„Ekki síðan í árdaga alnæmisfaraldursins hafa starfsmenn Lækna án landamæra misst svo marga sjúklinga, án aðferða til að hjálpa þeim og aldrei á svo stuttum tíma, dauðinn hraðspólaði frá 10 árum niður í 10 daga.“ Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Lækna án Landamæra, betur þekkt sem Medecins Sans Frontiéres (MSF).
Það var fyrir ári síðan samtökin kölluðu fyrst eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins í baráttunni við versta ebólufaraldur sem heimurinn hefur orðið vitni að. Að minnsta kosti 24.000 manns hafa smitast og meira en 10.000 manns hafa látist. Ebóla hefur eyðilagt líf og fjölskyldur, hún hefur skilið eftir sig djúp sár og klofið félagsleg og efnahagsleg bönd í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne. Hræðsla og örvænting hafa fylgt útbreiðslu vírusins og í dag veit enginn í raun hversu margir liggja í valnum eftir hann eða hversu langan tíma það mun taka að koma í veg fyrir útbreiðsluna.
Alþjóðasamfélagið tók ekki við sér fyrr en ebóluvírusinn var orðin að alþjóðlegri öryggisógn og ekki lengur bara vandamál örfárra þróunarríkja í Vestur-Afríku. Þann 8. ágúst 2014 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) loksins yfir neyðarástandi. Ebóluvíruinn var ógn við lýðheilsu heimsbyggðarinnar. Þessari yfirlýsingu fylgdi gangverk sem losaði um fjármagn og mannauð á miklum hraða, en þá voru þegar 1000 manns fallnir í valinn.
Stærsta ebólumeðferðarmiðstöð sem byggð hefur verið
Læknar án landamæra réðust í það verkefni að byggja stærstu ebólumeðferðarmiðstöð sem byggð hafði verið með 250 rúmum, en það var aðeins dropi í hafið. Undir lok ágústmánaðar gat miðstöðin ekki verið opin lengur en hálftíma í senn á hverjum morgni. Aðeins örfáir sjúklingar fengu pláss í rúmum þeirra sem dáið höfðu nóttina áður. Að senda sjúklinga til baka vegna plássleysis olli því að þeir snéru heim aðeins til að gera illt verra með því að eiga á hættu að smita fjölskyldur sínar af vírusnum. Staðarráðnir sjálfboðaliðar og starfsmenn voru ekki nægilega margir, þar sem þeir höfðu verið með þeim fyrstu til að smitast af ebólu. Útkoman var undirmönnun og var því aðeins hægt að veita hverjum sjúklingi grundvallarheilbrigðisþjónustu. Allt of fáir starfsmenn með allt of marga sjúklinga og aðeins var hægt að sinna hverjum sjúklingi í u.þ.b.eina mínútu í seinn að meðaltali, ástandið var ógnvænlegt. Tölurnar yfir hina látnu voru hræðilegar, jafnvel þó samtökin hafi unnið á mestu átakasvæðum heims er það sjaldséð að missa svo marga sjúklinga ef svo má segja í einum vetfangi.
Eins og minnst var á hér áður þá eru heilbrigðisstarfsmenn oftast með fyrstu fórnarlömbum ebóluveirunnar. Þeir taka á móti sjúklingum sem þjást af sjúkdómi sem lýsir sér í fyrstu eins og almennt kvef, malaría eða annars konar hversdagsleg sýking.
Eins og minnst var á hér áður þá eru heilbrigðisstarfsmenn oftast með fyrstu fórnarlömbum ebóluveirunnar. Þeir taka á móti sjúklingum sem þjást af sjúkdómi sem lýsir sér í fyrstu eins og almennt kvef, malaría eða annars konar hversdagsleg sýking. Heilbrigðisstarfsmenn hafa sýnt mikla þrautseigju og var útnefning tímaritsins Time á manni ársins 2014 sem ebólubaráttumanninum verðskulduð. Starfsfólk og sjálfboðaliðar sýndu styrk sinn þrátt fyrir viðbragðsleysi alþjóðasamfélagsins og tóku að sér erfið og ógeðfelld verkefni, þrátt fyrir að þurfa horfast í augu við félagslega brennimerkingu (stigma) og hræðslu í sínu eigin samfélagi. Sumir staðarráðnir starfsmenn voru yfirgefnir af mökum sínum, kastað út af eigin heimilum og börn þeirra útskúfað frá leikjum við önnur börn. Þrautseigja og árvekni þessa fólks á sér engan samanburð. Margir starfsmenn í ebólumeðferðarmiðstöðvum eru fyrrum sjúklingar, þeir hafa oft á tíðum misst alla fjölskyldu sína á örskömmum tíma og verið úthýst úr samfélaginu. Þeir eiga því engan samastað nema meðferðarmiðstöðina þar sem þeir börðust fyrir lífi sínu, fjölskylda þeirra er horfin til forfeðranna og þeir geta starfað án fordóma.
