvæði í kosningum með að minnsta kosti örlítinn vott af von í hjarta að í þetta skiptið muni niðurstöðurnar verða til þess að eitthvað breytist, eitthvað verði betra en áður, jafnvel þau okkar sem kusu þann flokk sem þú persónulega ert á móti. Við viljum öll trúa því að manneskjurnar sem við höfum lagt okkar traust á séu þeim mannkostum gæddar að standa við gefin loforð og gera lífið okkar betra.
En svo gerist það, eftir kosningar, að við verðum mörg fyrir vonbrigðum eina ferðina enn, líka þau okkar sem að kusu flokkinn sem þú persónulega ert fylgjandi.
Frasar á borð við „sami rassinn undir þeim öllum” og „gleyma grasrótinni um leið og þau komast í þægilega innivinnu” og „það skiptir ekki máli hvern kvár kýs” fara að heyrast og við spyrjum okkur hvernig fólk getur logið svona að okkur og svo svikið okkur strax daginn eftir eins og ekkert sé.
Við erum engan veginn fyrst til að spyrja okkur sjálf að þessu og ef ekkert breytist verðum við ekki hin síðustu til að gera það.
Það er einn enn frasi sem að sést oft í þessu samhengi og kemur hann í allskonar útgáfum en má einfalda niður í tvö orð; „valdið spillir” og þessi frasi kemst ansi nálægt sannleikanum.
Spilling er óheiðarlegt athæfi valdhafa þar sem þau beita sér fyrir persónulegum hagsmunum sínum eða fólki nátengt sjálfu sér. Þessir hagsmunir þurfa ekki endilega að vera fjármunir en það er auðveldara að benda á augljósa spillingu þegar aðgerðir manneskju í valdastöðu veitir nátengdum aðila fjárhagslegan gróða sérstaklega þegar sá einstaklingur er tekin fram fyrir aðra aðila eða samtök almennings.
Það er auðvelt að persónugera spillingu eins og aðra ofbeldishegðun með því að benda á einstaklinginn og segja að hán sé eitt ástæðan fyrir því að slíkt gerist, en því miður er vandamálið flóknara.
Það þýðir alls ekki að hin spilltu séu þar með afsökuð, alls ekki, en við verðum að skoða áhrif valds á manneskjur ef við eigum að raunverulega sporna við spillingu.
Staðreyndin er sú að þegar fólk sér sig sem yfir annað fólk haft, sem öðrum æðri, þá er erfiðara að skilja annað fólk.
Þetta hefur verið rannsakað og á við um okkur öll hvort svo sem við fæðumst með silfurskeið í munni eða allslaus.
Með því að horfa niður á fólk þá missum við getuna til að finna til samúðar og samkenndar með því.
Okkur hætti einnig til þess að vilja trúa því afar heitt að veröldin sé að eðlisfari svo sanngjörn að líkt og Öskubuska þá munum við öðlast völd og auðsæld ef við erum hjartahrein og að þau okkar sem uppskeri volæði hljóti þar af leiðandi að eiga það skilið einhverra hluta vegna.
Hvoru tveggja þessara eru sálfræðilegir þættir sem hafa áhrif á manneskjur.
Ekkert okkar er með öllu ónæmt fyrir áhrifum valda, jafnvel ef sum okkar eru dugleg að tala sig niður og segjast ekki vera öðrum betra með beinum hætti, en stundum tala þau þó um skilningsleysi, öfund, og lélega þekkingu annara sem ástæðu þess að þau hljóti gagnrýni.
Flest okkar hafa orðið vitni af því hvernig sumt fólk misbeitir þeim smávöldum sem fást af því einu að fá að hafa umsjón með fésbókarhópi og virðast umbreytast í allt aðra persónu en áður var.
Sumt fólk er duglegt að spyrna við þessum áhrifum og forðast í lengstu lög að setja sig í aðstæður þar sem það gæti misbeitt völdum sínum.
Samt sem áður þarf ég að endurtaka þá einföldu staðreynd að ekkert okkar er ónæmt fyrir þessum áhrifum.
Því meiri völd og því lengri tíma sem við höfum þau því meiri áhrif hafa þau á getu okkar til þess að yfir höfuð sjá aðrar manneskjur sem manneskjur.
Því hærra sem við erum sett og því færri afleiðingar sem við þurfum að þola því auðveldara verður það að réttlæta misbeitingu valda.
Því meira sem við sjáum okkur sjálf sem leiðtoga, sem bjargvætti, sem ómissandi af einni ástæðu eða annarri, því meira getum við sannfært okkur sjálf um að það sé ekkert athugavert við að við höfum þessi völd og beitum þeim einfaldlega eins og okkur sýnist.
Alþingismenningin okkar augsjáanlega ýtir undir þetta. Háttvirt og hæstvirt prúðbúin þingfólk og ráðherrar sem sum hver sitja bæði í hlutverki framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og hafa setið þar árum saman eru líklegast ekki að fara að breyta þeim kerfum sem veita þeim þau völd og þá upphefð sem gera þau almenningi æðri, né eru þau líkleg til að ganga hagsmuna almennings.
Valdið einfaldlega býður ekki upp á það, og því miður er ekki nóg að breyta um nöfnin sem sitja í þessum stólum.
Ef við viljum raunverulega minnkun á spillingu þá þurfum við að dreifa völdunum á fleiri herðar og takmarka þann tíma sem fólk situr við völdin. Við þurfum úrræði til þess að setja valdhöfum stólinn fyrir dyrnar og stöðva þau þegar þau ganga gegn hagsmunum almennings. Við þurfum að breyta menningunni, breyta kerfinu, og breyta valdinu.
Ef við gerum það ekki þá er einfaldlega spurning um tíma þar til við sitjum uppi með sama vandamál af sömu ástæðum og við gerum í dag.
Það er engin einföld lausn sem mun laga þetta allt á einu kjörtímabili og þetta er ekki sexí sem kosningaloforð, en fyrsta skrefið væri hægt að taka með stjórnarskránni okkar.
Það skiptir nefnilega ekki máli hver fer með valdið ef við breytum ekki hvernig er farið með valdið.
Höfundur er öryrki.