Krísa innan krísunnar
Fallegar sögur er samt hægt að segja af fjölskyldum og vinum sem hafa þurft að fara í gegnum veirusýkinguna. Til dæmis um drenginn sem átti sér aðeins eina ósk og hún var að horfa á endursýningu úrslitaleiks HM í fótbolta. Önnur er um manninn sem hjólaði fleiri kílómetra á dag til að heimsækja konu sína, en einnig eru til nokkuð skondnar sögur um ást í leynum sem komst upp vegna smits elskenda.
Þegar náttúruhörmungar eins og flóð eða jarðskjálftar eiga sér stað tekur alþjóðasamfélagið yfirleitt við sér á örskömmum tíma með straumi af fjármagni og ýmis konar beinni aðstoð frá samtökum og ríkjum heims, en óttinn við hið óþekkta og reynsluleysi á réttum viðbrögðum við ebólufaraldrinum lamaði flesta fjármagns- og styrktaraðila.
Þegar náttúruhörmungar eins og flóð eða jarðskjálftar eiga sér stað tekur alþjóðasamfélagið yfirleitt við sér á örskömmum tíma með straumi af fjármagni og ýmis konar beinni aðstoð frá samtökum og ríkjum heims, en óttinn við hið óþekkta og reynsluleysi á réttum viðbrögðum við ebólufaraldrinum lamaði flesta fjármagns- og styrktaraðila. Þar voru Læknar án landamæra meðal þeirra sem hræddust. Auk hægra viðbragða, og að koma of seint, þurftu alþjóðasamtök að horfast í augu við að í síbreytilegu umhverfi ebólufaraldursins, þau voru ósveiganleg og áttu því í erfiðleikum með að laga sig að þörfum á vettvangi.Undir lok árs 2014 var orðið ljóst að meðan halda þurfti við árvekni samfélagsins og viðhalda leguplássum í meðferðarstöðvunum var jafnframt ákallandi þörf fyrir að beina kastljósinu að smitleiðum, smitberum sem og öruggum jarðaförum. Ofan á þetta bættist „krísan innan krísunnar“, sem er aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem ekki eru með ebólu. Meðan ebólufaraldurinn herjar hafa dauðsföllum af völdum malaríu, fæðingarerfiðleika og bílslysa margfaldast. Börn hafa ekki fengið bólusetningar og fólk með króníska sjúkdóma eins og sykursýki og berkla hafa ekki fengið aðstoð.
Ár liðið frá neyðarkallinu
Ef litið er til framtíðar þá er lausnin ekki að endurreisa heilbrigðiskerfi landanna til fyrra áhorfs, það er einfaldlega ekki nóg. Nauðsynlegt er að takast á við undirliggjandi veikleika og galla kerfisins, það er óraunhæft að ætlast til breytinga verði sama formúla notuð og áður. Mikilvægt er að vara við kæruleysi meðan faraldurinn stendur enn yfir, hann virðist ekki vera að hægja á sér og jafnvel svæði sem hafa verið talin úr hættu hafa tilkynnt um nýja sjúklinga. Höfuðborg Líberíu hafði verið án staðfestra sýkinga í rúmlega tvær vikur þegar nýtt tilfelli var staðfest um miðjan mars.
Ebóla hefur afhjúpað veikleika alþjóðaheilbrigðiskerfisins og nú er það augljóst að við getum ekki tekist á við óvænta faraldra sem þennan. Heimurinn varð vitni að vanmætti mannúðar- og hjálparsamtaka, vandamál sem hefur verið vel falið í ófréttnæmum átökum eins og Mið-Afríku lýðveldinu og Suður-Súdan.
Nú, að ári liðnu frá fyrsta neyðarkallinu, er enn fjölmörgum spurningum ósvarað. Hvernig gat faraldurinn orðið svo stjórnlaus? Af hverju var heimurinn svona lengi að taka við sér? Hræðslan við hinn óþekkta vírus, óhefðbundnar jarðafarir, vantraust á stjórnmálamenn og léleg heilbrigðiskerfi eru aðeins nokkrar ástæður fyrir útbreiðslu ebóluvírusins um Vestur-Afríku. Baráttan heldur áfram og við getum ekki andað léttar fyrr en enginn er sýktur á svæðinu í 42 daga.
Eitt ár af baráttunni við ebólu.
Höfundur er tengiliður verkefna hjá Læknum án landamæra í Líberíu.